Hvað eiga myndin The League of Extraordinary Gentlemen og kindur með riðuveiki sameiginlegt?
-það þarf að urða hvorutveggja!

Kvikmyndaiðnaðurinn í Hollywood náði að mínum mati nýjum hæðum í ósmekklegheitum og óvönduðum vinnubrögðum með gerð þessarar myndar sem er án nokkurs efa lélegasta mynd ársins!

Gloppurnar í handritinu eru svo stórar að meðal Zeppelin loftskip gæti nokkuð auðveldlega rennt sér í gegn um þær! Þegar svona 10 mínutur voru liðnar af myndinni fór ég að missa tölu á því hversu mörg heimskuleg atriði væru í þessari mynd og ég hófst handa við að rispa strik í sætisbakið fyrir framan mig til að halda utan um fjöldann, þegar myndin var hálfnuð var ég búinn að skrapa mig í gegnum sætisbakið og varð að færa mig yfir á næsta til að skemma ekki föt mannsins sem sat í sætinu!

Ég nenni ekki að telja heimsku ariðin upp hér, enda er ég ekki viss um að Huga-serverinn rúmi slíkt magn upplýsinga, hinsvegar leikur mér forvitni á að vita hvernig nokkur sála getur farið að sjá svona kvikmynd án þess að æla yfir sessunaut sinn, fá flogakast af viðbjóði og bíða svo varanlegan skaða af glápinu! Ég fann það strax þegar ég gekk út úr bíó að greindarvístitala mín hafði lækkað um ca. 10% og það var sko ekki af miklu að taka fyrir!

Ég fór þessu öllu til staðfestingar að athuga hvað fólk útí heim hefði að segja um þessa syndsamlega slæmu kvikmynd, og komst að því mér til mikils léttis að velflestir sem væru færir um að slá inn á lyklaborð hefðu svipaða sögu að segja, en það var þó ekki algilt. Nokkrir vitgrannir og sennilega geðveikir einstaklingar sem sennilega hafa fengið hjálp geðlæknisins síns við að slá inn í tölvuna höfðu aðra sögu að segja. Sumir þóttust vissulega hafa orðið varir við “minniháttar” gloppur í handritinu, en það væri nóg að sjá Sean Connery á tjaldinu til að réttlæta þessa mynd, og að hasaratriðin hefðu nú verið ansi skemmtileg!

Ég fékk svo mikið áfall við að lesa þetta að ég missti vald á hringvöðvanum, hann gaf eftir og kollurinn sem ég sat á rauk beina leið upp í kviðarol á mér!

Til að sanna það fyrir ykkur að ég er ekki þessi niðurrifs-týpa ætla ég að setja á fót meðferðarstöð fyrir fólk sem þykir LXG góð mynd, og veita því folki allt sem það þarf á að halda því að kostnaðarlausu, eins og raflostmeðferð, lithium töflur og stólpípur. Þeir sem vilja styðja þenan verðuga málstað geta farið í næsta Landsbanka útíbú og fengið þar gíróseðil merktan LXG-survivor!

Bestu kveðjur.