Bad Santa Ef þú ert búinn að fá nóg af hlýjum, hjartnæmum og kátulegum jólamyndum, þá er Bad Santa mynd fyrir þig. Þetta er bleksvört en um leið stórskemmtileg gamanmynd sem er dásamleg nýjung fyrir jólamyndageirann. Í stuttu máli er þetta eins og The Grinch, nema bara fyrir fullorðna. Billy Bob Thornton er hreint út sagt frábær í hlutverki svindlarans í jólasveinabúningi sem drekkur, blótar, rífur kjaft og hvað annað. Karakter hans er svo kaldhjartaður og örugglega fimm sinnum meiri fílupúki heldur en Trölli og jafnvel Scrooge samanlagðir. Það er þó akkúrat útaf þessum karakter sem ég mæli með myndinni. Og þar sem að þetta er ætluð að vera svört gamanmynd, þá er ljóst að henni var ætluð að vera svona ósmekkleg og andstyggileg. Sumir eru eflaust viðkvæmir við að sjá ölvaðan jólasvein blóta gagnvart smákrökkum - en gleymið ekki - þetta er allt gert í gríni. Sumt er vissulega algjörlega út úr kú og virkar ekki húmorinn alltaf, en í mörgum tilfellum er myndin alveg óborganlega fyndin. Mér fannst samt eins og persónudýpt hefði mátt vera meiri, og þá sérstaklega fyrst að leikstjórinn sé sá sami og sá um hina persónudrifnu Ghost World (sem var mjög góð mynd by the way). En eins og ég tók fram, ef þú vilt ekki sjá fleiri væmnar eða fullhlýjar jólamyndir lengur, þá er víst skylda fyrir þig að tékka á þessari.

Ég gef henni 8,7 af 10.

K.K. bonzi