Jackie Brown ***Grein inniheldur spilla***

Titill myndar : Jackie Brown
Framleiðsluár : 1997
Leikstjóri : Quentin Tarantino
Handrit : Quentin Tarantino (byggt á skáldsögu Elmore Leonard)
Aðalhlutverk : Pam Grier, Samuel L. Jackson, Robert Forster og kannski Bridget Fonda og Robert De Niro
Tegund myndar : Thriller, glæpa- og spennumynd, drama
Lengd myndar : 148 mín (151 mín hjá imdb.com)

Eftir gríðarlega velgengni fyrri mynda Tarantino, var búist við enn einu meistaraverki. Ég held að meirihluti þeirra sem sáu Jackie Brown, hafi orðið fyrir vonbrigðum. Árið 1997 (eða 1998), var ég lítill pjakkur, um ellefu ára gamall þegar ég og faðir minn röltum út á videoleigu, þegar þangað var komið varð mér ljóst, mér til armæðu, að ég hafði gleymt lista sem birst hafði í DV nokkru áður og sagði frá zombie-hryllingsmyndum sem vert var að sjá. Til að fara ekki tómhentir heim, varð fyrir valinu nýjasta mynd Tarantino, Jackie Brown. Á þeim tíma kunni ég ekki að meta þessa mynd, of lítið að gerast og fannst töff að horfa á spennumyndir með götótt handrit og “hryllingsmyndir” fyrir unglingar og féll hún því nokkurn veginn í gleymsku. Nokkrum árum síðar, velti ég því fyrir mér hvernig væri að sjá myndina aftur og tók hana því sem aukaspólu nú fyrir stuttu og verð ég að segja að myndin sú olli mér ekki vonbrigðum.

Myndin segir frá flugfreyjunni Jackie Brown sem smyglar peningum inn í landið fyrir vopnasölumanninn Ordell Robbie. Á leiðinni úr einni slíkri sendiferð er frk. Brown handtekin, en þannig vill nefnilega til að þetta skiptið eru ekki bara peningar. Poki af dópi finnst einnig og verður hún þá að taka mikilvæga ákvörðun: Á hún að segja til Ordell og sleppa við fangelsisvist, eða á hún að fara í fangelsi og halda lífi. Inn í þetta kemur svo Max Cherry, maður sem vinnur við tryggingar og að leysa fólk úr haldi (bail bondsman) og tekur Jackie þá afdrifaríka ákvörðum sem á eftir að hafa áhrif á alla sem koma að máli. Meira er eiginlega ekki hægt að segja án þess að spilla myndinni algjörlega, kannski búinn að því nú þegar.

Má vera að þessi mynd jafnist ekki á við fyrri myndir leikstjórans, en ég get sagt að ég varð alls ekki fyrir vonbrigðum. Það sem mér fannst öðruvísi við þessa mynd en hinar myndir Tarantino var það að í þessari mynd var ekki allt á fullu allan tímann, minna ofbeldi en í hinum þó það skaði að sjálfsögðu ekki.Handritið í myndinni er þétt og er leikurinn góður, tónlistin er einnig að sjálfsögðu frábær og svona retro fílingur í manni þegar maður horfir á myndir hans. Framvindan er hins vegar nokkuð hæg og er þessi mynd síst þriggja mynda hans.
Nú í sumar (að ég held) er væntanleg nýjasta myndin hans, Kill Bill og nú er bara að bíða eftir að sex ára bið eftir nýrri mynd ljúki!

***+ / ****