Once Upon a Time In The West Síðastliðnu vikur hef ég verið að horfa mikið á þessa gömlu “Spaghetti” vestra eftir leikstjórann Sergio Leone. Sergio Leone hefur gert mjög margar góðar myndir í gegnum tíðina og þar má nefna myndir eins og “A Fistful of Dollars”, “For a Few Dollars More” og síðast en ekki síst hina vinsælu “The Good, The Bad and the Ugly”. En ég verð að benda á að “A fistful of dollars” og “For a few dollars more” eru upprunalega myndir frá japanska leikstjóranum Akira Kurosawa og heita þær “Yojimbo” og “Sanjuro”. En þótt að Sergio Leone hafi fengið þessar myndir “lánaðar” fá Kurosawa þá þýðir það ekki að þær séu einhverjar slæmar “remakes” heldur eru þær með bestu myndum sem ég hef séð og bestu kúrekamyndir sem gerðar hafa verið, að mínu mati. En myndin sem ég ætla að fjalla um heitir Once upon a time in the west og er gerð árið 1968 og er eiginlega fyrsti hlutinn af þrenningu af myndum sem bera allar heitið “Once upon a time…”

Once Upon a Time In The West gerist í Bandaríkjunum á þeim tíma sem villta vestrið var og hét og kúrekar og útlagar voru áberandi hluti af lífinu. Myndin byrjar á atriði á lítillri lestarstöð í Bandaríkjunum. Á þessari lestarstöð birtast þrír útlagar í síðum brúnum rykfrökkum. Þeir taka yfir þessa lestarstöð, sem gömul hjón reka, og eftir það bíða þeir. Á næstu 10 mínúturm gerist bókstaflega ekki neitt. Þessir útlagar bíða bara og bíða og eru eitthvað að dunda sér þarna. En þótt það gerist ekki neitt þá var ég samt heillaður af flottri myndatöku og hljóðum í venjulegum hlutum sem mynda eins konar tónlist á meðan þessir þrír skítugu útlagar bíða eftir einhverju. En eftir hverju eru þeir að bíða? Í myndinni er það augljóst að þeir eru að bíða eftir lest en hvað er svona merkilegt við þessa lest? Að lokum kemur lestin og stoppar hún á þessari lestarstöð, sem þessir þrír útlagar eru búnir að taka yfir. Það kemur enginn útúr lestinni og nokkrum pökkum er hent á jörðina. Mennirnir þrír horfa á hvorn annan furðu lostnir og ákveða síðan að fara. En rétt áður en þeir fara fer lestin af stað og þá kemur í ljós að það stendur persóna hinum megin við lestina. Útlagarnir þrír taka ekki eftir þessari persónu fyrst en skyndilega heyra þeir í munnhörpu. Þeir snúa sér við og þar stendur maður sem maður sér ekki framan í en maður heyrir samt í þessu skringilega lagi sem maðurinn spilar á í gegnum munnhörpuna. Maðurinn sem spilar á munnhörpuna spyr um mann sem heitir Frank. Útlagarnir þrír segja að Frank hafi sent þá. Maðurinn með munnhörpuna spyr þá hvort þeir hafi komið með hest handa sér og þá segir einn útlaganna “Looks like we’re shy of one horse” og þeir allir nema maðurinn með munnhörpuna, hann segir: “You brought two too many”. Eftir þessar setningu verður gífurleg þögn og upp úr þögninni kemur byssubardagi þar sem þrír menn missa lífið.

En þetta voru bara aðeins fyrstu fimmtán mínúturnar úr myndinni. Það sem gerist seinna meir er frábær og magnaður söguþráður. Sagan segir frá manninum sem kom úr lestinni í byrjun sem er bara kallaður “Harmonica”. Sagan fjallar um “Harmonica” og leit hans að manninum Frank. Frank er maður þekktur og valdamikill maður á þessu svæði. Þótt hann sé valdamikill þá þýðir ekki að hann sé einhver hetja. Hann er örugglega sá einn versti morðingi sem til er á þessum slóðum. En hann “Harmonica” á eitthvað vantalað við hann Frank og það kemur allt í ljós í endann á myndinni af hverju þessi dularfulli “Harmonica” vill svona mikið hefna sín á Frank.

Í myndinni kynnumst við líka öðrum áhugaverðum persónum eins og Cheyenne, útlaga sem stjórnar sinni eigin klíku og gengur síðan í lið við Harmonica. Síðan kynnumst við hórunni Jill McBain frá New Orleans sem ætlaði að stofna nýtt líf með nýja manninum sínum í villta vestrinu en úr því var ekkert því hann Frank gamli slátraði allri fjölskyldunni útaf stórri ástæðu sem kemur í ljós síðar í myndinni. Sagan snýst mikið um þessa konu Jill McBain eins og “tagline” myndarinnar segir: “There were three men in her life. One to take her… one to love her… and one to kill her”

Aðalleikarar myndarinnar eru ekki af verri kantinum en þeir sem fara með helstu hlutverk eru Charles Bronson sem leikur Harmonica, Henry Fonda sem leikur hin illa Frank og Jason Robards sem fer með hlutverk Cheyenne. Tónlistin úr myndinni er líka gífurlega stór hluti og myndar magnað andrúmsloft þessa tímabils. Maðurinn sem sér um tónlistina heitir Ennio Morricone og gerði hann líka tónlista fyrir hinar “Spaghetti” vestra Sergio Leone eins og “The Good, the bad and the ugly”. Metallica aðdáendur ættu að þekkja verk Ennio en hann samdi einmitt “The Ecstasy of gold” sem er klassíska lagið sem byrjar oft Metallica tónleika. Ef þið hafið ekki heyrt í Ennio Morricone byrjið þá að hlusta á hann núna! Með þessari ótrúlega flottu tónlist Ennio og magnaðri myndatöku og leikstjórn Sergio Leone kemur út ein flottasta kúrekamynd allra tíma. Mynd sem heldur manni við efnið allan tíman með góðum söguþráði og endi sem er með einn af flottustu einvígis bardögum “Spaghetti” myndanna. Þessari mynd ætla ég að gefa 5 stjörnur af 5 mögulegum.

Takk fyrir það

Once Upon a Time in The West
Leikstjórn: Sergio Leone
Handrit: Sergio Leone, Bernando Bertolucci og Dario Argento
Aðalhlutverk: Charles Bronson, Henry Fonda, Jason Robards og Claudia Cardinale

Einkunn á imdb.com: 8.7/10 – Sæti 30 yfir bestu myndir allra tíma
Roadrunner: *****/*****


Kv. Roadrunne