Ég get ekki orða bundist hvað ég varð fyrir miklum vonbrigðum með nýju Spiderman myndina. Myndin hefur fengið víðast hvar góða dóma og aðsóknin á myndina hefur slegið hvert metið á fætur öðru. En skoðun mín á myndinni er þessi: hrikalega leiðinleg.

Fyrir það fyrsta, Peter Parker er bara svo leiðinlegur karakter. Og það vill svo til að Peter Parker er í aðalhlutverki í þessari mynd en ekki Spiderman. Það er alltaf verið að takast á hvort hann eigi að vera Spiderman eða ekki. Og mér fannst það mjög leiðinlegar pælingar. Auðvitað hættir hann að vera Spiderman og þá aukast glæpirnir og allir velta fyrir sér: “Hvar er Spiderman?” Það endar þó með því að Peter Parker ákveður að halda áfram að vera Spiderman því það er hans hlutverk.

*Ath, þessi kafli inniheldur spoilera!* Annað, myndin er ekkert annað en klisja. Ég hélt að The Day After Tomorrow hefði verið væmin og mikill hetjubragur, en váá, Spiderman 2 slær allt út. Ég get nefnt tvö einstaklega góð dæmi um væmnina í myndinni. 1) Spiderman er hetja og hann verður að bjarga fólki. Fólk í lest er í hættu statt þannig að hann verður að bjarga fólkinu, hvað sem það kostar. Það endar að sjálfsögðu með því að hann stoppar lestina á ALLRA SÍÐUSTU STUNDU. Það tók svo á, að það líður yfir Spiderman vegna ofreynslu. Og það sem meira er, Spiderman þurfti að taka af sér grímuna og því sjá allir hvernig hann lítur út. Spiderman er borinn í burtu eins og þjóðhetja og lagður á gólfið. Síðan þegar hann rankar við sér og fattar að hann er grímulaus, panikkar hann. Þá koma tveir litlir strákar, ca 10-11 ára, með
grímuna og segja: “Don't worry, we won't tell anyone.” ARRG! En þetta er ekki búið. Rétt á eftir kemur vondi kallinn, Doc Ock, og ætlar sér að ræna Spiderman því ákveðinn einstaklingur vill drepa hann. Þá segir fólkið í lestinni: “First, you have to go through me.”, “And me”, “And me”. ARRG! Þetta atriði er lýsandi dæmi um það hvernig myndin er. Svo í endann, þegar Mary Jane, stelpan sem elskar Peter og sem Peter elskar, er búin að komast að því að hann er virkilega Spiderman, yfirgefur hún brúðgumann sem hún ætlaði að fara giftast, aleinan eftir á kirkjugólfinu, til að geta farið til Peters og sagst elska hann. Það atriði sló allt út. Þá kemur sírenuvæl og Peter rankar við sér því hann á að fara bjarga málunum. Þá segir Mary Jane: “Go get them tiger!” Það munaði engu að ég skellti upp úr, þetta var svo fáránlegt atriði og setningin “Go get them tiger!” fór alveg með það. *Spoiler búinn!*

Ég veit ekki hvað handritshöfundinn var að pæla þegar hann skrifaði þessa mynd. Var hann að reyna búa til spennumynd, grínmynd eða dramamynd? Þegar ég fór á hana hélt að þetta væri spennumynd með smá rómantísku ívafi en nei nei, þetta er sápuópera af bestu gerð.

Það er líka eitt sem ég skil ekki - Alfred Molina sem vondi kallinn. Af hverju? AF HVERJU?! Hann er lélegur leikari og virkilega ósannfærandi sem vondur karl. Síðan átti hann að fá samúð í lokin með því að fórna lífi sínu með því að bjarga borginni frá glötun. Það tókst ekki hjá mér að fá samúð, mér var alveg sama.

Mary Jane (Kirsten Dunst) er mjög óspennandi persóna í myndinni. Hún var svo miklu skemmtilegri karakter í fyrri myndinni. Núna er hún bara orðin ljót og leiðinleg og yfir alla hafna vegna þess að hún sló loksins í gegn sem leikkona.

Peter Parker, er eins og áður sagði, mjög leiðinlegur karakter. Tobey Maguire, sem leikur Peter og Spiderman, ræður ekki við þetta hlutverk. Þessi mynd sýnir hvað hann er í rauninni slakur leikari. Hann er samt ágætur í öðrum myndum, eins og Wonder Boys og A Cider House Rules.

Sá eini sem gat eitthvað leikið er James Franco sem Harry Osborn, og svo J.K. Simmons (hann er frábær í The Ladykillers) sem níski ritstjórinn á blaðinu sem Peter vinnur hjá. Sá átti góða spretti í myndinni sem voru vel fyndnir en það var of mikið gert úr þessu hjá honum þannig að í lokin var þetta ekki lengur fyndið.

Spiderman 2 stendur fyrri myndinni mjög langt að baki. Í þessari mynd er ekkert nýtt, engin frumleiki. Mér fannst fyrri myndin mjög skemmtileg en þessi mynd er crap. Mér leiddist. Í hléi var ég að vona að seinni hlutinn myndi taka einhvern kipp en allt kom fyrir ekki. Hasaratriðin voru alltof fá og þegar þau komu stóðu þau mjög stutt. Síðan fannst mér tæknibrellurnar ekkert sérstakar. Mér fannst stundum að ég væri að horfa á teiknimynd en ekki kvikmynd. Maður er orðinn svo góðu vanur í sambandi við tæknibrellur að maður er farinn að gera meiri kröfur en þessi mynd lætur mann fá.

Myndin fær ** af *****. Hún fær þessar tvær stjörnur vegna húmors og fyrir þessa setningu: “Go get them tiger!” sem gerði það að verkum að ég var næstum búinn að skella upp úr í lokin þegar myndin var í hámarki og hlátur var það síðasta sem manni átti að detta í hug.
Lífið gengur út á að vera númer 1, ekki númer 2.