TERMINATOR 3: Rise of the Machines

Leikstjóri: Jonathan Mostow
Höfundar: John D. Brancato og Michael Ferris (saga). James Cameron og Gale Anne Hurd (persónur)
Aðalleikarar: Arnold Schwarzenegger, Nick Stahl, Claire Danes og Kristanna Loken.


Myndina sá ég á Nexusforsýningunni sem var alveg frábær og vil ég þakka Nexusmönnum fyrir þetta frábæra framtak, númeruð sæti og enginn texti eru atriði sem gera bíóupplifunina betri.

Myndin fjallar um upphaf endalokanna hjá mannkyninu, hljómar vel, ekki satt?…. John Connor er kominn á tvítugsaldurinn og hefur útilokað sig frá næstum öllu, enginn sími, heimili eða annað slíkt. Vélarnar reyna aftur að drepa hann og tilvonandi undirmenn hans í uppreisninni. Í þetta skiptið senda þeir háþróaðasta vélmennið sem þeir eiga, TX sem er leikin af Kristanna Loken. Og auðvitað er T-800 sendur einnig til að verða á undan til hans. Hvernig þetta gerðist er vel farið í í myndinni. Eins og flestir sem þekkja söguna að þá eru vélarnar að reyna að hindra uppreisn mannana gegn sér og þar fer John fremstur allra. Það væri vitleysa að gefa meira upp um myndina, sem að trailerinn gerir reyndar (Það er fáránlega mikið sýnt í honum þrátt fyrir að flestir geta ekki sett það í samhengi). Ég hvet alla til að skella sér á þessa snilld.

Myndin er vel skrifuð og leikstýrt þrátt fyrir að sömu menn séu ekki að vinna að myndinni. Jonathan Mostow veldur engum vonbrigðum fyrir harða Terminator fíkla því hann nær að halda sögunni vel inni, hasarnum og frábær húmor inn á milli.

Ég gef henni 4 og 1/2 af 5 stjörnum. Ég var ánægður með brellurnar, maður sá einstöku sinnum galla í leiknum en annars mjög vel gert.