Ég fór á þriðjudaskvöldið á forsýningu stórmyndarinnar Troy með Brad Pitt, Orlando Bloom og fleirum stjörnum í aðalhlutverki. Ég var búinn að bíða eftir þessari mynd í meira en ár; tilhlökkunin var mikil og væntingarnar miklar. Mér finnst Odysseifskviða og Illionskviða eftir Hómer vera algjör snilld og efniviðurinn til kvikmyndar alveg pottþéttur. Þess vegna kom mér það svo á óvart að myndin skuli ekki vera betri en hún er. Söguþráðurinn er bara ekki alveg nógu góður. Handritið er ekki skothelt. Leikstjóri myndarinnar, hin þýski Wolfgang Petersen, getur því ekki ætlast til að geta búið til tímamótamynd þegar svo mikilvægt atriði, handritið, er ekki gott. Að einhverju leyti má líka skella skuldinni á Wolfgang því kvikmyndatakan, tónlistin og leikurinn í myndinni er hreinlega ekki nógu gott heldur. Ég er viss um að ef Steven Spielberg eða Ridley Scott hefðu leikstýrt myndinni þá hefði hún strax verið betri því þeir eru mun kröfuharðari leikstjórar og vandaðri.

Brad Pitt hefur aldrei verið jafn flottur og sexí en einmitt í myndinni. Hann er virkilega svalur og smellpassar í hlutverk Achilles. Hann hefur hins vegar gleymt því hvernig á að leika á meðan hann var í ræktinni því hann er eiginlega bara lélegur í myndinni. Því miður því Brad Pitt er góður leikari og sýndi það í 12 Monkeys, Snatch og Fight Club hversu megnugur leikari hann er. Hann er samt góður í bardagaatriðunum því þá er hann bara að sveifla sverði og kasta spjóti.

Orlando Bloom er til skammar. Ég skil ekki hvað er málið með þennan leikara. Af hverju er hann vinsæll? Orlando ER sætabrauðsdrengur með ENGA hæfileika. Í hvert skipti sem hann talar þá er eins og hann sé að missa andann. Hann ætti að fara sækja leiklistartíma. Samt voða sætur í myndinni og hentar þar af leiðandi í hlutverk Paris. Sem betur fer var hlutverk hans ekki stórt en samt of stórt…

Eric Bana fannst mér langbestur af þessum stjörnum. Hann lék stórt hlutverk í myndinni og leysti verkefni sitt vel. Hann má vera stoltur af sínum parti til myndarinnar. Hann má búast við því að tilboðin fari að raðast inn til sín.

Diane Kruger leikur Helenu, fegurstu konu heims. HAHA!! Langt frá því að vera fallegasta kona Þýskalands, hvað þá heims!

*Spoiler - þeir sem ekki hafa séð myndina lesi þessi greinarskil ekki! Nema þeir kjósi það sjálfir…* Ég tók eftir þremur atriðum við myndina þar sem hún fylgdi Illionskviðu ekki eftir. Það fyrsta er náttúrulega það að stríðið stóð í 10 ár en í myndinni aðeins 3 vikur. Annað er þegar Achilles ákveður að drepa Hector að þá labbar Hector sallarólegur til Achillesar en í Illionskviðu þá hlupu þeir 8 hringi í kringum Trójuborg þar til Hector stoppar og mætir honum fyrir framan alla hermennina. Og það síðasta er að það var besti vinur Achillesar sem var drepinn í herklæðum hans en ekki frændi hans.

Mér finnst þetta stór mínus við myndina því myndin verður miklu áhugaverðari fyrir vikið ef þessu er fylgt eftir, sérstaklega eltingarleikurinn við Tróju. Sagan er goðsögn og grísku guðirnir eiga að spila stórt hlutverk í henni. Ekki í myndinni. Annar stór mínus. Það er heldur ekki sagt frá því þegar Achilles er dýft ofan í vatn sem gerði hann ódauðlegan, eini veiki líkamshlutur hans er hællinn því þar var honum haldið þegar honum var dýft í vatnið. Þeir sem eru ekki vel að sér í grísku goðafræðinni hafa því ekki hugmynd um af hverju hællinn er svona mikilvægur fyrir honum.

Samt sem áður, þrátt fyrir allt þetta, er myndin fínasta afþreying. Hún verður aldrei langdregin eða leiðinleg. Leikararnir eru flottir og bardagaatriðin mjög kúl. Það mættu vera fleiri bardagaatriði í anda Braveheart en í staðinn fáum við ástarsögu (ég þoli ekki ástarsögur). Myndin er mikið fyrir augað, það hefur ekkert verið til sparað að búa til rosalega flotta mynd en það er bara ekki nóg. Innihaldið verður að vera gott.

Þegar upp er staðið er hún vel þess virði að sjá myndina í bíó á stóru tjaldi með 50.000 w hátalara.

TROY fær hjá mér **1/2 af **** en hærra fær hún alls ekki.
Lífið gengur út á að vera númer 1, ekki númer 2.