Satt að segja bjóst ég aldrei við því að ég gæti gefið mynd eins og “The Legend of Baggar Vance” heilar 9 stjörnur af 10. Það er greinlegt að hvaðeina sem Matt nokkur Damon tekur sér fyrir hendur reynist vera afbragðsverkefni, fyrir utan að mér finnst Titan A.E. sem mér fannst heldur slöpp afþreying, samt sem áður láði hann aðalsöguhetjunni rödd sína með tilhrifum.

Aðalleikarar myndarinnar “The Legend of Baggar Vance” eru Matt Damon, Will Smith og Charlize Theron. Myndin gerist í Savannah, Georgíu í Bandaríkjunum á kreppuárunum og er myndinni lýst í þriðjupersónu frá augum ungs drengs á þeim tíma. Matt Damon leikur Rannulph Junuh sem er ungur og efnilegur golfleikmaður og hefur nýlega unnið hjarta Adele Invergordon, dóttur auðkýfings borgarinnar, sem leikin er af Charlize Theron. Rannulph sigrar hvert mótið á fætur öðru með þrumu “driverum” og er löngum vel talinn vera efnilegasti kylfingurinn þangað til að stríðið dynur yfir og hann telur það sitt sanna verk að leiða bræður sína gegn óvinunum í orrustu. Þegar stríðinu lýkur finnst Rannulph hvergi, kreppan brýst út og fyrirtæki leggjast af hvert á fætur öðru. Adele (Theron) erfir golfvöll föður síns eftir að hann fremur sjálfsmorð vegna skulda sinna í öngum sínum. Adele full hugrekkis hyggst halda golfmót þar sem Walter Hagan (Bruce McGill) og Bobby Jones (Joel Gretsch) munu leiða saman hesta sína. Borgin, hnuggin af brostnum vonum vill fremur selja golfvöllinn í hendur verksmiðjueiganda krefst þess að þeir munu ekki styðja við mótið nema sannur Savannahbúi muni leika gegn stórmeisturunum Hagan og Jones. Sögumaður myndarinnar stingur upp á að finna Rannuph Junah og gerir svo, en erfiðara reynist sú hugmynd vera en haldið var þar sem Rannuph er enn vankaður eftir stríðið og kærir sig um lítið annað en að spila póker og drekka sig fullan.

Drengurinn nær að koma viti fyrir Rannuph og hann kveðst ætla taka þátt í mótinu. Stuttu seinna kemur fram á sjónarsviðið blökkumaður nokkur heitir Baggar Vance (Will Smith) og óskar eftir því að fá að vera kylfusveinn Rannuphs og leiðbeinandi. Will Smith leikur af fágun í þessari mynd og sannar hér með að leiklistarhæfileikar sínir séu vanmetnir af dýrum hasarbrellumyndum eins og “Men In Black.”

Kvikmynd þessi er of góð til þess að ég fari að segja ykkur, kæru lesendur, nánar um söguþráð hennar, en þessi mynd einkennist af von og er eins konar “feelgood” mynd sem svo ánægjulegt er að upplifa í kvikmyndahúsi. Kvikmyndataka myndarinnar er með því flottasta sem ég hef séð lengi, einkennist af stílhreinum og fáguðum vinnubrögðum þar sem Robert Redford, leikstjóri myndarinnar, er einmitt þekktur fyrir. Valin eru fyrirmyndar landslög sem vermir hjörtu hvers og eins áhorfanda. Myndin streymir áfram sem stöðugt fljót, frábærir leikarar, sagan áhugaverð. Jafnvel þótt að myndin snúist um golf, þá eiga bíómyndir einmitt svo létt með að láta golf líta út fyrir að vera skemmtileg íþrótt. Mér þykir golf skemmtilegt, en aðeins til áhorfunar í bíómyndum sem slíkum.

Þessi kvikmynd fær einkunina 9 af 10 mögulegum og á það svo sannarlega skilið.

Góðar stundir.

ScOpE