Kvikmyndin Cabaret er bandarísk frá árinu 1972. Aðalhlutverk leika Liza Minelli, Michael York, Helmut Griem, Joel Grey og Fritz Wepper. Fjölmargir aðrir leika í þessari margverðlaunuðu mynd og flestir sýna stórkostlegan leik. Minelli og Joel Gray hlutu Óskarsverðlaun en annars hlaut myndin 8 Óskarsverðlaun, 8 BAFTA verðlaun og 3 Golden Globe verðlaun. Samtals hefur myndin hlotið 28 verðlaun.
Myndin gerist tveimur árum fyrir valdatöku nazista í Þýskalandi. Hún fjallar um þá undirmenningu sem þá átti mjög upp á pallborðið í Þýskalandi. Næturklúbbar sýndu kabaretta sem margir hverjir voru ákaflega grófir, jafnvel á nútíma mælikvarða. Menning allra menningarkima var vegsömuð og talað hefur verið um að menning sam- og tvíkynhneigðra hafi aldrei verið jafn viðurkennd og þá. Allir hópar voru viðurkenndir og frjálsar ástir í hávegum hafðar.
Umgjörð sögunnar er næturklúbburinn Kit-Kat þar sem einkunnarorðin eru Devine Decidance, dásamleg siðspilling, og eiga þau orð vel við. Joel Grey leikur Master of Ceremonies, einhversskonar kynni staðarins. Málaður gróteskri andlitsmálningu syngur hann upphafslag myndarinnar, og eitt frægasta söngleikjalag sögunnar: “Willkommen, Bienvenu, Welcom” og setur þar með tóninn fyrir myndina. Hann lýkur myndinni líka, með upphafstónum lagsins en syngur þá “Auf Wiedersehen”. Minelli sýnir stórleik í sínu fyrsta stóra kvikmyndahlutverki sem divan Sally Bowles, aðalsöngkona staðarins. Henni er falið að syngja annað vinsælasta lag myndarinnar, og titillagið, “Life is a Cabaret”. Hún syngur lagið tvisvar, í fyrra skiptið fjörmikið og áhyggjulaust en í seinna skiptið, í lok myndarinnar, kröftugt og tilfinningaþrungið enda þá búin að glata ást sinni og landið komið undir stjórn nazista, blómatímabili næturklúbbanna lokið og við tekur ofstæki hinnar nýju hreyfingar sem sendir alla helstu næturklúbbagestina rakleiðis í útrýmingarbúðir; gyðinga, smáglæpamenn, homma og tvíkynhneigða. Þetta er þó aldrei sagt beinum orðum í myndinni, allt sem viðkemur nazistum og ógninni sem af þeim stafar er sagt óbeint en þó kristalskýrt.
Kvikmyndin er ótrúlega sterk. Hún er ekki týpísk söngvamynd, Söngatriðin eru einskorðuð við sviðið í Kit-Kat klúbbnum. Þetta er ekki heldur týpísk nazistamynd. En á einhvern ótrúlegan hátt nær hún að vera sterkust í báðum flokkunum. Með því að sýna ekki nazistaofsóknir beint en láta fólki heldur eftir að skilja vísbendingarnar vekur hún upp óþægilegar myndir. Myndir sem þó eru bara í huga þess sem á horfir. Og með því að láta söngatriðin einskorðast við sviðið geta jafnvel þeir sem ekki þola söngvamyndir notið hennar. Dansatriðin eru og nostursamlega útfærð og hæfilega gróf, kannski jafnvel ósvífin. Bob Fosse leikstýrði myndinni og gerði dansatriði og gerir hvort tveggja snilldarlega.