Mér hefur alltaf fundist merkilegt hvað bíómenning á Íslandi er á lágu plani miðað við önnur lönd. Það er oft verið að tala um hvað við séum svo mikið á undan öðrum löndum í evrópu því hér séu hljóðkerfin betri en í evrópu, það getur svo sem vel verið, en bíómenningin sjálf er á agalegu lágu plani.

Gott dæmi er að bera saman bíó í t.d Danmörku og hér. Bróðir minn býr í Danmörku og ég hef oft farið í bíó þar og skemmtilegt að sjá hvað þeir eru mikið framar okkur í notkun á t.d netinu.

Að fara í bíó í Danmörku:
Ég ákveð klukkutíma fyrir sýningu að kannski væri ágætt að skella sér í bíó, fer á netið, slæ inn http://www.biobooking.dk, vel sýningu og bíóhús og get pantað nákvæmlega hvaða sæti ég vill, þar sem hægt er að sjá grafískt hvar sætin eru í bíóinu og hvaða sæti hafa þegar verið pöntuð. Vel sæti og pikka inn nafnið mitt og smelli á ok. Kem 10 mínutum fyrir sýningu, engin biðröð í miðasölu, segi nafnið mitt og fæ miðann minn sem er NÚMERAÐUR á sæti. Engin biðröð er við sjoppu eða að fara inn í sal, þar sem allir eru með númeruð sæti og ekkert stress þarf að vera í gangi. Kaupi mér popp og stóran bjór :) og fæ mér sæti og horfi á myndina alla í einu þar sem ekkert leiðinlegt hlé er í miðri mynd. Fer ánægður heim.

Að fara í bíó á Íslandi:
Fer fýsiskt niður í bíóið og kaupi miða 2 dögum fyrir sýningu að öðrum kosti er allt uppselt. Mæti klukkutíma fyrir sýningu til að standa í röðinni inn í salinn, að öðrum kosti er ekki hægt að ná góðum sætum. 1 mínutu fyrir sýningu opnast dyrnar og allir troðast eins og þeir eigi lífið að leysa til að ná sætum. Ég missi kókið yfir mig allan í troðningunum og og á meðan ég er að reyna að þrífa mig aðeins er búið að taka öll bestu sætin og ég fæ bara sæti á fremsta bekk. Ekki er búið að þrífa gólfin á milli seinustu sýninga þannig að maður veður í poppi og dósum upp fyrir hné. Þegar spennan er sem mest í miðri mynd kemur snögglega hlé. Poppið er síðan saltað svo fáranlega mikið (af ásettu ráði) til að ég neyðist til að kaupa mér meira gos. Myndin byrjar síðan aftur eftir hlé en ekki á nákvæmlega sama stað og fyrir hlé því filmukallinn virðist ekki geta hitt á rétta staðinn á filmunni, þannig að maður missir af krítísku atrið í myndinni. Ég fer síðan ónægður heim með hálsríg.

Hvernig er það? Varla er ég sá eini sem finnst þetta vera fyrir neðan allar hellur? Hvað finnst mönnum um bíó hérna á íslandi. Það sem er að sjálfsögðu alveg nauðsynlegt er að vera með númeruð sæti því það mundi leysa nærri því öll vandamál við íslenska bíómenningu.