Umdeildar myndir- fyrri hluti Það er ekkert jafn leiðinlegt og dapurlegt en að fara á mynd og gleyma henni svo á sömu sekúndu þegar creditlistinn kemur upp. Það er samt sem áður allt yfirfullt af svokölluðum afþreyingarmyndum sem eingöngu skemmta manni/eða ekki á meðan myndin gengur og svo er ekkert skilið eftir fyrir heilafrumurnar að melta að mynd lokinni. Vissulega getur verið fínt að fara stundum í bíó, helst þunnur á sunnudagskveldi, horfa á flottar hasarsenur með mikinn hávaða og gleyma sér í smá stund. Þessi hluti af kvikmyndamenningunni verður að sjálfsögðu að vera til en hann má aldrei yfirtaka allan markaðinn, þó það sé óþægilegt að kalla þetta markað.

Pólítíks rétthugsun er það sem tröllríður kvikmyndum í dag og ritskoðun frá hvítflibbum sem aldrei verma kvikmyndasætið sjálfir. Það koma sífellt færri umdeildar myndir á “markaðinn” og ef þær koma þá eru þær flestar í dag frá öðrum löndum en Bandaríkjunum. Það er ekkert betra við góða bíóferð en að festast í umhugsun um myndina sem veldur rökræðum á milli vina eða ættingja. Kvikmyndin er líka tjáningarmiðill og getur vakið mikla umræðu, það hefur sést í gegnum tíðina að kvikmyndir geta nánast bjargað málefnum stundum því fólk tekur kvikmyndina oft mjög alvarlega ef þannig er farið að gerð hennar og það sé eftirtektarvert. Mig langar aðeins að rifja upp nokkrar myndir sem ég hef haft dálæti á í gegnum tíðina og hafa fengið mig til að sjóða núðluna í smá stund.

Dogma: Skemmtileg satíra eftir Kevin Smith sem dregur nafn sitt af kirkjulögum. Myndin var tekinn í gegn af kaþólsku kirkjunni væntanlega fyrir þá mynd sem gefin er upp af henni. Hvaða mynd sem það var veit ég ekki því myndin snýst í raun bara um hugmyndafræði þess að trúa á Guð og það er reynt að koma efni trúarinnar í nútímalegra form, þar sem englar ganga um í venjulegum fötum. Það er einnig bent á ýmsar þversagnir í biblíunni ásamt því að blanda inn nútíma húmor, þar stígur Chris Rock inn. Í rauninni er bara verið að segja að það er hægt að hlægja að trúnni og kirkjunni sem stofnun, þar sem kardinálinn auglýsir kirkjuna sem verslunarstöð og breytir ímynd Jesú í meira hipp útlit með þumalinn upp(reyndar einkabrandari þar ætlaður Roger Ebert gagnrýnanda). Það er fjallað nokkuð um fóstureyðingu í myndinni og hvernig dogma(kirkjulög) sjá til þess að flokka fólk alltaf í tvær fylkingar með hatrömmum rifrildum byggt á túlkun biblíunnar, sem greinilega er ekki fullkomin.

Fight Club: Þessi mynd David Fincher er eiginlega nýlegasta dæmið um verðug málefni sem komið er í kvikmynd en einhvern veginn misskilinn. Það var ótrúlegt hvað fólk var mismunandi í skoðun sinni á þessari frábæru satíru/gamanmynd. Já ég kalla hana gamanmynd því fyndnustu atriði myndarinnar voru slagsmálaatriðin. Ekki af því þau voru sóðaleg eða ógeðfelld heldur hugmyndafræðin á bak við þau. Menn að slást til að finna sjálfa sig eða finna fyrir því að þeir séu lifandi af því þeir brjóta bein eða missa tennur. Ótrúlegt að fólk hafi ekki séð kaldhæðnina í þessari mynd og fattað ”pointið” í henni. Það er einföld skilaboð í henni og það er grow up!. Allt í lagi hún er líka að segja það að efnishyggja sé að drepa okkur að innan en mér finnst það heldur auðveld lausn að henda öllu frá sér og tortíma sér. Við vorum einu sinni villimenn í hellum og það að snúa aftur í þá áttina er ekki þróun heldur uppgjöf. Myndin sló eiginlega í gegn hjá ungum mönnum sem litu vitlaust á þessa mynd, þetta er ekki kennskumyndband um það hvernig á að vera töff eins og Brad Pitt, heldur dýralífsþáttur um það hvað við grípum alltaf auðveldustu leið út úr vandræðum og hvað okkur vantar sífellt fyrirmyndir til að lifa. Ég sá viðtal við Fincher þar sem honum var sagt að sumt ungt fólk væri farið að stofna svona bardagaklúbba um allan heim og hann hristi hausinn og greip um hann og sagði ”þvílíkir hálfvitar Guð hjálpi okkur”.

NBK og JFK: Ég set þessar myndir saman því það er Oliver Stone sem leikstýrði þeim báðum. Stone er að mínu mati hugrakkasti leikstjóri bandaríkjamanna fyrr og síðar. Hann er ekki hræddur við að fjalla um viðkvæm málfefni bandaríkjamanna af því hann er af indíánaættum sjálfur og hikar ekki við að brenna á nokkrum erfiðum spurningum um amerísk samfélag. Í JFK setur hann upp misnákvæmar samsæriskenningar um morðið á John F. Kennedy og hefur hann verið gagnrýndur fyrir að krydda svolítið atburðarrásina þann 22 nóvember 1963 í Dallas, Texas. Undirritaður er sammála því að hann ýkir stundum í málflutningi sínum en það sem eftir liggur af rannsóknarnefnd morðsins, hin svokallað Warren-nefnd, var nógu grunsamleg til þess að réttlæta mynd um þetta mál og að valda fjaðrafoki og umræðu, síðan þarf fólk að gera upp huga sinn um það hvort þau kaupa það að Lee Harvey Oswald hafi verið morðingi Kennedy og þar með viðukenna að hin svokallaða ”töfrakúlukenning”, sem er vissulega raunveruleg, sé á rökum byggð. Natural Born Killers olli ekki minna fjaðrafoki þegar hún kom út og þurfti Stone að berjast fyrir því að fá að sýna hana, sumstaðar var hún fordæmd eða bönnuð. NBK er byggð á handriti Quentin Tarantino, sem hafði verið hafnað af öllum helstu kvikmyndaframleiðendum í Hollywood áður en Stone tók við því. Myndin fjallar um hálfgerða nútíma útgáfu af Bonnie og Clyde(sem var líka umdeild á sínum tíma) þar sem fjöldamorðingjaparið Mickey og Mallory, Woody Harrelson og Juliette Lewis, myrða nánast alla sem á vegi þeirra verða. Myndin er nokkuð skýr ádeila á ofbeldisdýrkun og sýnir hvernig ofbeldi getur verið aðalfæða fjölmiðla. Það er einnig mikið fjallað um hvernig fjöldamorðingjar eru gerðir að hálfgerðum rokkstjörnum af fjölmiðlum. Ég held að fleiri í bandaríkjunum geta nefnt fimm fjöldamorðingja heldur en fimm fyrrverandi forseta. Hratt klippt og hrá eins og sæmir æsandi sjónvarpsþáttum. Myndin var sökuð um að lofsama ofbeldi og það af fjölmiðlunum sjálfum, þeir sömu og sýna beinar útsendingar frá Írak-stríðinu allan sólarhringinn. Það er ótrúlega fyndið að sjá heimili Mallory í sit-com stíl þar sem dósahlátur er settur inn. Þetta er uppáhaldssenan mín þar sem Rodney Dangerfield leikur föður Mallory, sem greinilega misnotar hana og er allgjör viðbjóður og á meðan hann kallar hana hóru og þuklar á henni heyrist þessi dósahlátur. Stone er hér að gera stólpagrín að sit-com markaðinum þar sem pólítísk rétthugsun ræður ríkjum og allt er fullkomið. Snilldaratriði.


Ég verð eiginlega að koma með seinni hluta á þessari grein seinna því það er fullt af öðrum myndum sem ég á eftir að tala um en það verður að koma seinna. Ég nenni ekki meira í bili.


-cactuz