Equilibrium(2002) Þá er maður loksins búinn að sjá Equilibrium, ég hef beðið eftir henni í talsverðan tíma eins og eflaust margir aðrir. Ég verð nú bara að segja það að mér þykir það fáránlegt að þessi mynd sé ekki kominn í bíó hér á landi. Ég hafði passlegar væntingar þegar ég sá þessa á VCD en hún kom mér samt sem áður skemmtilega á óvart og leyfi ég mér að segja það að hún er verður örugglega valinn óvæntasta mynd ársins þegar hún kemur á video(vonandi).

Equilibrium fjallar um distópíusamfélag sem hefur sprottið upp eftir þriðju heimsstyrjöldina. Menn hafa gert sér grein fyrir því að sökudólgurinn fyrir öllum vandamálum heimsins er tilfinningar manna(t.d. hatur,reiði,öfundsýki og svo framvegis). Þá er komið upp samfélagi þar sem tilfinningar eru bannaðar og fólk tekur inn efnin librium og prozium til að bæla allar tilfinningar niður. Sá sem öllu ræður er kallaður Father og hann heldur uppi lögum og reglum með hjálp löggæslumanna. Virtustu löggæslumennirnir eru svokallaðir klerkar, sem eru gífurlega vel þjálfaðar hermenn(eða öllu heldur stríðsvélar). Klerkarnir iðka nýja tegund af bardagalist sem kallast Gun-Kata. Gun-Kata byggist í meginatriðum á því að reikna út hvaðan byssukúlur koma og hvar hagstæðast er að staðsetja sig til að forðast þær, hljómar fáránlegt en það er magnað þegar þeir sýna þessa hæfileika sína.

Christian Bale(American Psycho) leikur klerkinn John Preston, sem er hvað virtastur meðal klerkanna. Þegar hann óvart gleymir að taka inn lyfin sín fer hann að finna fyrir einhverju sem hann hefur ekki fundið í langan tíma, einhverskonar tilfinningar. Hann finnur fyrir samúð með þeim sem berjast gegn þessari fasistastjórn og fer að íhuga betur hver afstaða hans er varðandi þetta nýja fyirkomulag í samfélagi sínu. Myndin fær óneitanlega ýmsar pælingar lánaðar frá klassískum sci-fi bókmenntum eins og 1984 eftir Orwell,Brave New World eftir Aldous Huxley og Fahrenheit 451 eftir Ray Bradbury, það er ekki einu sinni reynt að leyna því. Söguþráðurinn er stundum svoldið hægur og dettur myndin stundum niður á köflum. Ég hélt að myndin ætti eftir að líða fyrir það að hún hafði lítið fjármagn en sú varð ekki raunin. Hún sleppur allveg ágætilega frá því að líta út fyrir að vera ódýr, það er vel leyst úr því. Hún hefur nokkuð hreinan stíl og kemur manni ágætlega inn í andrúmsloftið í samfélaginu.

Það sem heldur þó þessari mynd uppi eru ótrúlega flott slagsmála- og byssuatriði og þá meina ég ótrúlega flott. Þó það sé Matrix keimur af þeim flestum eru inn á milli frumleg atriði og þá aðallega þegar klerkarnir sýna færni sína í Gun-Kata. Christian Bale er virkilega svalur í þessu hlutverki og er miskunarlaus í bland við það sýna vel fram á hversu tilfinningalega bældur Preston er. Emily Watson er einnig ágæt í hlutverki sínu sem uppreisnarmaður og William Fichtner er ágætur ásamt Boromír sjálfum Sean Bean. Kurt Wimmer sem er leikstjóri og handritshöfundur er að leikstýra hér sinni fyrstu mynd og gerir það ágætlega, nema hvað að hann ræður ekki allveg við að halda hraðanum samkvæmum öllum þessum svakalegu slagsmálaatriðum. Wimmer þessi er hvað þekktastur fyrir að vera handritshöfundur og hefur hann skrifað m.a. Sphere og Thomas Crown Affair.

Þeir sem vilja djúpar samfélagslegar pælingar um framtíðina og áhugaverð samtöl ættu ekki að búast við miklu af þessari mynd en þeir sem vilja sjá nokkuð flotta hasarmynd með mögnuðum slagsmálaatriðum ættu að spenna beltin og kíkja á þessa mynd. Hún er vel þess virði. Hún fær 7.9 á imdb.com og það er nokkuð sanngjörn einkunn fyrir þessa mynd.

-cactuz