Anger Management


Adam Sandler er orðinn einhvers konar vörumerki í gamanmyndageiranum og þeir sem þekkja til fyrri mynda hans vita nákvæmlega að hverju þeir ganga og þó myndirnar hans séu æði misjafnar að gæðum er einhvern veginn alltaf hægt að hafa gaman að þeim. Það á einnig við um Anger Management sem er besta Sandler myndin frá því hann gerði The Wedding Singer þar sem Punch-Drunk Love getur vart flokkast sem dæmigerð Sandler mynd.
Annars er það ekki Sandler sjálfur sem ræður úrslitum hér. Hann fer bara með sína hefðbundnu rullu skammlaust og lætur mótleikara sína um að lyfta myndinni upp fyrir meðalmennskuna. Þar fer Jack Nicholson fremstur í flokki og nýtur sín í botn sem snælduvitlaus geðlæknir sem tekur að sér að kenna Sandler að hemja skap sitt.

Þá fer John Turturro á kostum að vanda og stelur öllum sínum senum fyrirhafnarlaust. Þá er hinn geðþekki Luis Guzmán litlu síðri.
Marisa Tomei leikur unnustu Sandlers og er alltaf jafn heillandi og Woody Harrelson og fleiri þekkt nöfn krydda þetta enn frekar í skemmtilegum gestahlutverkum.
Anger Management er léttleikandi gamanmynd sem er þrælfyndin þegar hún rís sem hæst og það er greinilegt að leikararnir hafa skemmt sér konunglega við gerð hennar og áhorfendur komast ekki hjá því að hrífast með.
Dabbi…