Dreamcatcher *Fyrir lestur þessarar greinar skal það tekið fram að ég hef ekki lesið eina einustu bók eftir King!*

Ég hef nú aldrei verið mikill Stephen King aðdáandi en engu að síður á hann óhugnalega marga aðdáendur, þannig að eitthvað hlýtur að vera varið í það sem hann gerir! Þess vegna ákvað ég að skella mér á nýjustu afurð hans, Dreamcatcher, í gærkvöldi í góðra vinahópi, og ég varð sko ekki fyrir vonbrigðum. Ég varð í rauninni bara mjög sáttur og er það ekki fyrir mestu þegar maður fer í bíó?

Myndin fjallar í aðalatriðum um fjögurra vinahóp sem er bundin saman af yfirnáttúrulegum hæfileikum. Einnig er vert að minnast á sameiginlegan vin þeirra, Duddist, sem spilar nokkuð stórt hlutverk í myndinni, en það væri bara illa gert af mér að segja frekar frá því! Þeir hafa verið vinir síðan í barnæsku en eru nú allir orðnir fullorðnir menn, en gengur frekar illa að fóta sig í lífinu, þar sem hinir yfirnáttúrlegu hæfileikar vilja stundum flækjast svolítið fyrir þeim. Á hverju ári fara þeir svo í veiðiferð útí nálægan skóg, og virðist ferðin þetta árið ætla að verða ósköp venjuleg, en svo fara furðulegir hlutir að gerast, og ég held að ég ætti ekki að fara mikið nánar útí það… Ég get þó sagt ykkur að inní söguþráðinn fléttast geimverur og geðveikur ofursti, leikinn af Morgan Freeman. Aðrir helstu leikarar eru Thomas Jane (Sweetest Thing), Jason Lee (Dogma), Damian Lewis (Band of Brothers), Timothy Olyphant (Rockstar) og Tom Sizemore (Saving Private Ryan) og Donnie Wahlberg, sem leikur Duddits.

Það verður nú að viðurkennast að á tímabili verður myndin hálf ruglingsleg, og maður veit ekki alveg hvernig aðalpersónurnar tengjast þessum geimverum, og hvort það sé bara tilviljun að þeir hafi þessi yfirnáttúrulegu hæfileika. Þetta skýrist þó allt með tímanum, og myndin er mjög spennandi. Einnig koma oft atriði þar sem maður kippist við í sætinu, og það er eitthvað sem er ómissandi á svona myndum. Þrátt fyrir allan hryllinginn sem á sér stað í myndinni var andrúmsloftið í bíóinu mjög létt og oft skellti fólk rækilega uppúr. Þess vegna veit ég ekki alveg hvað þessi mynd á að vera, gamansöm hrollvekja kannski?

Ef við víkjum aðeins að tæknilegu hliðinni, þá var hún öll til fyrirmyndar. Flestar ef ekki allar brellur voru vel unnar, sjónspilið í sprenginum var með ágætum, tónlistin átti vel við og magnaði upp andrúmsloftið á stundum, og einn var myndatakan oft nokkuð mögnuð, eins og t.a.m. þegar Morgan Freeman er að hella sér í glas. Myndin er yfirhöfuð bara nokkuð mögnuð og mjög góð skemmtun, eitthvað sem ég myndi mæla með fyrir alla, eldri en 16 ára að sjálfsögðu…
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _