π
Útgáfuár: 1998
Leikstjóri: Darren Aronofsky
Leikarar: Sean Guellette (Max), Mark Margolis (Sol) og Ben Shenkman (Lenny)
Einkunn á IMDB: 7,5

ATH! EKKI lesa þessa grein fyrr en þú ert búin/n að sjá myndina. Til þess að skilja hvað átt er við verðurðu að vera búin/n að sjá hana.

*SPOILER*

Pi fjallar um Max Cohen, vænisjúkan stærðfræðing sem er í sífelldri leit að reglu í heiminum. Hann trúir því statt og stöðugt að heiminn sé hægt að tákna með tölum og að hann sé einfaldur og fallegur. Hann hafnar allri óreiðu. Því veltir hann því fyrir sér hvort ekki sé hægt að finna eitthvað mynstur innan hlutabréfamarkaðarins. Við leit hans að þessu mynstri rekst hann á 216 stafa tölu sem virðist hafa einhverja dulda merkingu.

Max er mjög ómannblendinn og einangraður og áður en hann fer út á gang í íbúðarblokk sinni athugar hann alltaf hvort gangurinn sé auður. Hann forðast nágrannakonu sína, Devi, en hún virðist hafa einhver konar ummönnunarhlutverk í lífi Max, hún lætur hann fá mat o.s.frv. Max fær auk þess hræðileg köst sem einkennast af verulegum hausverkjum. Í rauninni má segja að sagt sé frá 3 stórum köstum í myndinni; því fyrsta þegar Max var 6 ára og starði á sólina of lengi gegn ráði móður sinnar; í annað skipti opnast hurðin hjá honum og ekkert sést nema sterkt ljós og í þriðja skiptið eftir að hann hefur virt almennilega fyrir sér 216 stafa töluna.

Max segir frá því að í fyrsta kastinu hafi hann “skilið allt” eitt andartak. Á þessu augnabliki hefur hann örugglega hlotið náðargáfuna sem hann hafði og gert hann að því sem hann var; því þarna fékk hann fyrsta höfuðverkjakastið. Í öðru kastinu má e.t.v. líta þannig á að Max hafi fengið einhvers konar vitrun/uppljómun og að Guð hafi birst honum á þessu augnabliki, vegna þess að hurðin hans opnaðist með gríðarlegum krafti og aðeins ljós birtist Max; e.t.v. dýrð Drottins. Kannski má líta á þetta kast sem einhvers konar táknræna fæðingu; að þarna hafi fæðst nýr Max á hærra vitundarstigi, því ef vel er að gáð vaknar hann í fósturstellingunni eftir kastið. Þriðja kastið verður vegna tölunnar.

Þessi 216 stafa tala táknar nafn Guðs í hebresku. Það styður það enn frekar eins og áður sagði að Guð hafi birst honum í 2. kastinu. Seinna í myndinni segir Max líka: “I saw God. I saw everything.” Þegar Max fékk þessa tölu hefur hann ef til vill fengið eitthvað tabú, eitthvað sem enginn maður mátti sjá, eitthvað sem hefði hræðilegar afleiðingar fyrir þá sem ekki voru tilbúnir. Það er greinilegt að Max er alltaf efasemdarfullur, hann er alltaf hræddur við að ýta á Enter, ef til vill finnur hann það á sér að hann sé á hálum ís í þessum rannsóknum sínum.

Lærifaðir Max, Sol, sá einnig þessa 216 tölu en hann hefur greinilega gert sér grein fyrir hvers kyns hætta stafaði af henni og hann reynir hvað hann getur að letja Max í að sækjast eftir að finna mynstur í henni. Sol vann að pí og þá uppgötvaði hann þessa tölu. Max segir í myndinni: “How could he stop when he was so close to seeing pi for what it really is?” Sol hefur greinilega fundið á sér þær hræðilegu afleiðnigar sem þessi 216 stafa tala mundi hafa og hætti því algjörlega rannsóknum sínum. Hann er hræddur um Max og reynir því einnig að forða honum undan tölunni.

Á einum stað í myndinni nefnir Sol einn af fiskum sínum Íkarus, en Íkarus var sonur Deidalosar, sem byggði leikvanginn undir Mínótárusinn í grískri goðafræði. Íkarus og Deidalos sluppu með því að binda fjaðrir við hendur sínar og fljúga. Íkarus flaug of nálægt sólinni, gegn ráði föður síns og það hafði hræðilegar afleiðingar, því hann féll til jarðar og dó. Þessi líking lýsir Max mjög vel. Í fyrsta skipti þegar hann horfði of lengi í sólina hafði það slæmar afleiðnigar; þá fékk hann fyrsta höfuðverkinn. Ef til vill hefur þess óhlýðni orðið til þess að hann fékk einhvers konar skilning sem engum manni var ætlað. Á sama hátt óhlýðnast Max Sol, því Sol reynir sífellt að fá hann til að hætta rannsóknunum en Max þráast við og hefur það hræðilegar afleiðnigar fyrir líf hans.

Þriðja kastið, sem minnst var á áðan, varð rétt eftir að Max var búinn að virða fyrir sér 216 stafa töluna. Þetta styður enn frekar að þarna hafi hann fengið upplýsingar sem hann var ekki tilbúinn að fá. Enda segir rabbíninn Cohen við hann: “It’s killing you because you’re not ready to reiceve it.” Þessi tala hefur greinilega aðeins verið ætluð ákveðnum einstaklingum og Max var ekki einn af þeim. Þessi tala hefur hræðileg áhrif á líf hans og hann er ásóttur af hlutabréfamarkaðinum og gyðingdómnum fyrir það gildi sem þessi tala kynni að hafa í báðum.

Í gegnum myndina drepur Max fullt af flugum. EN undir lokin ákveður hann að hlífa einni þeirra. Er hérna komin vísbending um hærri meðvitund hjá Max, hann sér heiminn í nýju ljósi, hann sér fluguna sem líf en ekki einhver óþægindi og ákveður að þyrma lífi hennar?

Í lok myndarinnar brjálast Max algjörlega og borar inn í hausinn á sér. Hann borar beint í gegnum X-laga ör á hausnum og maður veltir því fyrir sér hvort Guð hafi komið þessari ör fyrir því hann hefur séð að Max væri ekki tilbúinn fyrir töluna og gert eins konar skotmark á hausinn á honum: “Þarna borarðu til að losna við hæfileikana.” Og það er nákvæmlega það sem gerist, Max borar inn í hausinn og hann missir stærðfræðihæfileikana. Það er greinilegt að honum er létt eftir þetta því í síðasta atriði myndarinnar, þegar litla stelpan biður hann um að deila stórum tölum segir hann bara: “Ég veit það ekki” og í fyrsta skipti í myndinni brosir hann.

Hann er frjáls.