Matt Damon veit ekki hver hann er The Bourne Identidy - 2002

Leikstjóri: Doug Liman
Handrit: Tony Gilroy e. skáldsögu Robert Ludman
Helstu hlutverk: Matt Damon, Franka Potente, Chris Cooper, Brian Cox

Hvað er betra til að ylja manni í leiðindunum heldur en formúlumynd að hætti Hollywood? Ég er þokkalega sáttur við verk Doug Liman, fannst Swingers nokkuð fín og Go í góðu lagi. Í The Bourne Identidy fæst Liman hins vegar við einhverja mest notuðu stofnun kvimyndasögunnar; CIA. Er það kapituli útaf fyrir sig að fara í þá sálma, en það koma þónokkrar CIA myndir út ár hvert. Það þýðir þó ekki að þetta sé eintóm tímasóun, því ég skemmti mér bara ágætlega yfir þessari mynd. Virkar stundum einum of róleg og langdregin, en ekkert alvarlegt á ferðinni.

Sjómenn við togveiðar sunnan af Frakklandi verða fyrir því láni að finna mann á reki í sjónum. Maðurinn er að sjálfsögðu tekinn um borð, og við nánari skoðun kemur í ljós að hann er með byssukúlur í bakinu og svissneskt bankanúmer í síðunni. Það sem verra er, maðurinn er með öllu minnislaus. Svona hefst myndin, og er Jason Bourne (Matt Damon) alveg grunlaus um hver hann er. Hann man ekkert, en samt kann hann hluti, eins og að tala frönsku, án þess þó að vita afhverju. Bourne bara kann þetta. Eftir að túrinn klárast og siglt er í land tekur Bourne stefnuna frá Marseille til Sviss, þar sem hann ætlar að ath með bankareikninginn sinn. Það gengur auðvitað ekki vandræðalaust fyrir sig, og brátt og brátt fara ýmsir hlutir að koma í ljós um fortíð Jason Bourne, og hver hann eiginlega er.

Þar sem Jason Bourne er búinn að sökkva sér í vandræði og er hundeltur í Sviss, fær hann Marie Kreutz (Franka Potente) til að keyra sér alla leið til París, en þar átti hann víst heima áður en hann lenti í hafinu. Að auki gerir CIA allt sem í valdi þeirra stendur til að hafa hendur í hári Jason Bourne, til að greiða yfir mistökin. Æsispennandi eltingaleikur og fer Conklin (Chris Cooper) þar fyrir hönd CIA.

Ég var mjög hrifinn af því að í myndinni er notast við gamla góða kýla-berja-slá, ekki dottið í Matrix allt í pásu gryfjuna. Fannst það gott mál. Leikararnir standa sig ágætlega, er mjög hrifinn af Franka Potente, þó hún verði sennilega aldrei eins góð og í Run Lola Run. Chris Cooper kemur vel út sem CIA maðurinn, Brian Cox er ágætur, en venjulegur samt, sem yfirmaðurinn. Matt Damon er bara hann sjálfur, í miðlungshlutverki, ekkert krefjandi verkefni.

Alltaf einhverjir fyrrverandi CIA menn á hlaupum, hefur alveg séð þennan hlaupa fyrr, en ef þú hefur ekkert skárra að gera og vilt ágætis skemmtun, þá er The Bourne Identidy ágæt í skammdeginu.

6/10