Joel og Ethan Coen eru bræður í kvikmyndaheiminum sem flest allir kannast við. Þeir eru hausarnir á bak við nokkrum af fyndnustu,frumlegustu,furðulegustu og ánægjulegustu stundum sem hvíta tjaldið hefur endurvarpað. Þótt þeir vinni alltaf saman er Joel Coen alltaf titlaður sem leikstjóri en Ethan er alltaf til staðar til að aðstoða bróður sinn. Þeir skrifa allar sínar myndir sjálfir og klippa þær en þeir nota skemmtilegt leyninafn þegar nafnalistinn birtist í lok myndanna. Þar nota þeir nafnið Roderick Jaynes undir klippingu myndanna. Ethan sér svo um framleiðslu myndanna.

Coenbræðurnir hafa heillað lítinn en hliðhollan hóp upp úr skónum og eiga mjög sterka og ákveðna aðdáendur. Stíl þeirra er erfitt að lýsa með örfáum orðum. Þeir hafa sterkan film-noir keim í nánast öllum myndum sínum, sumum meira en öðrum. Þeir gera oftast ódýrar myndir með kolsvartan húmor. Hnyttin handrit og hálfgerð teiknimyndakvikmyndagerð einkenna þá einnig. Þeir sækja innblástur helst í b-myndir,kolruglaðar teiknimyndir og gríneftirhermumyndir(exploitation myndir) frekar en stórar virðulegar myndir og það er kannski lykill þeirra að velgengni og ferskleika þeirra. Þeir eiga stóran þátt í baráttunni við stóru “rusl” kvikmyndagerðina sem er nokkrum skrefum frá því að einoka kvikmyndagerð Bandaríkjamanna. Þeir halda uppi hefð óháðra kvikmyndagerðamanna í Bandaríkjunum og rýma til fyrir fleiri með vinsældum sínum.

Coenbræður eru merkilegir einnig fyrir þær sakir að það er hægt að kafa djúpt í myndir þeirra. Þeir skilja eftir oft leynd merkingarsamhengi með skemmtilegum innskotum frá klassískum bókmenntum og eru greinilega vel lesnir þrátt fyrir áhugann á teiknimyndum og b-myndum. Þeir losa sig bara við alla uppgerð og hroka og gera skemmtilegri myndir en flestir allir hinir sem rembast við að gera merkilegar og vitrænar kvikmyndir en falla svo á skemmtanagildi. Það er hægt að fá það besta úr báðum heimum.

Joel Coen fæddist í Minneapolis, Minnesota 29 nóvember árið 1954 og bróðir hans Ethan 21 september árið 1957. Joel stundaði nám við háskóla í New York áður en hann gerðist kvikmyndagerðamaður snemma á níunda áratugnum. Hann var aðstoðarklippari góðvinar síns Sam Raimi(Spiderman) þegar sá síðarnefndi var að gera fyrstu Evil Dead myndina sína árið 1982. Á þeim tíma byrjuðu bræðurnir að semja handrit og gerðu sína fyrstu kvikmynd árið 1984 sem hét Blood Simple. Ólíkt flestum sem byrja í kvikmyndabransanum urðu þeir vinsælir strax með sinni fyrstu mynd og þóttu efnilegt og frumlegt nýtt afl í Hollywood. Blood Simple var útkoma af miklum áhuga þeirra bræðra á film-noir myndunum sem voru vinsælar á 5 áratugnum en höfðu gleymst í nokkra áratugi. Þeir voru miklir aðdáendur risanna tveggja í film-noir spæjara flokknum, rithöfundarnir Raymond Chandler og James M. Cain. Blood Simple endurvakti að mörgu leyti film-noir hefðina og gerði hana vinsæla aftur þrátt fyrir að Blade Runner, sem kom árið 1982, hafði notað film-noir takta þá varð sú mynd ekki vinsæl fyrr en löngu seinna og átti hún því ekki það stóran þátt í að endurvekja film-noir. Blood Simple fjallaði um ríkan mann sem ræður einkaspæjara til að drepa eiginkonu sína, sem hefur haldið framhjá honum, og nýja manninn hennar en það er aldrei auðvelt að fremja morð.

Bræðurnir skrifuðu svo handrit að mynd sem hét Crimewave og fengu vin sinn Sam Raimi til að leikstýra henni en sú mynd hefur ekki fengið neina athygli og þykir ekki góð jafnvel þótt þessir þrír snillingar standi á bak við hana. Þegar Coenbræðurnir voru búnir að gera hina fullkomnu film-noir mynd þá vildu þeir gera hálfgerða leikna teiknimynd og útkoman var grínmyndin Raizing Arizona, sem kom út árið 1987. Þar blönduðu þeir saman furðulegum karakterum með skemmtilegri kvikmyndatöku, sem var í höndum Barry Sonnenfeld, sem er orðinn leikstjóri í dag(Adams Family,Get Shorty,Men In Black). Hún sló einnig í gegn og voru margir farnir að taka eftir þessu tvíeyki á þeim tíma og sérkennilegum stíl þeirra. Aðdáendahópur þeirra var að stækka ört og þeir skelltu sér í næsta verkefni árið 1990 með glæpamyndinni Miller´s Crossing, þar sem John Turturro þykir fara á kostum ásamt mörgum frábærum leikurum í meistaraverki sem því miður hefur ekki fengið verðskuldaða athygli. Þeir voru ekki lengi að koma með aðra mynd og núna var viðfangsefnið ritstífla. Myndin hét Barton Fink og þar hélt John Turturro áfram að sýna hvers hann er megnugur í höndum Coenbræðra. Nokkuð hæg mynd reyndar en nokkuð skemmtilegt hvernig Coen bræður líkja Hollywood við helvíti á jörðu þegar leikritahöfundurinn getur ekki komið neinu á blað.

Næsta mynd þeirra The Hudsucker Proxy olli vonbrigðum og fékk ekki góða dóma frá gagnrýnendum né almenningi. The Hudsucker Proxy fjallar um stjórn fyrirtækis sem ákveður að eyðileggja fyrirtæki þegar forstjóri þess deyr. Þeir ætla sér að leggja fyrirtækið í rúst til að kaupa það á lágu verði og endurbyggja það sjálfir. Þeir ráða aumingja í póstdeild fyrirtækisins til að leiða fyrirtækið til glötunar. Tim Robbins fer með hlutverk aumingjans í þessari nokkuð stílhreinu satíru um yfirvald kapítalismans og minnir nokkuð á meistaraverk Terry Gilliam, Brazil. Ef The Hudsucker Proxy olli vonbrigðum þá slógu Coenbræður allar flær af sér með sinni næstu mynd. Fargo kom út árið 1996 og sló rækilega í gegn og er talinn af mörgum vera besta mynd þeirra.

Fargo er einkar grimm og raunsæ glæpamynd með ótrúlega mikilli hlýju inn á milli og minnistæðum karakterum. Þar rifja þeir upp þema frá Blood Simple þ.e.a.s. græðgi,morð og spillingu. Í köldu umhverfi Minnesota virðist stutt í stundarbrjálæði íbúanna. Myndin vann til óskarsverðlauna fyrir handrit og Francis McDormand vann einnig styttuna góðu fyrir ógleymanlegu óléttu lögreglukonuna sem stelur senunni. Annars þykir mér William H. Macy einnig fara á kostum sem einkar meðaumkunarverður bílasali. Ekki var hún mikið síðri myndin sem þeir gáfu út tveimur árum seinna. The Big Lebowski er blanda af glæpamynd og súrrealískri grínmynd. The Dude, aðalpersónuhetja myndarinnar, á marga aðdáendur um allan heim og var þessi mynd ein af þeim myndum sem mikið var vitnað í enda eru samtölin mörg hver stórskemmtileg. Þeir Jeff Bridges og John Goodman fara á kostum í hlutverkum sínum sem The Dude og Walter Sobchack, sem var sérsamið hlutverk fyrir John Goodman.

Coen bræður byrjuðu þessa öld með tveimur frábærum en ólíkum kvikmyndum. Sú fyrri kom út árið 2000 og hét O Brother Where Art Thou og er í raun lausleg útgáfa þeirra af hinu sígilda Ódysseifskvæði Hómers. Hún fjallar um þrjá strokufanga sem leggja í furðulega ferð til að finna falin “fjársjóð” sem einn þeirra skildi eftir í húsi sem verður brátt vatni frá nærliggjandi stíflu að bráð. Frábær mynd með góðum leikurum t.d. George Clooney,John Goodman,John Turturro og Tim Blake Nelson. Hin myndin er lágstemmd glæpamynd með Billy Bob Thornton sem heitir The Man Who Wasn´s There. Hún fjallar um keðjureykjandi og þá meina ég “keðju” reykjandi rakara sem ákveður að fjárkúga manninn sem sefur hjá konu sinn eftir að hann kemst að framhjáhaldi hennar. Mögnuð myndartaka og allir kostir film-noir hefðarinnar gera þessa mynd ógleymanlega.
Bræðurnir eru ekkert að fara setjast í helgan stein því þeir koma með mynd núna á þessu ári sem heitir Intolerable Cruelty. Þeir hafa fengið góðkunningja sína til liðs við sig eins og George Clooney,Billy Bob Thornton og svo nýja leikara eins og Catherine Zeta Jones og Geoffrey Rush. Myndin fjallar um unga hefndarsjúka konu sem giftist ríkum lögfræðingi og kvennamanni í Beverly Hills til að græða svo af tá og fingri í skilnaði. Coenbræður hafa einnig í huga að endurgera gömlu Peter Sellers myndina Lady Killers með Tom Hanks líklega í aðalhlutverki.

Eins og Alfred Hitchcock á sínum tíma treysta Coenbræður mikið á það að forvinna myndir sínar vandlega og gera ítarlegar teikningar af hverjum ramma(storyboard). Fyrir utan Raising Arizona innihalda allar myndir þeirra svona ískaldan kaldhæðnistón líkt og myndir Hitchcocks og Stanley Kubricks. Fargo er kannski besta dæmið um þetta þar sem hún byrjar sem nokkuð lágstemmd grínmynd og breytist svo í harðneskjulegt ofbeldi með slæmum afleiðingum. Það vantar samt alvörugefnar siðferðisspurningar og þráhyggju Hitchcocks eða gáfur og alvörugefni Kubricks. Þrátt fyrir það hafa þeir markað djúp spor í kvikmyndasögu Bandaríkjamanna og heimsins með sínum eigin hætti. Það mætti segja að þeir væru það besta sem hefur komið þaðan síðan blómaskeið áttunda áratugarins gaf af sér leikstjóra eins Scorsese,Coppola,Altman,Spielberg og De Palma. Þrátt fyrir að þeir hafi furðulega sjónræna stíl og vilja helst ekki bregða of langt frá handritum sínum þá finnst leikurum gott að vinna með þeim. Aðallega vegna þess að þeir eru svo jarðbundnir og þægilegir í kvikmyndaferlinu og öruggir með sig. Coenbræðurnir nota oftast sömu leikarana t.d. John Goodman,John Turturro,Steve Buscemi,Francis McDormand,Holly Hunter, o.fl. Þótt Joel sé alltaf skráður sem leikstjóri þá ráðfærir hann sig ávallt við Ethan um alla hluti og þeir standa oft saman á tökustað og tala sitt eigið tungumál sem enginn skilur um myndirnar og hvernig allt á að koma út. Ég vil nú samt meina að þetta sé enginn ævisögugrein um þá bræður því þetta er einungis fyrsti kaflinn í langri kvikmyndasögu þeirra. Þeir eru langt frá því að vera hættir og ef eitthvað er þá eru þeir ennþá á leiðinni á toppinn. Það bíða allir með öndina í hálsinum eftir næstu mynd Coenbræðra.

Ýmislegt sem þú kannski vissir ekki um Coenbræður eða myndir þeirra:
*Fargo er ekki byggð á sannsögulegum staðreyndum, heldur er hún einungis hugarfóstur Coenbræðra. Þetta er týpískur brandari hjá þeim að láta alla halda annað.
*Í creditlista Fargo er tónlistarmaðurinn Prince eða öllu heldur merkið hans sett hjá líkinu í grasinu en það var í raun leikari að nafni J.Todd Anderson sem var líkið.
*Steve Buscemi deyr í nánast öllum Coenmyndunum sínum nema The Hudsucker Proxy.
*The Dude sést aldrei spila keilu
*Donnie í The Big Lebowski fær alltaf fellu í keilu nema kvöldið áður en hann fær hjartaáfall í slagnum við níhilistana.
* Fuck er sagt 267 sinnum í The Big Lebowski
* The Dude segir 144 sinnum Man og drekkur 8 White Russian drykki
*Plötualbúmið í The Big Lebowski með hljómsveitinni Autobahn er nokkuð góð eftirlíking af plötualbúmi sem Kraftwerk gaf út. Eitt lag með Kraftwerk heitir einmitt Autobahn.
*The Man Who Wasnt There var tekinn upp í lit en prentuð sérstaklega út í svart-hvítu.
*Billy Bob Thornton ákvað að taka að sér hlutverkið í The Man Who Wasn´t There án þess að lesa handritið.
*Francis McDormand er gift Joel Coen, þau giftust árið 1984 þegar Blood Simple kom út.


-cactuz