Fyrir nokkrum dögum síðan var ég í skífunni að kaupa geisladiska. Fyrir tilviljun ákvað ég að skoða úrvalið af dvd myndum hjá þeim. Ég kaupi nú eiginlega aldrei dvd diska hér á landi því oftast panta ég frá Bandaríkjunum í gegnum netið. Það sem vakti athygli mína var ný útgáfa af Lawrence of Arabia (Arabíu Lárens). Ég hafði séð þessa mynd þegar ég var lítill í sjónvarpinu fyrir mörgum árum síðan og var ekkert alltof hrifinn enda var myndin óhemjulöng og ég lítill og óþroskaður. Ég keypti nú samt myndina án þess að hugsa mig um tvisvar (Skífan ætti að skammast sín fyrir hátt verð á dvd myndum) því ég hafði nýlega lesið lofsamlega dóma um þessa útgáfu á netinu. Ég fékk nú alveg gríðarlega þörf fyrir að sjá þessa mynd aftur og ég varð sannarlega ekki fyrir vonbrigðum því ég efast um að til sé fallegri mynd né stórbrotnari.
Lawrence of Arabia var gefinn út á dvd í fyrra. Útgáfan inniheldur tvo diska sem innihalda nýja hreinsaða útgáfu af myndinni. Myndin lítur ótrúlega vel út og það mætti halda að myndin hefði verið gerð í dag, svo góð eru gæðin. Einnig hefur verið bætt við frábærri 5.1 dolby digital hljóðrás sem gerir myndina ennþá magnaðri, þ.e. fyrir þá sem hafa hljóðkerfi. Þetta er breiðtjaldsútgáfa sem betur fer því annars myndi svona stórmynd ekki njóta sín jafn vel á skjánum. Aukaefnið er heldur ekki af verri kantinum. Það er klukkutíma heimildarmynd um gerð myndarinnar, viðtal við Steven Spielberg og margt fleira.
Lawrence of Arabia fjallar um liðsforingja í Breska hernum í fyrri heimsstyrjöldinni, Lawrence að nafni. Myndin er byggð á sannri sögu og gerist á árunum 1916-1918. Þessi Lawrence var sendur í eyðimörkina þar sem nú er Jórdanía, Saudi-Arabía og fleiri lönd. Þar átti hann að reyna að sameina ættbálka araba og vinna sigur á Tyrkjum sem réðu þessu svæði og voru bandamenn Þjóðverja. Í stuttu máli þá gerðist kraftaverkið því Lawrence náði að sameina ættbálkana og vannst sigur á Tyrkjaveldi sem svo liðaðist í sundur 1918. Lawence varð einskonar sameiningartákn araba.
Myndin var gerð árið 1962 og er leikstjóri hennar hinn goðsagnakenndi David Lean (1908-1991). Hann hefur gert stórmyndir á borð við The Bridge on the River Kwai (1957) og Doctor Zhivago (1965), báðar margfaldar óskarsverðlaunamyndir. Lawrence of Arabia fékk nokkur óskarðsverðlaun 1963, m.a. fyrir leikstjórn, kvikmyndatöku og tónlist. Í aðalhlutverki er Peter O´Toole og leikur hann Lawrence. Ég hef sjaldan séð annan eins stórleik hjá nokkrum leikara og það er hreint ótrúlegt að hann skyldi ekki fá óskarsverðlaun (var reyndar tilnefndur). Í öðrum hlutverkum eru svo frábærir leikarar svo sem Alec Guinnes, Anthony Quinn og síðast en ekki síst Omar Sharif sem skapar eina efirminnilegustu persónu í kvikmynd frá upphafi. Kvikmyndatakan er sú fallegasta sem ég hef séð og ég efast um að hún verði toppuð nokkru sinni. Mig langaði hreinlega að taka næstu flugvél til Saudi-Arabíu og vera í eyðimörkinni í nokkra daga. Freddie Young fékk óskarinn fyrir kvikmyndatöku. Hann nær að sýna eyðimörkina á ótrúlegan hátt. Eitt atriði þegar arabi einn birtist í fjarska og kemur út úr eðimerkurmistri er fallegasta skot sem ég hef séð (Spielberg sagði það sama um þetta atriði) í kvikmynd. Ég var orðlaus þegar ég sá þetta. Það verða allir að sjá þessa mynd á stórum skjá með góðu hljóðkerfi. Tónlistin í myndinni er eftir franska tónskáldið Maurice Jarre og fékk hann óskarsverðlaun fyrir. Mjög falleg tónlist og er aðallagið algjör klassík. Ef ég mætti segja eitt orð til að lýsa myndinni þá myndi ég segja STÓR. Hún er hátt í fjórir tímar á lengd og notar mörg hundruð aukaleikara. Svona stórmyndir eru því miður ekki gerðar í dag (hugsa með hryllingi um Pearl Harbor) því eins og Steven Spielberg orðaði það þá myndi svona mynd kosta í dag um 300 milljónir dollara. Ég ætla að enda þetta á setningu sem Spielberg sagði og er ég honum fullkomlega sammála: “A miracle of a film”