Barton Fink Barton Fink
1991
Leikstjórn og Handrit: Ethan & Joel Cohen (Cohen Bræður)

Leikendur: John Turturro, John Goodman, Judy Davis, Michael Lerner, Tony Shalhoub, John Mahoney, Steve Buscemi

Lengd myndar: 116 mínútur

Varúð: Í þessari grein eru alvarlega mikið af spoilerum. Ef þú hefur ekki séð myndina ráðlegg ég þér að lesa þessa grein ekki. Fáðu þér frekar heitt kakó og horfðu á teiknimyndir.



Cohen bræður eru mennirnir á bakvið þessa frábæru mynd. Þeir vinna nánast alltaf saman að öllu bakvið myndirnar sínar, skrifa þær saman, leikstýra þeim saman og pródúsa þær saman. Þeir hafa gert magnaðar myndir alveg síðan þeirra fyrsta mynd Blood Simple kom út árið 1984. Barton Fink kom út árið 1991 og er eitt þeirra besta verk ásamt Big Lebowski, OBWAT og Raising Arizona.

Kvikmyndin fjallar um Barton Fink (Turturro) sem er rithöfundur í New York árið 1941. Þar hefur hann unnið sér inn virðingar fyrir að skrifa leikrit um hinn venjulega mann og þá hluti sem hinn venjulegi maður þarf að takast á við.

Honum er svo boðið að koma til Hollywood og skrifa bíomyndir fyrir capitol fyrirtækið. Hann hefur ekki mikinn áhuga á að fara fyrst en svo ákveður hann að fara. Hans fyrsta verk er að skrifa B-bíomynd um glímumann sem á að vera leikinn af Wallace Beery og það er eitthvað sem Fink er ekkert mjög hrifinn af. Hann telur sig vera listamann og bjóst ekki við að þurfa skrifa um eitthvað svona ómerkilegt eins og glímu.

Fink hefst síðan handa við að skrifa myndina. Hann kemur sér fyrir á litlu ódýru hóteli en á í miklum erfiðleikum með að skrifa myndina. Nágranni hans Charlie/Karl Mundt (Goodman) verður síðan vinur Fink og reynir að hjálpa honum. Fink er hinsvegar of upptekinn af því að tala um ekkert í stað þess að hluta á sögur Charlie.

Fyrstu 2/3 hlutar myndarinnar gætu auðveldlega verið talið leiðinlegir og óspennandi því ekki mikið gerist. Svo kemur lokakaflinn með miklum æsingi. En það er nauðsynlegt að hafa fyrri hlutann óspennandi til að skilja betur plottið.

Það er nefnilega stórt plott í myndinni sem ekki allir sjá, reyndar mjög fáir sjá það. Ég til dæmis sá ekki plottið fyrr en ég sá myndina í annað skiptið og fór virkilega að pæla í þessum spurningum sem komu upp í hugann. Myndin fókusar til að byrja með á Fink, gyðing sem er rithöfundur að reyna skrifa bíomynd um glímumann. Hann fer síðan á þetta hótel og reynir að skrifa þessa B-mynd sem hann á að skrifa. Þar kynnist hann Charlie. Síðan kemur W.P Mayhew drykkfelldi rithöfundurinn inní þetta ásamt konu sinni, Audrey. Þau eru bæði drepin.

Í raun og veru eru allir þessir skrýtnu hlutir sem fara að ske á þessu hóteli ýmundarafl Barton’s. Hann ER Charlie/Karl Mundt, morðingji. Hann býr til allt þetta dæmi í huga sér, sem leið til að brjótast útúr ritstíflunni og að fá sögu um hinn venjulega mann. Charlie er feitur, frekar tilfinningalegur maður, segist vera tryggingarsölumaður en er morðingji. Hann er andstæða Fink’s. Alter-ego Fink’s. Charlie virðist hafa drepið Audrey og Mayhew en í raun og veru var það Barton, þar sem Charlie er ekki til nema í huga Barton’s. Kannski voru Audrey og Maheyw ekki til heldur nema í huga Barton’s.

Svo er líka hægt að tengja karakterinn Barton Fink við Cohen bræður, því Fink er í raun og veru bara rithöfundur sem náði árangri og er boðið að gera Hollywood myndir, hann telur sig vera listamann og vill gera öðruvísi kvikmyndir um hinn venjulega mann, ekki þessar formúlu bull hollywood myndir. Hann á semsagt margt sameiginlegt með Cohen bræðrunum. Ef til vill eru Cohen bræður að setja sig í þennan karakter.

Þetta er kannski allt mjög ruglingslegt fyrir lesendur en ég býst við að þeir sem hafa séð myndina eða aðdáendur Cohen bræðranna skilji mig, ég vona það svo sannarlega.

Kvikmyndin er hreint út sagt frábær, hún er bæði hættulega fyndin og hættulega alvarleg. John Turturro á stjörnuleik og John Goodman er frábær. Steve Buscemi skilar sínu litla hlutverki sem hótelstarfsmaðurinn Chet frá sér snilldarlega enda ekki vanur að klikka. Michael Lerner leikur fitubolluna Jack Lipnick sem stjórnar capitol fyrirtækinu, hann er stórkostlega fyndinn karakter og aðrir standa sig líka vel eins og Tony Shalhloub. Cohen bræður sanna sig enn og aftur sem einhverjir mestu snillingar kvikmyndasögunnar og er þessi mynd þeirra 3ja besta að mínu mati.

Niðurstaða er að myndin er stórkostlega vel gerð og leikin. Þetta er mynd sem er gott að horfa á aftur og aftur til að skilja hana betur. Mæli hrikalega með þessari maður!

9/10