Stundum er maður alveg gáttaður á því hvernig fullorðnir menn geta gert myndir eins og Hercules in New York, maður getur ekki annað en hugsað að þeir hljóti að vera eitthvað vangefnir. Þriðja flokks myndir sem eru svo lélegar að það er fyndið, eins og sú sem þessi grein er um, eiga sér stóran aðdáendahóp. Sú skelfilegasta af þeim öllum er “meistaraverk” Ed Wood, Plan 9 From Outer Space en ég get sagt ykkur það að hann Herki Sterki stendur henni ekki langt að baki.

Arnold Schwarzenegger er hér í sínu fyrsta hlutverki, nýkrýndur herra alheimur og hefur svo sannarlega ákveðið að sýna heiminum hvað hann er með flotta vöðva. Af þeim 90 mínútum sem myndin gengur er hann sennilega ber að ofan í 70. Alltaf er fundin einhver ástæða til þess að hann fari úr að ofan. Hey, ég ætla í spjótkast…best að fara úr að ofan. Þarna er plakat með mynd af Herkúles en hann er ekki líkur mér, best að fara úr að ofan og sýna gellunni það. Ég datt ofan í sjóinn og er blautur, best að skella sér bara úr skyrtunni.

Myndin er um Herkúles, augljóslega. Hann er orðinn þreyttur á því að vera fastur upp á Olympus fjalli (eða “Tierrd of zhe zhame old rouhtines” eins og Arnie, sem er nýkominn til USA og kann ekki Ensku, segir með sínum sprenghlægilega hreim) og vill fara að skoða heiminn, þannig hann flýgur niður Bandaríkjanna. Hann lendir ofan í sjó og fer í skip. Þaðan er hann fluttur til New York en lendir í einhverjum vandræðum á skipinu. Það var víst einhver misskilningur um það að hann hefði ekki viljað vinna. Þess vegna ræðst öll áhöfnin eins og hún leggur sig á hann og þá byrjar rosalegt bardagaatrið þar sem hann rotar menn með því að kíla tveimum metrum frá andlitinu á þeim og kastar þeim til og frá. Svo fer hann úr skipinu á höfninni en áður en hann gerir það ákveður hann að lifta einhverjum risakassa og kasta honum upp í loftið, af hverju? Ekki spyrja mig. Örugglega að sömu ástæðu og hann veltir leigubíl seinna í myndinni, og stöðvar lyftara á ferð með því að grípa hann. Í þessum atriðum í myndinni getur maður ekki annað en hugsað “hvað í andskotanum ertu að gera?!”, “hver er tilgangurinn?”.

Herkúles eignast vin þarna í New York, það er lítill gyðingur sem heitir Pretzie. Þvílíkur meistari. Alltaf þegar Herki lyftir bílum eða slær met í spjótkasti kemur þessi undrunarsvipur á hann Pretza. Hann galopnar munninn og augum og blikkar þeim nokkrum sinnum. Þennan svip kemur hann með svona 15 sinnum í myndinni og hann klikkar aldrei.

En lífið þarna í New York er ekki bara dans á rósum. Pabbi hans, Zeus, er óánægður með það að hann sé farinn frá Olympus fjalli og er gríðarlega reiður. Hann sendir því einhvern niður til að blablabla æji hverjum er ekki sama. Það er ansi fyndið að hann Zeus verður reiður í öllum atriðum sem hann er í. Og þegar hann verður reiður gerir hann það sem allir þrumuguðir gera, kastar eldingu. Og hvernig er þessi elding? Beyglað járn sem springur, rosalegar tæknibrellur! Atriðin þarna uppi á fjallinu er ansi langdregin og maður verður frekar þreyttur á þeim. En það sem reddar þeim samt er það að þetta er greinilega tekið upp í myndveri í stórborg, og maður heyrir í umferðinni fyrir utan.

Og svo er rúsinan í pylsuendanum, eitt besta atriði sem ég hef séð í bíómynd. Þegar Herkúles slæst við skógarbjörn. Hann er á hestvagni með kærustunni sinni og sér björn, af einhverjum ástæðum ákveður hann að vaða bara í björninn og lemja hann. Björninn er stór maður í öskudagsbúning sem er svo lélegur að maður sér aftan á hálsinn á manngreyjinu sem af einhverjum ástæðum endaði í þessu hlutverki. Hercules lyftir byrninum upp og fleygjir í jörðina, svo kílir hann aumingja bangsann í rot.

Í enda myndarinnar hefur Herki misst guðlega kraftinn sinn (úps, þetta var víst spoiler, æ ég held að þið verðið bara að lifa með því). Hann lendir þar í miklu veseni því mafíósar ráðast á hann og lemja í klessu. En þá ákveður einn guðinn á Olympus fjalli að senda til hans hjálp. Hann sendir Atlas og Samson. Eins og fróðir menn ættu að vita á Atlas, samkvæmt grískri guðafræði að vera eini maðurinn sem heldur uppi himninum þannig hann hefur greinilega bara sleppt því á meðan hann fór í slagsmálin. Og Samson er ekki einu sinni úr Grískri guðfræði, hann er úr biblíunni.

Fáið ykkur Hercules in New York ef þið viljið hlægja, hún kostar ekki nema 699 kall í Hagkaup.