Wachowski bræðurnir Mér datt núna svona í hug að koma með grein um Wachowskibræðurna í tilefni þess að nú styttist í The Matrix framhöldin. Það er ekki mikið hægt að grafa upp varðandi fortíð þessara furðufugla, sem hafa breytt kvikmyndaheiminum. Þeim er mjög illa við að vera í kastljósinu og veita enginn viðtöl.

Larry Wachowski fæddist 21 júní árið 1965 og yngri bróður hans Andy Wachowski fæddist 29 desember árið 1967. Þeir fæddust báðir í Chicago og ólust upp þar í bæ. Þeir byrjuðu snemma að vinna saman og hættu báðir í menntaskóla til að fara í skemmtanabransann. Leið þeirra á toppinn var ekki einföld og áður en þeir ruddu sér leið í bransanum ráku þeir teppafyrirtæki í Chicago ásamt því að búa til myndasögublöð í frítíma sínum. Þeir máluðu líka hús um tíma. Þeir voru heillaðir af allskonar hugmyndafræði varðandi raunveruleikaskyn mannsins og deildu mörgum hugmyndum saman. Það var svo Larry sem heimtaði að Andy myndi lesa bók eftir goðsagnarkennda kvikmyndagerðamanninn Roger Corman og þar með fóru þeir að hugsa um að reyna á hæfileika sína til að skrifa kvikmyndahandrit.

Þeir skrifuðu fyrst handrit í Corman-stíl um mannát hjá yfirstéttinni. Þeir fundu fyrir því að Hollywood var hikandi við að meðtaka þetta ógnvænlega handrit þeirra þannig að þeir skrifuðu annað handrit sem var meira Hollywood vænna. Það var handritið að myndinni Assassins(1995), sem skartaði þeim Sylvester Stallone og Antonio Banderas í hlutverkum tveggja leigumorðingja. Myndin floppaði og bræðurnir voru vonsviknir yfir útkomunni á myndinni. Þeir ákváðu að skrifa annað handrit og leikstýra sjálfir í fyrsta sinn. Útkoman var Bound(1996) rómantískur film-noir þriller um tvær lesbískar glæpakonur sem svíkja peninga út úr mafíunni. Bræðurnir fengu innblástur frá myndum eins og Double Indemnity eftir Billy Wilder, Chinatown eftir Roman Polanski og Evil Dead eftir Sam Raimi. Myndin var tekið misvel en bræðurnir eignuðust samt þar lítinn en hliðhollan aðdáendahóp, sem sáu hæfileika bræðranna.

Eftir ágætar viðtökur Bound ákváðu bræðurnir að ráðast í gerð myndar sem hafði verið í kollinum á þeim í mörg ár. Þeir vildu blanda saman heimspekilegum pælingum um raunveruleikann og mögnuðum bardagaatriðum, enda voru þeir miklir aðdáendur bardagamynda frá Asíu. Þeir hugsuðu um þetta verkefni sem trílógíu frá fyrsta degi og blönduðu allskonar merkingarsamhengjum við handritið allt frá Biblíunni til Lísu í Undralandi. Þeir voru heillaðir af allri cyberpunk menningunni sem byrjaði með bókum William Gibson og dáðu kvikmynd Ridley Scott, Blade Runner. Þeir gerðu 14 útgáfur af handritinu áður en það var fullkomnað. Kvikmyndaverin voru ekki allveg til í að stökkva til þannig að bræðurnir þurftu að sýna þeim hvað þeir vildu gera með teikningum. Þeir réðu storyboard-listamennina Geof Darrow og Steve Skrose til að teikna yfir 500 teikningar eftir hugmyndum þeirra. Þetta fóru þeir með til Warner Bros og töluðu við framleiðandann Joel Silver. Þeir sýndu honum þessar teikningar og sögðu “Þetta viljum við gera í alvöru” og Silver sagði “ef þið getið komið þessu á tjaldið þá fáið þið peninganna frá okkur”.

Þar með var 6 ára undirbúningsvinna og endalausar pælingar frá menntaskólaárunum loksins búnar að borga sig og þeir fengu 70 milljónir $ til að gera The Matrix(1999).
Bræðurnir segjast elska að búa til flóknar sögur, Larry segir “Af því við ólumst upp á myndasögum og þríleik Tolkien höfðum við mikinn áhuga á því að koma alvörugefnum skáldskap á hvíta tjaldið”. Hann heldur áfram “ Ef þú getur horft á mynd án þess að vita að eftir 1 og hálfan tíma kemur aðalatriðið og þú veist ekki hvenær myndin endar þá erum við ánægðir”. Andy tekur í sama streng og segist vilja rugla áhorfendur meira en algengt er í bransanum. “Okkur finnst flestar myndir mjög leiðinlegar og fyrirsjáanlegar. Við viljum hrista svolítið upp í áhorfandanum og koma með nýjar væntingar” segir Andy.

The Matrix fjallar um tölvuhakkarann Neo(Keanu Reeves), öðru nafni Thomas Anderson sem er vakinn upp af slæmum draum. Hann uppgötvar það að honum er ætlað eitthvað meira en að sitja við tölvu allan daginn þegar hann kynnist uppreisnarmönnunum Morpheus,Trinity,Cypher,Tank, Dozer,Apoc,Switch og Mouse. Honum er ýtt inn um dyr að raunveruleikanum sem skelfir hann að beinum. Hann hefur lifað í draumaheim sem byggður var af vélum sem mannkynið missti stjórn á. Honum er ætlað að leiða uppreisnarher gegn vélunum í stríði. Nú er ekki lengur barist við nasista, nú er barist gegn vélum. Hann er hundeltur af tölvuforritum innan veggja draumaheimsins(Matrix) og fremstur í flokki þeirra er Agent Smith(Hugo Weaving).

The Matrix sló í gegn í miðasölu víðsvegar um heiminn og kom af stað culthópum. Myndin átti eitthvað svo rétt við á þessum tíma þar sem fólk var að bjóða nýtt árþúsund velkomið og tæknilegar og trúarlegar pælingar færast nær hvort öðru. Joel Silver sagði um myndina “ Þetta er fyrsta alvöru myndin á nýju árþúsundi og gefur og okkur nasaþef af því sem koma skal í framtíðinni í kvikmyndagerð”.

Eftir gífurlega gott gengi The Matrix í kvikmyndahúsum og einnig á DVD, ég held að The Matrix á DVD eigi sölumet, var ekkert mál að fá samþykki á hinar tvær myndirnar í þríleiknum sem þeir vildu alltaf gera. Þeir byrjuðu að vinna að þeim strax seint á árinu 2000. Þeir vildu gera báðar myndirnar í einu sem eina stóra sögu sem skiptist í tvennt. Kostnaðurinn var litlar 300 milljónir$ , sem er það sama og allar Lord of the rings myndirnar kostuðu samanlagt. Nú eru peningarnir ekki fyrirstaða og bræðurnir hafa lofað því að toppa fyrstu myndina með ótrúlegum brellum og enn flóknari sögu og heimspekipælingum.

Fyrsta myndin mun heita The Matrix Reloaded og sú seinni heitir The Matrix Revolutions. Reloded kemur núna 16 maí hér á landi og hin kemur í nóvember.

Það er nokkuð ljóst að það verður forvitnilegt að fylgjast með Wachowski-bræðrum í framtíðinni. Þeir eru reyndar ekki búnir að ákveða hvað þeir gera eftir The Matrix þríleikinn, væntanlega fara þeir í smá frí fyrst. Þessi bræður hafa valdið straumhvörfum í sci-fi hasar geiranum. Þótt þeir séu ekki með algjörlega frumlegar pælingar þá hafa þeir samt náð að blanda þessum tveimur flokkum listilega vel saman í The Matrix. Þeir blanda inn í það heimspeki og goðsagnarkenndu sögusviði. Þeir hafa haft jafnmikil áhrif á kvikmyndagerð eins og Star Wars gerðu á sínum tíma. The Matrix þríleikurinn er líka Star Wars okkar tíma.

Ég hef ákveðið að koma líka með greinar um Keanu Reeves, Laurence Fishburne, Carrie Ann Moss og Hugo Weaving áður en The Matrix Reloaded verður frumsýnd, bara svona til að hita upp fyrir veisluna.

Fróðleikur:

*Báðum Ewan McGregor og Will Smith var boðið að leika Neo á undan Keanu, Will Smith vildi frekar gera Wild Wild West (lol)

*Carrie Ann Moss braut á sér ökklann við tökur á The Matrix en sagði engum frá því fyrr en eftir tökurnar svo hún missti ekki hlutverkið.
*Þegar Neo ælir eftir að hafa farið í fyrsta sinn aftur í The Matrix var Keanu í alvöru að æla, hann fékk einhverja slæma kjúklingaböku nokkrum stundum áður.
* Wachowski bræður notuðu sama þak og notað var í Dark City, sem þeim fannst góð mynd. Það er þakið þar sem Trinity hleypur undan útsendurum í byrjun myndarinnar. John Murdoch hljóp yfir það einnig í Dark City. Það voru fleiri sett notuð frá Dark City í The Matrix
*Atriðið þar sem Neo hittir hæfileikaríka krakka hjá Oracle er eftirherma af atriði í japönsku teiknimyndinni Akira(1988).
* Þegar Neo er í lyftunni með Morpheus á leiðinni að hitta Oracel stendur KYM á lyftuveggnum. Búningahönnuður The Matrix heitir KYM Barrett.
*glífurnar sem rúlla yfir tölvuskjánna í The Matrix eru í raun bara venjulegir stafir öfugir eða tölur og einnig japanskir katakana stafir.
*Know Thyself sem stendur í eldhúsi Oracle stóð einnig yfir innganginum að véfréttinni í Delfí á sínum tíma.
*Herbergisnúmer Neo er 101. Í bókinni 1984 eftir Orwell var herbergi nr. 101 herbergi þar sem fólk var pyntað og látið trúa einhverju sem var ekki satt.
* Bullet time atriðið fræga hefur verið notað í 20 öðrum myndum síðan.


-cactuz