Ég hef hingað til ekki lagt það í vana minn að skrifa dóma inn á svona síður, en nú skal breyting verða á. Ástæða breytingarinnar er m.a. dómur Sæbjörns Valdimarssonar um þessa mynd í Morgunblaðinu. Þar gefur hann henni 3 stjörnur og mælir með henni sem hinni bestu skemmtun. Maður spyr sig hvort stjörnurnar þrjár hafi myndin fengið út af vorkun gagnrýnanda á íslenskum kvikmyndaiðnaði. Því ef þetta er það besta sem við getum sent frá okkur erum við í meiri vandræðum en ég hélt og eigum ekkert annað en vorkun skilið. Í takt við tímann er algerlega ein alleiðinlegasta íslenska mynd sem ég hef nokkurntíma séð. Hún trónir ofarlega á topp 5 yfir slíkar myndir með Fálkum (fæ enn gæsahúð), Opinberun Hannesar, Stellu í framboði og hinum ýmsu myndum Hilmars Oddssonar. Þá er ég ekki að tala um fagleg gæði vinnslunar á þessum myndum (sem er misjöfn), heldur þá einföldu staðreynd að þær eru smekklausar og hrútleiðinlegar. Í takt við tímann plumar sig vel meðal þessara mynda og er ég ekki frá því að botninum sé jafnvel náð í íslenskri kvikmyndagerð.
Frá því að ég heyrði að ætti að gera þessa mynd sagði ég það væri slæm hugmynd. Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Sú helsta er að Með allt hreinu er alveg sú alskemmtilegasta íslenka mynd sem gerð hefur verið. Ég get horft á hana endalaust. Lögin eru frábær og allur sá andi sem svífur yfir vötnum er alger snilld. En það að ætla að fanga þennan anda aftur er eins og að reyna að fanga eldingu í krukku, það á bara aldrei eftir að ganga upp.
Önnur ástæða er sú að Stuðmenn eru orðnir GAMLIR. Gamalt fólk hefur ekki lengur þann sköpunarkraft sem það áður hafði og það er óumdeilanleg staðreynd lífsins. Þetta er eins og Sick Boy sagði í Trainspotting: “We get old and can´t hack it anymore”.
Svo er náttúrulega fjarvera Valgeir Guðjónssonar. Ég er ekki frá því að Valgeir hafi verið mjög mikill drifkraftur á bak við Með allt á hreinu. Hvernig hefði verið að grafa stríðsöxina, gott fólk, og fá Valgeir aftur inn til að gera myndina. Ég man eftir viðtali við Ágúst Guðmundsson þar sem hann var að tala um hvað Valgeir hefði alltaf verið uppfullur af hugmyndum þegar þeir voru að gera fyrri myndina. Mig minnir að hann hafi átt hugmyndirnar af mörgum af fyndnustu atriðum myndarinnar.
Svo er það síðasta og það mikilvægasta. Það var ekki skrifað handrit af myndinni (og ég kalla 15 blaðsíðna atriðalista ekki handrit) og svo á að treysta á sköpunargáfu aðstandenda til að fylla upp í restina. Slíkt er allt gott og blessað ef þú ert ungur og graður, en ekki ef þú ert kominn með gangráð og gláku, og ert farinn að hlakka til að fá ellilífeyrinn borgaðan. Myndin er sundurlaust samansafn af atriðum sem eru frá því að vera brosleg niður í að vera skammarleg. Ég ætla ekkert að taka það af þeim að þeir áttu alveg nokkra ágæta brandara og tvo til þrjá góða spretti. Það er hinsvegar ekki nóg þegar þú ert að biðja fólk að fara út úr húsinu sínu, skafa af rúðunum, setjast inn í kaldan bílinn og keyra svo í ófærð, bara til þess eins að borga 1000 kall til að sjá einhvern stefnulausan hroðbjóð. Aðstandendur myndarinnar hefðu allt eins geta keypt eina VHS vídjóspólu, sett á rec og svo kveikt í skattpeningunum okkar, dansað í kringum eldinn og hlegið upp í opið geðið á okkur. Ég held að það sé komið að því að kvikmyndamiðstöð hætti að ausa peningum í útbrunnin gamalmenni og fari að taka sénsa á yngra fólki. Því hver verður menningararfleifð okkar sem erum ung í dag eftir 20 ár? Myndir eftir útbrunna meistara? Ég held að það sé komið nóg af öllum þessum Næslöndum, Fálkum, Opniberunum Hannesar og Hilmari Oddssyni eins og hann leggur sig. Við viljum fá okkar Sódómu, okkar Stellu og okkar Með allt á hreinu, en ekki aumkunarverð framhöld og nýjar myndir frá sama fólkinu, sem komast ekki í hálfkvist við fyrri verk þeirra. Við eigum betra skilið. Ég er ekki að mæla með því að við lógum þessu fólki í faglegum skilning, heldur mætti nota þau til að aðstoða nýtt hæfileikafólk við að koma sínum verkum upp á hvíta tjaldið.
Að lokum vil ég koma inn á hlut Eggerts Þorleifssonar í myndinni. Því af mörgu slæmu (og það er af nægu að taka) er hann það alversta við þessa mynd. Allur hans þáttur er þvingaður og ófyndinn. Ég hreinlega skammaðist mín yfir þessum atriðum sem gaurinn var í. Þessi mynd minnti mig á lélegt áramótaskaup, en það þarf ekki að koma á óvart, enda leikstjóri hennar fagmaður í slíku. Ég mæli samt eindregið með því að fólk fari á myndina, bara svo það vita hvað það er að segja þegar það rakkar hana í spað, því hún á ekkert annað skilið. Það má vera að sumum finnist þessi grein aðeins of harðorð, en svona er lífið og ef við getum ekki komið fólkinu með völdin í skilning um sannleikann, verðum við föst í sama farinu að eilífu.