Ég var á námskeiði fyrir 2 árum sem kallaðist kvikmyndarýni e-ð (man ekki alveg).
En það voru tveir guðfræðinemar með það á vegum háskólans og ekki af ástæðulausu, því að við pældum mikið í trúar og siðfræðistefum.
Þeir halda úti vefnum http://www.dec.hi.is hvet ykkur endilega til að kíkja á hann:)
Afraksturinn af námskeiðinu er rýni mín á Billy Elliot og ætla ég að birta hana hér.
Hope you like it..(var sem sagt 14 ára þegar ég gerði hana svo ekki vera vond;)

Billy Elliot


Leikstjóri: Stephen Daldry
Handrit: Lee Hall
Aðalleikarar: Jamie Bell, Gary Lewis, Jamie Draven, Julie Walters, Jean Heywood, Stuart Wells og Nicola Blackwell.
Tegund: Fjölskyldu-Drama
Lengd myndar: 110mín
Framleiðsluár: 2000
Framleiðsluland: England og Frakkland
Hlutföll myndar: 1.85:1


Helstu kostir: Þetta er mannleg mynd um mótlæti og erfiðleika og geta sennilega flestir samsamað sig henni á einhvern hátt. Jamie Bell er frábær í hlutverki Billy Elliot sem, Gary Lewis sem pabbinn, Julie Walters sem danskennarinn og Stuart er yndislegur sem hinn samkynhneigði vinur Billys. Sem sagt státar myndin af hópi góðra leikara, góðu handriti og leikstjórn. Maður getur nú ekki beðið um mikið meira.


Ágrip af söguþræði
Myndin hefst í Norður-Englandi árið 1984 og segir frá 11 ára syni námumanns. Drengurinn heitir William Elliot en er alltaf kallaður Billy. Hann býr með föður sínum sem er ekkjumaður og eldri bróður. Einn daginn rekst Billy inn í ballettíma á leið sinni í box. Ballettkennarinn frú Wilkinson er móðir stúlku, Debbiar sem Billy þekkir og einhvern veginn dregst Billy inn í æfinguna. Frú Wilkinson kemur strax auga á hæfileika Billy í ballett. Henni tekst að telja Billy á að byrja að æfa.

Billy leynir því fyrir föður sínum og bróður sem reynist ekki erfitt fyrst um sinn þar sem þeir eru í verkfalli og alltaf á fullu að mótmæla verkfallsbrjótum. Loks kemst faðir hans að sannleikanum og bannar honum að halda áfram. Frú Wilkinson er ekki á sama máli og tekur Billy í einkatíma til þess að undirbúa hann undir inntökupróf í Konunglega ballettskólann í London án vitundar föður hans. Greyið Billy sem þykir ekkert skemmtilegra en að dansa vill ekki bregðast föður sínum og enginn styður hann nema frú Wilkinson. Ég vil nú ekki kjafta frá endinum en mæli eindregið með þessari fyndnu og hugljúfu mynd.



Almennt um myndina
Upprunalega var nafn myndarinnar “Dancer”. Handritshöfundurinn Lee Hall sækir að hluta til innblástur sinn í sögu Konunglega ballettdansarans Philip Marsden sem hann hitti þegar hann var að vinna rannsóknarvinnuna fyrir handritið. Philip Marsden er frá Norður-Englandi og fjölskyldan hans hafði verið í verkföllum vegna baráttu námuverkamanna.

Í myndinni er mikið um klassíska tónlist, t.d. Svanavatnið sem kemur tvisvar fyrir í myndinni en svo er líka töluvert af samtíma popptónlist (kringum 1980). Ég hef nú reyndar ekki mikið vit á klippingu eða kvikmyndatöku en sem ég best veit þá er það allt mjög vel gert. Klippingin og kvikmyndatakan eru oft notuð mjög skemmtilega eins og t.d. þegar langa dansatriði kemur eftir að Billy reifst við pabba sinn. Þar endar Billy við ryðgaðan bárujárnsvegg og þá byrjar að snjóa og allt í einu eru kominn jól.

Eins og áður sagði er handritið skrifað af Lee Hall og er vel gert, hjartnæmt og hrífandi og með hjálp leikaranna og leikstjórans hreif það þig með sér. Maður vill virkilega að Billy fái að stunda ballett og komist í Konunglega ballettskólann. Leikstjórinn Stephen Daldry hefur unnið hér gott verk. Þetta er mjög mannleg mynd sem fjallar um það að allir hafa einhverja hæfileika og þeir eiga að nota þá. Þessi mynd er góð í alla staði og á hrós skilið fyrir það.

Umfjöllun um trúarstef
Í myndinni er mikið um fordóma, söknuð og aðra mannlega þætti. Fordómarnir sem Billy mætir vegna þess að hann stundar ballett eru í rauninni kynjamisrétti. Það þykir ekki rétt að strákur æfi “stelpnaíþrótt”. Myndin tekur svolítið á þeirri ímynd að strákar sem æfi “stelpnaíþróttir” eins og t.d. ballett séu hommar. Það er sýnt að strákar eins og Billy (sem hafa gaman af “stelpnaíþróttum” s.s. ballett) séu ekkert frekar hommar en hver annar. Í einu atriði þar sem Micheal og Billy eru að tala saman reynir Micheal að kyssa Billy en honum bregður og segir að hann sé ekkert endilega hommi þótt honum þyki gaman að dansa.

Í samfélagi nútímans eru enn miklir fordómar gagnvart samkynhneigðum og klæðskiptingum en þeir hafa samt sem betur fer minnkað með opnari umræðu. En á þessum tíma í kringum 1980 var umræðan ekki eins opinn. Micheal er bæði hommi og klæðskiptingur en segir engum ekki einu sinni Billy. Samt virðist sem honum finnist það ekkert mál að klæða sig í kvenmansföt, kannski vegna þess að pabbi hans gerir það þegar hann heldur að enginn sjái til. Þegar Billy kemst að því að Micheal sé hommi og klæðskiptingur biður Micheal hann samt um að segja engum frá því. Nokkrum árum seinna þegar Billy er orðinn stór og pabbi hans og bróðir fara að horfa á hann hitta þeir Micheal og hann er með manni og er í kvenmannsfötum og greinilega hamingjusamur.

Billy og fjölskyldan hans hefur átt erfitt vegna lát móður Billys og hann saknar hennar mikið. Billy spilar oft á píanóið sem mamma hans átti en það pirrar pabba hans, sennilega minnir það hann of mikið á konuna hans. Stundum finnst Billy líka að mamma hans sé ekkert dáinn og hún sé þarna ennþá, eins og t.d. í einu atriði þar sem Billy er að fá sér mjólk og honum finnst mamman hans sé þarna og er að segja honum að loka mjólkinni. Honum finnst ekkert skrítið að hún sé þarna heldur eins og hún hafi aldrei dáið en svo hverfur hún og þá bregður honum svolítið þegar hann gerir sér grein fyrir að hún er dáinn. Myndin tekur því mikið á sorgarferli og söknuði.

Jólin eru ekki mjög gleðileg hjá fjölskyldunni hans Billys, Pabbinn (Jackie Elliot) brýtur píanóið í eldivið en þetta píanó hafði mikið tilfinningalegt gildi og minningar um mömmuna fyrir þá alla. Jackie leið mjög illa og vildi örugglega reyna að eyða minningum og sorginni með því að brjóta niður píanóið. Svo við matarborðið brotnar pabbinn saman og fer að gráta. Enginn gerir neitt en allir eru mjög sorgmæddir. Svo fer pabbinn og drekkur sig pissfullan og kemur að Billy og Michael í íþróttahúsinu. Micheal í pífupilsi og Billy dansandi, þótt Billy sjái hann heldur hann áfram dansa og horfir á hann og segir eiginlega þetta er ég og loks sættir pabbinn sig við það og hleypur pabbinn út og fer til frú Wilkinson og segir að hann sé reiðubúinn að gefa Billy tækifæri á að fara í prófið. Þessi gjörð pabba hans er því mjög í anda jólanna og e.t.v. ekki tilviljun að hann skuli skipta um skoðun á jóladag.

Í bréfinu frá mömmu Billy segir hún að hann verði að vera hann sjálfur og er ballettáhugi Billys notaður til að sýna að það borgar sig að vera þú sjálfur og ekki hugsa um álit annarra. Allir eiga sér draum um e-ð og þangað á maður að stefna. Draumarnir eru mjög ólíkir, jafn ólíkir og fólkið sem á þá er. Margir þurfa e.t.v. að berjast til að uppfylla þá eða tekst það jafnvel aldrei en líkt og Billy þá á maður að trúa á sjálfan sig, vera sjálfum sér samkvæmur og fara alla leið.

Myndin fjallar einnig um listsköpun og þá guðlegu upplifun sem hún getur fært. Það er mikilvægt fyrir fólk að geta skapað og margir nota listsköpun sem útrás fyrir tilfinningar. Því líður vel þegar það gerir það sem því finnst gaman. Listsköpun Billys er dansinn, þegar hann dansar fær hann útrás og gleymir erfiðleikum sínum um stund. Þegar hann var beðinn um að lýsa líðan sinni og tilfinningum þegar hann dansar segir hann að honum líði vel og það sé líkt og hann hverfi og allur líkaminn sé logandi, hann sé eins og rafmagn. Lýsing Billys á líðan hans þegar hann dansar er líkt og leiðsla eða hugljómun.

Þá er jafnframt fjallað um áfengissýki og óhamingju. Maður frú Wilkinson á við drykkjuvandamál að stríða. honum var sagt upp vegna samdráttar í fyrirtækinu og hélt fram hjá konunni sinni sem hún komst að og vegna þess sofa þau ekki saman. Þau eru bæði óhamingjusöm, hann drekkir sorgum sínum í áfengi en hún kennir dans. Frú Wilkinson er bitur vegna þess að líf hennar gekk ekki upp. Samt sem áður styður hún Billy gegnum allt en lætur hann samt alltaf standa á eigin fótum. Ef til vill er hún að hjálpa honum vegna þess að hún er að reyna að ná því með Billy sem hún náði aldrei. Hún nánast gengur Billy í móðurstað. Að lokum er töluvert ofbeldi á heimili Elliots fjölskyldunnar og skapast það helst af þeirri spennu sem myndast vegna verkfallsins. Þegar Tony er handtekinn er hann barinn með kylfum af lögregluþjónunum. Þegar Billy er í inntökuprófinu er hann skiljanlega mjög stressaður og er hræddur um að bregðast öllum heima. Þegar einhver strákur kemur svo til að reyna að róa hann niður, fer strákurinn svo í taugarnar á Billy að hann kýlir hann.

Lykilorð
Beinar tilvísanir í texta í trúarriti:
Hliðstæður við texta í trúarritum:
Persónur úr trúarritum: draugur
Sögulegar trúarpersónur:
Guðfræðistef: sorgarferli, dauðinn
Siðfræðistef: Fordómar, framhjáhald, niðurlæging, hjálpsemi, óheiðarleiki,ofbeldi, þjófnaður, hræðsla, fátækt, verkfall, kjarabarátta, kommúnismi, áfengissýki, svik, virðing, sjálfsstjórn, stéttarskipting
Trúarbrögð:
Goðsögulegir staðir og helgistaðir: kirkjugarður , dómkirkja
Trúarlegar hátíðir og sögulegir atburðir: jólin
Trúarleg tákn:
Trúarembætti:
Trúarlegt atferli: krosslagðir fingur, fórn
Trúarleg reynsla: leiðsla, sýn

Tenglar í umfjöllun um myndina:
www.imdb.com
http://www.billyelliot.com
ofl