Nýverið var haldin hin árlega Myndbandahátíð á vegum Myndmarks sem er sameiginlegur vettvangur myndbandaleiga og myndbandaútgefenda. Þar voru að venju kynnt úrslit kosninga um hverjar teldust vera bestu myndir ársins í ýmsum flokkum. Einnig fengu bestu myndbandaleigurnar viðurkenningar, og tóku aðstandendur hátíðarinnar ákvörðun um hverjar þær skyldu verða. Og svona til gamans, þá telst Aðalvideoleigan Klapparstíg vera athyglisverðasta leiga landsins um þessar mundir en að rekstrinum stendur Þóroddur Stefánsson. Bónusvideó fékk viðurkenningu fyrir bestu markaðssetninguna, en maðurinn á bak við Bónusvideó heitir Þóroddur Stefánsson. Videohöllin Lágmúla ber titilinn Myndbandaleiga ársins, en þar ræður ríkjum maður að nafni Þóroddur Stefánsson. Til að toppa þetta allt saman þá er rétt að geta þess að sá sem er formaður stjórnar Myndmarks sem stóð fyrir öllu saman heitir reyndar líka Þóroddur Stefánsson. Svona eiga menn að klappa sér á bakið eða hvað finnst ykkur?