FINDING NEMO Nýjasta afurð Disney fyrirtækisins ber nafnið Finding Nemo. Er þessi tölvuteiknaða mynd fimmta myndin sem Disney gefur út í samstarfi við Pixar Animation Studios en hinar fjórar voru Toy Story 1 og 2 (1995 og 1999), A Bugs Life (1998) og Monsters inc. (2001). Allt ágætar myndir (nema kannski A Bug´s Life).
Myndir Pixar hafa undantekningalaust notið mikilla vinsælda um allan heim og ekki að ástæðulausu (nema kannski A Bug´s Life) og er Finding Nemo engin undantekning. Hún var vinsælasta mynd í kvikmyndahúsum Bandaríkjanna síðasta sumar og sala DVD-útgáfu hennar virðist ætla að slá öll met, a.m.k. þegar litið er til teiknimynda.
Sögusvið myndarinnar er hafið, nánar tiltekið hafsvæðið undan ströndum Sidney.
Finding Nemo hefst á sorglegu nótunum þegar trúðfiskurinn Marlin (Albert Brooks) missir fjölskyldu sína í hákarlskjaft við heimili þeirra, fallegt og friðsælt rif þar sem Marlin hafði ætlað börnum sínum að vaxa úr grasi. Marlin kemst lifandi frá hákarlinum en kemst að því að fjölskylda sín er horfin, öll nema eitt óútklekt egg. Marlin skýrir þetta afkvæmi sitt Nemo, til heiðurs móðurinnar, og heitir því að ekkert illt muni henda það í gegnum ævidaga þess.
Svona hefst besta teiknimynd sögunnar. Sumum munu þykja þetta stór orð og þau eru það vissulega en ég stend fastar á þeim en fótunum.
Jæja, ófarir Marlins og Nemo litla eru engan veginn að baki því á fyrsta skóladegi Nemo hættir hann sér of langt út frá rifinu og er fangaður af köfurum í lítinn plastpoka fyrir augunum á Marlin. Marlin reynir árangurslaust að eltast við bát kafaranna sem hverfur fljótlega úr augssýn. Marlin er ekki á þeim buxunum að gefast upp og hefst þar með leit hans að syni sínum og þaðan er titillinn kominn… Finding Nemo.
Á leið sinni kemst Marlin í kynni við fjölmargar stórskemmtilegar persónur og ber þar hæst hinni minnislausu Dori (Ellen DeGeneres) sem verður sauðtryggur aðstoðamaður Marlins. Aðrar aukapersónur sem vert er að minnast á eru þrír breskir hákarlar sem eru að reyna að hætta að borða fisk (Eric Bana (Hulk) er einn þeirra), sæskjaldbökur sem tala og haga sér eins og freðnir brimbrettakappar, fiskatorfu sem fer með stanslausar eftirhermur og alvarlega geðsturlaða máva sem geta ekki sagt neitt nema “MINE”.
Kafarinn sem veiddi Nemo selur hann tannlækni í Sidney sem fer með hann á tannlæknastofuna sína og setur hann þar í fiskabúr. Í fiskabúrinu eignast Nemo vini sem einsetja sér að koma honum aftur heim. Með forystu í þeim efnum fer Gill (Willem Dafoe), gamalreyndur strokufiskur og jaxl. Brad Garret og Stephen Root bregða einnig fyrir sem raddir fiska í fiskabúrinu. Þeir sem ekki þekkja þá eru einfaldlega ekki með á nótunum. Geoffrey Rush talar svo fyrir pelíkanan Nigel svo það er sannkallaður stjörnufans sem sér um talsetningu myndarinnar.
Nú gæti lesandi spurt sjálfan sig; hvað er svona merkilegt við þessa mynd og hvers vegna er hún titluð hér sem besta teiknimynd sögunnar?
Frábær tónlist, stórkostleg tölvugrafík, unaðslegur “leikhópur” og allt slíkt er svo sannarlega til staðar og í þannig mæli að slíkt hefur ekki sést áður í teiknimynd. En þetta eru bara tæknileg atriði, það sem gerir útslagið og það sem skapar það meistaraverk sem Finding Nemo er er húmorinn í myndinni. Þetta er án efa fyndnasta mynd ársins. Ekki spillir fyrir að sagan er eins grípandi og hún er og persónusköpun er þannig að maður finnur til með persónunum, slíkt er ekki algengt og hvað þá með teiknimynd. En húmorinn og fyndnin er svo yndisleg að maður er sannarlega betri maður eftir að hafa séð Finding Nemo. Ég hef aldrei verið áhugamaður um teiknimyndir en ég bíð spenntur eftir næsta verki Pixar þó svo ég efist um að hún verði jafngóð og Finding Nemo.