The Hard Way(1991) Ég tók þessa mynd á leigu nýlega. Ég hafði séð hana síðast fyrir mörgum árum síðan og hún var alltaf skemmtileg í minningunni. Hún stendur ennþá fyrir sínu á sinn hátt. Þetta er fínasta buddy-löggumynd.

Michael J. Fox, sem mér þykir vera mjög hæfileikaríkur grínleikari, leikur hér Hollywood-leikarann Nick Lang. Nick er orðinn þreyttur á því að leika löggur alltaf eins í myndum sínum og vill fá að kynnast alvöru löggu sem er harður í horn að taka. Hann uppgötvar lögreglumanninn John Moss(James Woods) sem er einn sá harðasti í bransanum og heimtar að fá að fylgjast með honum. Moss þessi hefur engan tíma til þess að passa upp á einhvern leikaraaumingja því hann er á kafi í morðmáli og einkalífið hjá honum er ekki beint að ganga upp heldur. Moss er að eltast við raðmorðingja sem kallar sig Partycrasher. Með pólítísku valdi fær Lang ósk sína uppfyllta en hann gerði sér ekki grein fyrir því hversu fúll John Moss getur orðið og þeir ná ekki að binda beint bræðraböndum frá fyrstu mínútu.

Fox er fullkominn í hlutverk Hollywood lúsersins og Woods fer á kostum sem hin pirraði lögreglumaðurinn John Moss og samleikur þeirra beggja heldur myndinni uppi. Það er líka gaman að sjá Delroy Lindo í hlutverki lögreglustjórans og Annabella Sciorra er ágæt í hlutverki kærustu Moss, meira að segja LL Cool J er allt í lagi í þessari mynd. Sá sem leikur partycrasher-inn er kannski veikasti hlekkur myndarinnar en þetta er samt sem áður fínasta skemmtun ala Lethal Weapon og mæli ég með því að fólk skoði þessa ef það er leita að saklausri afþreyingu.