Bíóferð mín á The Incredibles Ég ákvað fyrir stuttu að skella mér á The Incredibles með tveimur vinum mínum. Ég hafði beðið eftir henni með mikilli eftirvæntingu og gert mér vægast sagt miklar vonir. Við höfðum verið í vandræðum með að redda okkur fari niður í álfabakka svo að við komum örlítið seint. Þegar í bíóið kom blasti við okkur röð úr miðasölunni sem náði alveg að nammisölunni (Það eru 4 raðir að mig minnir :S). Eftir langa bið komum við loksins að miðasölunni og náðum miðum, en þegar inn í salinn kom sjáum við að það eru bara laus sæti í tveimur neðstu röðunum. Nú var mig farið að gruna að þessi bíóferð ætti ekki eftir að verða góð. Við setjumst fullir trega niður í 2. röð frá tjaldinu og byrjum áhorfið.

Myndin fjallar um það að Mr. Incredible/Bob Parr og Elastigirl/Helen Parr ákveða að hætta ofurhetjustörfum og stofna fjölskyldu. Þau eignast þrjú börn og tvö þeirra hafa ofurkrafta. Dashiell “Dash” getur hlaupið óeðlilega hratt og Violet getur gert sig ósýnilega og gert eins konar aflsvið (force field). Þegar Bob er rekinn úr vinnunni ákveður hann að taka tilboði sem hann fékk um að sinna smá ofurhetju störfum. Bob kemst svo að því að yfirboðarar sínir eru ekki allir þar sem þeir eru séðir og lendir í gríðarstórum bobba. Helen kemst að því hvar hann er og fer á eftir honum, en hún veit ekki að börnin lauma sér með. Úr þessu hefst gríðarskemmtilegt ævintýr.

Brad Bird leikstjóra og handritshöfundi myndarinnar tekst að skapa frábæra mynd og að mínu mati bestu Pixar myndina (þó hef ég ekki séð Finding Nemo). Handritið er hreint út sagt stórkostlegt og heppnast frábærlega. Persónurnar eru mjög skemmtilegar og gaman að fylgjast með fjölskyldulífinu hjá ofurhetjum . Samtölin eru gríðarlega skemmtileg og einstaklega fyndin. Hvergi er að finna dauðan punkt í myndinni og er það að þakka einstaklega skemmtilegu og hnyttnu handritinu.

Mér þykir Brad einnig hafa tekist mjög vel upp með val á leikurum. Hann var ekkert að velja einhverjar stórstjörnur en allir skiluðu verki sínu vel og ég vil undan engum þeirra kvarta. Þess má til gamans geta að hann talar sjálfur fyrir eina persónuna en það er hin skemmtilega persóna Edna ‘E’ Mode. Craig T. Nelson ljáir sjálfum Mr. Incredible rödd sína á skemmtilegan hátt og einnig er vert að minnast á Samuel L. Jackson en hann er frábær sem ofurhetjan Frozone.

Tæknilega hliðin á myndinni þótti mér líta mjög vel út. Þó svo að ég hafi ekki mjög mikið vit á þessu þá fannst mér þetta mjög flott. Jafnvel það sem er í bakgrunni er flott og raunverulegt.

Tónlistin var eins og flest annað mjög vel unnin. Hún passaði mjög vel inn þar sem hún var sett en var þó ekki of áberandi. Skapaði rétta stemningu fyrir áhorfandann.

Þetta byrjaði sem versta bíóferð sem ég hef upplifað en endaði sem ein sú besta. Eins og ég sagði þá finnst mér þessi mynd standa uppúr því úrvali ef Pixar myndum sem ég hef séð þó góðar séu. Brad Bird tekst að láta allt passa saman og skrifa alveg hreint frábært handrit sem kemur út sem ein besta mynd þessa árs. Ég gef myndinni hiklaust 3.5 stjörnur af 4 mögulegum.

Ég ætla að enda þetta á tveimur skemmtilegum “quote-um” úr myndinni.
Mr. Incredible: No matter how many times you save the world, it always manages to get back in jeopardy again. Sometimes I just want it to stay saved! You know, for a little bit? I feel like the maid; “I just cleaned up this mess! Can we keep it clean for… for ten minutes!”

Underminer: Behold, the Underminer! I'm always beneath you, but nothing is beneath me! I hereby declare war on peace and happiness! Soon, all will tremble before me!