Jæja, þá er Óskarinn um næstu helgi og það er því ekkert því til fyrirstöðu að koma með spána á undan hinum. Í ár er maður í erfiðari aðstöðu en áður því Óskarinn er núna 29. febrúar en í fyrra var hann 23. mars. Ég hafði því séð miklu fleiri myndir í fyrra en ég hef gert nú. Ég hefði viljað vera búinn að sjá fleiri myndir. Það er mikill mínus og mun hafa einhver áhrif á spá mína. Ég býst því við að ég verði ekki eins sannspár í ár og í fyrra. Ég mun þó gera mitt besta og ég hef aflað mér talsverðar upplýsinga um leik hvers og eins á þessum og hinum heimasíðum og blöðum. Gjörið svo vel og njótið þessa pistils, ég hef lagt mikla vinnu í hann og ég afþakka öll leiðindi.

Ég mun aðeins spá í þessum stærstu og skemmtilegu flokkum og mun koma með smá pistil um hvern flokk og að lokum mína röð hver mun standa uppi sem sigurvegari. Sem sagt, sá sem er efstur/efst hjá mér spái ég að muni vinna, sá sem er í öðru sæti tel að hafi næst mesta möguleika og svo koll af kolli.

Aðalhlutverk karla

Þetta er mjög góður flokkur í ár og í rauninni mjög erfitt að spá fyrir hver fái gullnu styttuna. Bill Murray sýnir snilldarleik í Lost in Translation og hefur þegar unnið ótal verðlaun fyrir leikinn í myndinni, þ.á.m. Golden Globe. Þótt ótrúlegt sé, þá er þetta fyrsta tilnefning Murrays. Sean Penn þykir sigurstranglegur fyrir Mystic River en ég var ekki hrifinn af honum í myndinni, hann hefur oft verið betri. Þess vegna vona ég að hann vinni ekki því mér finnst hann ekki eiga það skilið. Allavega ekki í ár. Johnny Depp er ekkert nema snillingur í Pirates of the Carabbean, fyndinn og alvarlegur í senn og mér finnst hann einhvern veginn minna mig óneitanlega á Forrest Gump þó að myndirnar og hlutverkin séu ólík. Ég er að vonast til þess að Johnny Depp vinni Óskarinn í ár, hann er einn af mínum uppáhalds leikurum og hefur sýnt það í gegnum tíðina að hann kann vel að leika. Þetta er samt aðeins hans fyrsta tilnefning til Óskars. Árið 2003 var mjög gott fyrir hann, fyrir utan að brillera í Pirates þá brilleraði hann líka í framhaldsmynd Desperato, Once Upon In Time In Mexico. Snillingur. EN… (það er alltaf þetta EN) þá held ég að möguleikar hans séu ekki miklir þar sem Pirates of the Carabbean er grín-gamanmynd með spennuívafi og ég man ekki eftir að leikari úr grín-gamanmynd hafi unnið Óskar sem besti leikari. Því eru möguleikar hans innan Akademíunnar ekki miklar. Sæti strákurinn Jude Law fær tilnefningu fyrir Cold Mountain. Hann vinnur ekki. Hann er góður leikari og virkilega svalur, t.d. væri hann frábær Bond… en ég held að vinni ekki. Þó hef ég ekki séð Cold Mountain ennþá en hann er ólíklegastur af þeim sem tilnefndir eru. Ben Kingsley gæti stolið senunni í ár en hann er sá leikari sem hefur verið mesta reynsluna og er hefur fengið áður fjórar tilnefningar og unnið einu sinni, 1982 fyrir myndina Ghandi. Það má aldrei vanmeta Sir Ben. Hann er rosalegur skapgerðarleikari, skilar alltaf sínu og er traustur. Hann sýnir víst snilldarleik í House Of Sand and Fog og eru menn að tala um að hann gæti tekið Óskarinn til sín.

Bill Murray – Lost in Translation
Sean Penn – Mystic River
Ben Kingsley – House Of Sand and Fog
Johnny Depp – Pirates of the Carabbean
Jude Law – Cold Mountain

Aðalhlutverk kvenna

Þessi flokkur gæti komið á óvart. Hér er ein leikkona sem enginn hefur minnst á áður, Ný-sjálensk 14 ára stúlka, Keisha Castle-Hughes. Ég sá hana í Jay Leno fyrir 3 mánuðum síðan. Ég efast um að hún hafi mikla möguleika. Hún allavega lék í mynd sem heitir Whale Rider og er ekki búið að sýna á Íslandi. Svo eru þarna mun þekktari leikkonur eins og Naomi Watts en hún fær sína fyrstu tilnefningu fyrir myndina 21 Grams. Hún þykir sína þar frábæran leik og gæti vel unnið Óskarinn. Ég hef ekki séð þá mynd ennþá og er ekki alveg dómbær en ég spái því að hún eigi ágætis möguleika. Charlize Theron er ein fallegasta leikkona í Hollywood um þessar mundir en í myndinni Monster er hún viðbjóðsleg, alveg hreint viðbjóðsleg, feit, bólugrafin og skítug. Hún fékk Golden Globe á dögunum fyrir frammistöðu sína í myndinni og verð ég að telja hana sigurstranglegasta í þessum flokki. Fáir spekingar segja að hún muni fara tómhent þetta kvöld. Diane Keaton á ekki möguleika fyrir frammistöðu sína í myndinni Something’s Gotta Give þó að hún hafi skilað fínum leik þar. Þetta er bara rómantísk fjölskyldumynd og það krefst ekki mikla leikhæfileika að standa sig vel í þannig mynd. Ég hef séð margar leika svipað, meira að segja Söndu Bullock. Þannig að Diane Keaton var ekki að koma með neina byltingu. Ef hún vinnur þá má bróka mig feitt… Síðan er Samantha Morton fyrir In America. Ég verð að viðurkenna það að ég veit lítið um þessa leikkonu. Ég hef aldrei veitt henni athygli. En hún lék í Minority Report, Agöthu. Frábær leikur þar. Þannig að það er greinilega eitthvað í hana spunnið. Þetta er samt ekki fyrsta tilnefningu Samönthu, árið 2000 fékk hún fyrir Sweet and Lowdown. Ég hef heldur ekkert heyrt um myndina In America þannig að ég býst við að hún sé út úr myndinni hjá mér. En miðað við það sem ég hef lesið þá er fólk almennt hrifið af henni en spáir henni ekki Óskarnum.

Charlize Theron - Monster
Naomi Watts – 21 Grams
Keisha Castle-Hughes – Whale Rider
Samantha Morton - In America
Diane Keaton – Something’s Gotta Give

Aukahlutverk karla

Uhmm… ég held að þetta sé með erfiðari flokkum í ár. Tim Robbins hélt Mystic River gjörsamlega uppi með frábærum leik og ætti Óskarinn fullkomlega skilið. Hann hefði átt skilið að fá tilnefningu fyrir aðalhlutverk þar sem hlutverkið hans í Mystic River var ekkert lítið. En það eiga líka fleiri möguleika. Benicio Del Toro er alltaf góður og klikkar ekki eins og venjulega í 21 Grams, miðað við það sem ég hef heyrt og lesið. Hann er víst mjög góður í þeirri mynd. Ken Watanabe sýnir góðan leik í The Last Samurai en ég býst við að hann eigi ekki möguleika á Óskarnum þar sem Tim Robbins er þúsund sinnum betri. Djimon Hounsou er góður leikari sem er ekkert sérstaklega þekktur. Hann lék árið 1998 í mynd Steven Spielbergs, Amistad og fór þar á kostum. Hann fær tilnefningu fyrir In America. Síðan er það Alec Baldwin. Frekar leiðinlegur leikari. Ég hélt að hann væri bara búinn með það kallinn. Hann átti þó greinilega eitt líf eftir og nýtir það svakalega vel í myndinni The Cooler. Hún hefur ekki fengið fína dóma en Alec er sagður góður í myndinni. En hve góður, það er spurningin. Betri en Tim Robbins? Tæplega.

Tim Robbins – Mystic River
Benicio Del Toro – 21 Grams
Alec Baldwin – The Cooler
Djimon Hounsou – In America
Ken Watanabe – The Last Samurai

Aukahlutverk kvenna

Ég er viss með eitt: Marcia Gay Harden vinnur ekki! Ef hún vinnur þá er ég alveg með það á hreinu að Akademían er á sýru! Ég skil ekki einu sinni hvernig hún gat fengið tilnefningu fyrir hlutverk sitt í Mystic River. Hún var ógeðslega léleg í myndinni. Renée Zellweger er greinilega komin með áskrift af tilnefningum en þetta er 3. árið í röð sem hún er tilnefnd til Óskars, núna “bara” fyrir aukahlutverk. Hún verður að teljast sigurstrangleg fyrir Cold Mountain en það sem ég hef séð af henni þar þá er hún góð. Patricia Clarkson er önnur leikkona sem er óvænt tilnefnd. Veit mjög lítið um hana sem leikkonu og hvað hún getur og hef ekkert heyrt um myndina sem hún er tilnefnd fyrir, Pieces of April. Ég verð því miður að útiloka hana. Shohreh Aghdashloo heitir leikkona sem kemur frá Íran og er tilnefnd fyrir myndina House of Sand and Fog. Ég hef aldrei séð hana leika í neinu en raddir úti í heimi segja að hún sé frábær í myndinni og ætti skilið að vinna. Því miður þá get ég ekki verið dómbær á hana en hún á þó meiri möguleika en Marcia Gay Harden. Jæja, þá er það bara ein eftir í þessum flokki og það er engin önnur en Holly Hunter fyrir myndina Thirteen. Ef ég man rétt þá er það bresk mynd sem var sýnd hér á landi á kvikmyndahátíð. Hún á víst að vera ágæt en leikur Hollyar enn betri eða frábær. Enda mögnuð leikkona þar á ferð sem hefur unnið Óskar áður. Ég ætla samt að gerast svo djarfur og spá henni ekki Óskarnum núna en hún á þó möguleika. Renée ætti að taka þetta.

Renée Zellweger – Cold Mountain
Holly Hunter – Thirteen
Shohreh Aghdashloo – House of Sand and Fog
Patricia Clarkson – Pieces of April
Marcia Gay Harden – Mystic River

Besti leikstjóri

Það er tvennt sem er einkennir þennan flokk í ár: 1) Í fyrsta sinn í heilan áratug er kona tilnefnd. Það er Sofia Coppola fyrir Lost In Translation en hún er sögð hafa góð tök á myndinni, fyrir utan það að hafa skapað hana upp á eigin spýtur, skrifaði handritið alveg ein og allt það. Hún verður að teljast ein af þeim sigurstranglegri í ár því Lost In Translation er ein af myndum ársins 2003. 2) Þessi flokkur í ár er gríðarlega sterkur. Það er í raun ómögulegt að segja hver vinnur. Clint Eastwood er löngu búinn að sanna sig sem leikstjóri en hann fékk Óskar árið 1993 fyrir Unforgiven. Mystic River er stórmynd og góð í alla staði, þó að ég fílaði hana ekki. Hún kemur við viðkvæma hlutann á manninum en þar sem ég er frekar tilfinningalaus þá höfðaði hún ekki til mín. Sá sem ég tel að muni vinna í ár er Peter Jackson. Hann er snillingur. Það er orðið ljóst eftir Lord of the Rings þríleikinn. Ég trúi ekki öðru en að hann fái Óskarinn í ár en það hefur verið gengið framhjá honum með fyrri myndirnar. Peter var ekki einu sinni tilnefndur í fyrra fyrir The Two Towers! Það er náttúrlega bara rugl. Í hittiðfyrra átti Peter Jackson að vinna fyrir The Fellowship of the Ring, en það árið vann Ron Howard fyrir Beautiful Mind. Brasilíumaðurinn Fernando Mereilles gerði mynd árið 2002. Hún var byggð á raunverulegum atburðum sem gerðust í Brasilíu á 7. áratugnum. Útkoman var í einu orði sagt ROSALEG. Myndin heitir City of God á ensku eða Ciudad de Deus á portúgölsku. Það kom mér á óvart að Fernando skyldi vera tilnefndur hér, einhvern veginn var ég ekki búinn að hugsa út í það, mér fannst það nóg að myndin skyldi vera tilnefnd sem Besta erlenda myndin, en þar sem hún er ekki tilnefnd í ár (fáránlegt!) þá er leikstjóratilnefningin skemmtileg sárabót og það meira að segja frábær sárabót. Ég verð þó samt að segja það að Fernando á því miður ekki möguleika. Peter Weir er góður leikstjóri sem hefur leikstýrt mörgum gæðamyndum í gegnum tíðina (The Truman Show m.a.). Hann er Ástrali og Ástralar eru miklir kvikmyndasnillingar. Peter Weir er þar enginn undantekning. Hann á þó ekki möguleika í ár fyrir mynd sína Master and Commander vegna þess að flokkurinn er einstaklega sterkur. Enginn getur bókað sigur. Ekki einu sinni Peter Jackson.

Peter Jackson – Lord of the Rings: The Return of the King
Clint Eastwood – Mystic River
Sofia Coppola – Lost In Translation
Fernando Mereilles – City of God
Peter Weir – Master and Commander

Besta myndin

Skemmtilegasti og jafnframt erfiðasti flokkurinn. Allt eru þetta topp myndir en aðeins eiga þrjár þeirra möguleika á sigri og eru það þessar: Lord of the Rings: The Return of the King, Mystic River og Lost In Translation. Hinar tvær: Master and Commander og Seabiscuit, eiga ekki möguleika á Óskarnum þótt fínar séu. LOTR er rosalega flott mynd og er talin ein besta mynd allra tíma. Hún hefur allt saman, flott bardagaatriði, drama, ást, húmor, flottar tæknibrellur og frábæran hóp úrvalsleikara sem brillera. Úr verður allsvakaleg mynd. Þótt að ég hafi ekki fílað söguna sem slíka þá fílaði ég myndina, af því að myndin er flott þó að hún sé ekki beint skemmtileg. En góð er hún samt. Ég get ekki neitað því. Það eru miklar líkur á að LOTR vinni Óskarinn í ár og verð ég að spá henni sigri. Ef ekki, þá verður hún í öðru sæti. Og það þýðir þá að Mystic River vinnur. Mystic River er fantagóð mynd. En eins og áður, ekki fyrir mig. Of hæg framvinda og óspennandi. Mystic River er einmitt mynd sem Akademían hefur gaman af; drama af bestu gerð. Lost In Translation er gamanmynd á alvarlegu nótunum og það er óvænt að þannig mynd hljóti náð fyrir augum Akademíunnar. Ég held því að hún muni ekki vinna. Seabiscuit er drama um sjónskertan ungan mann sem er knapi á veðhlaupahest. Það voru margir sem héldu að hún myndi ekki komast að, flestir héldu að Cold Mountain yrði í staðinn fyrir Seabiscuit. Master and Commander er sjóorrustu mynd með Russell Crowe í aðalhlutverki. Fjallar um baráttu Englendinga við Napóleon. Hef ekki séð hana en hún er sögð mjög góð. Spáin væri því svona:

Lord of the Rings: The Return of the King
Mystic River
Lost In Translation
Master and Commander
Seabiscuit

Besta erlenda myndin

Hér sakna ég City of God (Cidade de Deus) því hún átti að vinna þennan flokk. Sú mynd hefði meira að segja átti skilið að komast í aðalflokkinn, besta myndin. En það var gengið framhjá henni. Óskiljanlegt. Ég ætla ekkert að spá hér því ég þekki ekkert þessar myndir.

Besta frumsamda handritið

Úff… verð að viðurkenna það að hér stend ég á gati. Fyrir mér gætu allar þessar myndir unnið. Ætli það sé ekki Lost In Translation sem mun standa uppi sem sigurvegari hér. Finding Nemo vinnur ekki og ég veit ekkert um hinar myndirnar. Þannig að Lost In Translation vinnur hér. Óskar til Sofiu.

Besta handrit, byggt á áður útgefnu efni

Ekki spurning, LOTR: ROTK. Hinar eru góðar og örugglega með fín handrit en Lordinn ætti að taka þetta. Trúi ekki öðru.

Besta kvikmyndatakan

Sá sem var aftan við tökuvélina á Cidade de Deus er snillingur. Ég bóka sigur á þann mann. Myndatakan er geðveikt flott og byrjunar atriðið er svakalegt.

City of God
Master and Commander
Seabiscuit
Cold Mountain
Girl With a Pearl Earring

Bestu sjónbrellur

Lord of the Rings vinnur þessi verðlaun. Tæknibrellurnar voru kannski ekkert svakalega margar miðað við Star Wars, Matrix eða Artificial Intelligence en þær voru notaðar á skynsamlegan hátt og því ekki ofnotaðar. Sem er mikill kostur. Hinar tvær eiga ekki möguleika.

LOTR: ROTK
Pirates of the Carabbean
Master and Commander

Þá er spáin komin. Ég held að þetta sé nokkuð pottþétt spá en eins og allur heimurinn veit þá getur Akademían verið gjörsamlega óútreikanleg og komið á óvart.
Lífið gengur út á að vera númer 1, ekki númer 2.