Sunnudaginn 27. febrúar munu óskarsverðlaunin verða afhent, einhver áhrifamestu verðlaun í kvikmyndageiranum.

Sem áhugamaður um kvikmyndir þá langar mig með þessari grein að koma með mína spá á hverjir munu sigra í aðalflokkunum 8. Samt byð ég ykkur um að athuga að þetta er spá á hverjir eru líklegastir til að vinna, EKKI hverjir ættu að vinna.

Óskarsverðlaunin eru þekkt fyrir skandali og þau líta oft framhjá hæfileikum sem augljóslega eru bestir, til að þóknast tíðaranda núverandi tíma(Hin bandaríska Beautiful Mind sigraði hina nýsjálensku LotR:FotR 2002, nokkrum mánuðum eftir árásirnar 9/11). Einnig er leiðinleg venja á óskarnum að reyna að bæta upp fyrir fyrri mistök með því að verðlauna hæfileika sem töpuðu einhverntímann áður (hóst, Denzel Washington fyrir Training Day ).

En áður en komið er að listanum þá er best að minnast á að sjálfur hef ég ekki allar þær myndir sem tilnefndar eru. Uppröðun mína byggi ég á rannsóknum á netinu, blöðum og sjónvarpi. Einkum byggi ég á hverjir hafa sigrað á hinum ýmsu kvikmyndahátíðum (Golden Globe, Screen actors guild award o.þ.h) og hugsunir er að ef ég væri að veðja peningum þá er þetta uppröðunin sem ég teldi líklegust að myndi skila hagnaði.

Besti leikari í aðalhlutverki
1. Jamie Foxx, RAY
2. Clint Eastwood, MILLION DOLLAR BABY
3. Leonardo DiCaprio, THE AVIATOR
4. Johnny Depp, FINDING NEVERLAND
5. Don Cheadle, HOTEL RWANDA

Þessi flokkur er sá auðveldasti til að geta sér til um. Jamie Foxx hefur rúllað upp flestum stærstu verðlaunahátíðum, vann á Golden Globe fyrir besta dramaleikara, vann einnig núna á laugardaginn 5. feb. SAG verðlaunin (Screen Actors Guild) sem eru samtök leikara. Hann er einnig í miklu uppáhaldi í blöðum, tímaritum og skemmtiþáttum og virðist hafa skapað mikið ,,umtal” í kring um sig. Langflestar spádómsvefsíður á netinu spá honum þessi verðlaun og hann virðist langlíklegasti sigurvegarinn líkt og Charlize Theron var í fyrra.

Besta leikkona í aðalhlutverki
1. Hilary Swank, MILLION DOLLAR BABY
2. Annette Bening, BEING JULIA
3. Imelda Staunton, VERA DRAKE
4. Kate Winslet, ETERNAL SUNSHINE OF THE SPOTLESS MIND
5. Catalina Sandino Moreno, MARIA FULL OF GRACE

Hérna aftur á móti er kominn einn sá flóknasti og langerfiðasti flokkurinn, því að mínu mati þá eru þær í efstu fjóru sætunum vel að komnar og svipaðar líklegar til að hrifsa óskarinn.

Hilary Swank set ég í efsta sætið því hún tók Golden Globe fyrir besta leik kvenna í dramahlutverki og einnig SAG verðlaunin fyrir Million Dollar Baby. En fleira kemur til. Árið 2000 vann Hilary, mjög svo óvænt, óskar fyrir Boys Don´t Cry og skaut þar með Annette Bening ref fyrir rass en hún þótti langlíklegust það ár til að vinna fyrir American Beauty. Mun það skaða möguleika hennar að hún hafi unnið áður? Ég tel svo ekki vera. Þvert á móti hafa þónokkrir leikarar landað tveim stykkjum, Tom Hanks er þekktasta dæmið um það.

Þá komum við að henni Annette Bening. Hún gæti unnið á sama viðhorfi og ég tel að hafa hjálpað Denzel Washington að sigra á sínum tíma en það er viðhorfið að hennar tími sé kominn, hún eigi skilið að fá óskar sama hvað hver segir jafnvel þótt frammistaða hennar sé ekki sú besta á árinu. Ekki spillir fyrir möguleikum hennar að hún tók Golden Globe-inn sem besta gamanleikkona.

Imelda Staunton er einnig áhugaverður valkostur. Mynd hennar um Veru Drake, konu sem framkvæmdi fóstureyðingar á sjötta áratugnum í Bretlandi þegar þær voru ólöglegar, hefur fengið lofsamlega dóma. Sérstaklega framistaða Imeldu Staunton. Ef farið er á hlekkinn
 http://www.imdb.com/features/rto/2005/critics
Kemur fram listi frá 15 gagnrýnendasamtökum víðsvegar um Bandaríkin sem hver um sig velur bestu framistöðu í stærstu verðlaunaflokkunum. Athygli ætti þá að vekja að Imelda Staunton er talin best hjá 8 samtökum, langoftust en nokkur annar. Það sem skaðar möguleika hennar þó er að hún leikur konu sem framkvæmir fóstureyðingar, eitthvað sem er mjög viðkvæmt í Bandaríkjum sem og þjóðernið en hún er bresk og lítið þekkt utan Bretlands.

Loksins kemur svo að persónulegu uppáhaldi mínu, Kate Winslett. Staða hennar í flokknum er nokkuð einstök, hún hefur oftast verið tilnefnd af öllum hinum leikkonunum eða 4 sinnum með Eternal Sunshine… og er aðeins þrítug. Vel virt og vinsæl, hún á metið að vera yngsta leikkonan með flestar tilnefningar til óskarsverðlauna sem gæti virkað henni til framdráttar. Þótt fáir spái henni verðlaunum þá er vel mögulegt að hún yrði jóker kvöldsins og kæmi öllum á óvart með sigri.

Að gefnu tilliti ætti að nefna að undirritaður er mjög svo sár að Eternal Sunshine… skildi ekki hljóta fleiri tilnefningar, algjör skandall.

Catalina Sandino Moreno set ég í neðsta sætið vegna skorts á upplýsingum um framistöðu hennar þótt talið verður seint líklegt að hún standi uppi sem sigurvegari. Það er jú heiður að vera tilnefnd er það ekki?

Besti leikari í aukahlutverki
1. Thomas Haden Church, SIDEWAYS
2. Morgan Freeman, MILLION DOLLAR BABY
3. Clive Owen, CLOSER
4. Jamie Foxx, COLLATERAL
5. Alan Alda, THE AVIATOR

Hér tel ég þá þrjá efstu vera nokkuð jafn líklega til að vinna en Thomas Haden Church er sá sem ég ætla að veðja mínum peningum á. Sideways er í miklu uppáhaldi hjá stóru gagnrýnendunum þarna úti og ef farið er á hlekkinn sem vísað var áðan á þá er Thomas Haden Church valinn besti aukaleikarinn af flestum þeirra.

Morgan Freeman staðset ég naumlega á eftir Thomas. Það eru í raun tvö atriði sem ég tel að geri hann líklegan. Í fyrsta lagi þá vann hann SAG verðlaunin núna 5.febrúar sem besti aukaleikari og í öðru lagi þá er þetta fjórða tilnefningin hans til óskarsverðlauna og af mörgum greinum sem ég hef lesið á netinu þá telja margir að það sé löngum kominn tími á að hann fái einn óskar.

Persónulega tel ég að hann hafi verið rændur árið 1995 þegar hann vann ekki fyrir The Shawshank Redemption

Clive Owen tel ég vera jafnlíklegan og Morgan Freeman að vinna. Hann tók Golden Globe verðlaunin, og á lista 15 gagnrýnendanna þá er hann valinn næstoftast sem besti leikarinn á eftir Thomas Haden Church.

Restin, Jamie Foxx og Alan Alda þykja mér nokkuð ólíklegir sigurvegarar, þótt Jamie Foxx eigi möguleika á að standa uppi sem tvöfaldur sigurvegari sem besti leikari og aukaleikari hefur það aldrei gerst, tvöfaldur sigur hjá leikara á sama ári.

Besta leikkona í aukahlutverki
1. Natalie Portman, CLOSER
2. Virginia Madsen, SIDEWAYS
3. Cate Blanchett, THE AVIATOR
4. Sophie Okonedo, HOTEL RWANDA
5. Laura Linney, KINSEY

Þessi flokkur er einnig skemmtilega erfiður að veðja á. Mín spá er að hin mjög svo flotta Natalie Portman standi uppi sem sigurvegari, þótt að hún sé ekki endilega augljóstasta valið. Þrisvar á seinustu 10 árum hafa ungar leikkonur hreppt þessi verðlaun þegar fáir bjuggust við þeim sem sigurvegurum (1994 - Anna Paquin, 1996 -Mira Sorvino, 2000 -Angelina Jolie) og ég tel að með óvæntum sigri á Golden Globe hafi Natalie Portman öðlast nokkurskonar Americas Sweetheart ímynd sem að akademíumeðlimirnir fíli og því verði hún valin sem bestu aukaleikkonu.

Virginia Madsen og Cate Blanchett deila í raun öðru sætinu saman, en þær finnst mér jafnlíklegar til að vinna á eftir Natalie Portman. Frú Madsen er í miklu uppáhaldi hjá gagnrýnendum eins og myndin hennar Sideways og ef ég vísa enn og aftur á hlekkinn með 15 gagnrýnendum þá rústar hún samkeppninni þar, er langoftust talin besta aukaleikkonan.

Cate Blanchett þykir gjörsamlega umbreytast í goðsögnina Katharine Hepburn, landaði SAG verðlaununum sem besta aukaleikkona og það gerir hana að sterkum kandítata. Einnig er mikið talað um á netinu að hún hafi átt skilið að fá óskarinn hennar Gwyneth Paltrow árið 1999.

Laura Linney, þrátt fyrir að vera mikil gæðaleikona, er mjög ólíklegur sigurvegari sem og hin óþekkta Sophie Okonedo fyrir Hotel Rwanda.