Þegar kaldur vindurinn strýkur kinn manns á dimmu
vetrarkvöldi og tunglsskinið varpar skugga manns á harða
gangstéttina, þá er ekki hægt að komast framhjá því að hugsa
um tegund mynda sem vinsælust er á meðal fólks og sú gerð
mynda eru hryllingsmyndir. Það er almennt talið að okkur
mannfólkinu finnist eitthvert skemmtanagildi í að láta hræða
okkur og gera okkur illt af viðbjóð. Við lifum á tímum þar sem
hinn raunverulegi viðbjóður er allt í kringum okkur, hin
raunverulega ógn er óumflýjanleg.

Þegar fréttamenn sýna okkur myndir af litlum krökkum sem
svelta í vanþróuðu löndunum og mönnum sem eru höfðinu
styttri. Þá má segja að það sé ógeðslegra en að sjá mynd um
skrímsli sem er bútað í spað af brjáluðum vísindamanni, og
myndavélin færð það nálægt að maður finnur nánast síðustu
andardrætti ófreskjunnar í myrkvuðum bíósalnum, og maður
grípur í kókdósina til þess að fullvissa sig um að maður sé
enn í bíó. Ástæðan er augljós. Það sem við sjáum í sjónvarpi
er raunverulegt en það sem við sjáum í hryllingsmyndum er
óraunveruleiki sem sagt “feik”.

Það er ekki furða að hryllingsmyndir og aðrar blóðugar myndir
skuli vera bannaðar börnum innan einhvers aldurstakmarks.
Hvernig eiga börn að vita hvað er raunveruleiki og hvað ekki.
Fullorðið fólk veit að kvikmyndir eru allt annar hlutur og það
sem maður sér í kvikmynd er “feik”. En nú þegar kvikmyndir,
og ég tala nú ekki um hryllingsmyndir, eru orðnar það
raunverulegar og raunsæjar, að það liggur við að maður efist
um hvað sé raunverulegt og hvað ekki. Þar sem
blóðsúthellingar eru hluti af hryllingsformúlunni, þá er auðvelt
að þróa nýja tækni í að varpa morðum á hvíta tjaldið.
Tölvutæknin er notuð og nú er hægt að láta ímyndunaraflið
leika lausum hala.

Frægar kvikmyndir hafa verið gerðar með það í huga að sýna
okkur heim sem ekki er hægt að ímynda sér. Ástæðan er ef til
vill sú að engin ástæða er til þess. Hitchcock var sá leikstjóri
sem fyrst kom með þær hryllingsmyndir sem voru nær
raunveruleikanum. Áður höfðu vampírumyndir og
ófreskjumyndir verið vinsælar. Hitchcock skapaði nýja
hræðslu. Hina raunverulegu hræðslu. Hann sýndi að
nágranni manns eða hótelstjórinn gæti verið miskunnarlaus
morðingi. Hann beitti myndavélinni þannig að áhorfandinn
skapaði sína eigin blóðugu senu. Hitchcock var frægur fyrir
það og ber að nefna hið fræga sturtuatriði í Psycho.

Seinna meir varð sá hryllingur til sem við þekkjum í dag til.
Þegar William Friedkins gerði The Exorcist árið 1973 þá var
hryllingsmyndagerðin fullkomnuð. Nú var ekkert tiltökumál ef
leikstjórinn sýndi blóðið og morðin beint fyrir framan augu
bíógesta.

Þrátt fyrir viðbjóð og splatter þá er alltaf eitthvað sem fær
mann til þess að fara á hryllingsmyndir. Þær eru oft
skemmtilegar og kómískar á sinn hátt og sýna manni oft nýja
sýn á hversdagslífið. Þótt það sé asnalegt að segja það, þá
eru sumar sem velta upp heimspekilegum hugmyndum.

Ég mæli með því að fólk sem er ekki búið að sjá Psycho, The
Exorcist eða Nosferatu sem er sígild mynd, taki þær bara allar
eitthvert kvöldið og glápi. Og ef til vill sefur fólk með lokaðan
gluggann og með biblíuna í hendinni og sleppir því að fara í
sturtu um morguninn. Því það er einmitt það sem gerir
hryllingsmyndir að því sem þær eru.

Tekið af: 3BIO.IS