Ég verð að deila með kvikmyndaunnendum Huga bestu mynd sem ég hef séð hingað til þetta árið. Raunar á ég afar erfitt með að sjá fyrir mér að ég eigi eftir að sjá betri mynd á þessu ári, því kvikmyndin Oldboy er hreint út sagt meistaraverk af bestu gerð.

Myndin er frá Suður-Kóreu, eins og svo margar af bestu myndum síðustu ára (kíkið endilega á JSA - Joint Security Area, Attack the Gas Station, Failan, My Sassy Girl og fleiri) og er leikstýrt af einhverjum mest spennandi kvikmyndagerðarmanni í dag, Chan-wook Park. Þessi mynd, Oldboy, er önnur mynd í þríleik sem hann er að gera þar sem mótívið er hefnd. Sú fyrsta var Sympathy for Mr. Vengeance (2002) sem var alveg frábær. Oldboy er sem áður segir önnur í röðinni, og er hann nú að gera þá þriðju sem mun bera heitið Sympathy for Lady Vengeance.

Oldboy, sem fékk Grand Prix verðlaunin á Cannes kvikmyndahátíðinni síðast (enda er Quentin Tarantino mikill aðdáandi myndarinnar), fjallar um Oh Daesu. Oh Daesu er frekar aumkunarverður gaur sem rankar í stórum fangaklefa sem er innréttaður eins og íbúð eftir að hafa verið rænt meðan hann var á fylleríi. Enginn vill tala við hann, segja honum hvað hann á að hafa gert og hann hittir engan. Mat er rennt inn til hans reglulega í gegnum gat neðst á hurðinni, en það eru einu samskiptin sem hann hefur við umheiminn. Hann hefur aðeins aðgang að sjónvarpi og sér í fréttunum að kona hans hefur verið myrt og að hann sé sá sem lögreglan gruni mest um morðið. Nokkrum árum síðar, þegar hann fer að sætta sig við að verða ekki hleypt út, fer hann að þjálfa sig líkamlega og reyna að brjótast út af sjálfsdáðum. Þegar hann er búinn að vera í 15 ár inni og er næstum því búinn að brjóta sér leið í gegnum múrvegginn á klefanum, kemur svefngas inn um hurðina sem rotar hann. Hann vaknar uppi á húsþaki í miðri borg og hefur þá leit að því hver það var sem lokaði hann inni, komast að því af hverju, og hefna sín á eins grimmilegan hátt og völ er á. Meira vil ég ekki segja um söguþráð myndarinnar, en því minna sem maður veit fyrirfram, því betra.

Uppbygging myndarinnar er með eindæmum sterk og sýnir Park gríðarlega sterkt vald á myndmálinu. Hann hefur alveg sérstakan stíl og í samráði við klippara sinn nær sérstaklega vandaðri og kröftugri nálægð alla myndina. Þar að auki vil ég sérstaklega minnast á leik Min-Sik Choi í aðalhlutverkinu sem Oh Daesu, því hann fer á þvílíkum kostum að ég hef ekki séð annað eins árum saman. Einnig er í þessari mynd best tekna bardagaatriði í manna minnum, en það sem gerir það svo sérstakt að það er aldrei klippt og myndinni allan tímann haldið í medium shot.

Diskurinn sem ég keypti er hin opinbera tveggja diska útgáfa frá Kóreu, og er því region 3. Hann keypti ég á ebay glænýjan fyrir um 12 dollara og 18 dollara með sendingarkostnaði sem gerir um 1250 kall. Einnig má kaupa hann á síðum eins og hxflix.com, dvdasian.com og fleiri slíkum síðum en þá kemur hann til með að vera dýrari. Eflaust mun myndin koma einhverntímann út í region 1, en þar sem flestir Íslendingar eru hvort sem er með region free spilara, skiptir það ekki í raun máli.

Útgáfan er til fyrirmyndar. Kápan er úr eins konar gervileðri með mynd af hálfu andliti Oh Daesu framan á. Diskarnir eru síðan í sitthvorri kápunni inni í aðalhulstrinu.

Diskur 1 inniheldur myndina, 120 mínútur, í anamorphic widescreen með bæði kóreiskri DTS og Dolby Digital 5.1. hljóðrás. Myndgæðin eru mjög góð, enda nauðsynlegt þar sem myndin er mjög dimm. Svarti liturinn er djúpur og myndin skörp. Nánast enga halóa né þjöppunarartifacta var að finna.

Hljóðið er mjög tært og nýtir alla hátalara vel. DTS rásin er ívið betri en Dolby rásin en báðar eru mjög góðar. Enskur texti er á myndinni (að sjálfsögðu) og er hann bæði skýr og mjög læsilegur. Enginn svona gulur ljótur texti eins og oft vill verða.

Diskur 2 er eflaust mjög vel úr garði gerður, en af einhverjum heimskulegum orsökum er enginn texti á neinu aukaefni sem rýrir að einhverju leiti kaupin. Maður skilur ekki alveg hver pælingin var, en þetta er reyndar gegnumgangandi með kóreiska titla.

Ef einhverjir aular láta í sér heyra með einhverjar “ég horfi ekki á ”útlenskar“ myndir” pælingar, þá eru þeir að skjóta sjálfa sig í löppina. Þeir væru þá að missa af stórkostlegri mynd sem á eftir að sitja lengi eftir í hausnum á fólki. Þetta er glæsilegur titill á mjög viðráðanlegu verði og hvet ég alla sanna kvikmyndaaðdáendur að kíkja á hana við fyrsta tækifæri.