Að fara í bíó og The ring. Ég fer ekki oft í bíó, eiginlega bara sárasjaldan enda með hjálp netsins hægt að sjá flest allar myndir heima hjá sér og jafnvel áður en þær koma í kvikmyndahús (eins ólöglegt og það nú er). En þegar ég fer í bíó er það venjulega á myndir sem ég tel að 29.tommu sjónvarpið mitt ráði ekki við að skila til mín í réttum gæðum. Það eru ekki margar myndir sem hef hef haft þörf á að sjá í bíó, Lord of the ring er að sjálfsögðu samt ein af þeim og eins nokkrar aðrar stórmyndir. Svo eru einstaka spennumyndir sem ég hef viljað sjá í bíó til að geta virkilega notið tæknibrellana og spennunar.

En fyrir nokkru fór að birtast auglýsingar fyrir myndina The ring. Auglýsingarnar sýndu stráka jafnt sem stelpur í kvikmyndahúsi, pissandi í sig af hræðslu og svo viðtöl við þau þar sem þetta sama fólk talaði um hversu spennandi og rosaleg þessi mynd væri. Ég féll fyrir þessu og ákvað að drífa mig í bíó síðasta föstudagskvöld. Ég dreif kallinn á stað og stefnan var tekin á tíubíó í Sambíóum við Álfabakka og það er í raun hægt að segja að pirringur minn í sambandi við þessa bíóferð hafi byrjað áður en ég komst inn í sal.

Það var nefnilega ekki svo auðvelt að komast inn í blessaðan salinn því þrátt fyrir að ég hafi verið mætt kl.21.45 á mynd sem átti að byrja kl.22.15, þá var ekki hleypt inn í salinn fyrr en kl.22.13 eða heilum tveimur mínútum áður en myndin átti að byrja. Þarna stóð því ég ásamt gríðalegum fjölda af fólki samaþjappað eins og við værum að bíða eftir síðasta matarbitanum þessa vikuna en í raun biðum við bara eftir að ljóshærði ungi bossinn með talstöðina tæki ákvörðun um að það væri kominn tími á að leyfa okkur að setjast. Og loks þegar hann gaf grænt ljós, þá að sjálfsögðu eins og Íslendingum sæmir átti maður fótum sínum fjör að launa að troðast ekki undir sveittum og pirruðum bíógestum sem allir ætluðu að ná í bestu sætin.

En ok, ég komst loksins inn í salinn með marðar tær og svitalyktina af manninum fyrir framan mig læsta í minningunni þar til ég dey, og náði meira segja bara nokkuð góðum sætum eða það taldi ég að minnsta kosti. En það sem ég ekki vissi var að fyrir aftan mig sat heil röð af 12-14.ára stelpum (sem var talsvert einkennilegt miðað við að myndin á að vera bönnuð innan 16.ára) og alla helvítis myndina öskruðu þessar stelpupíkur eins og einhver hefði boðist til að borga þeirri sem öskraði mest milljón kall eða eitthvað álíka spennandi. Það mátti ekki opna hurð né glugga í blessaðri myndinni þá ráku þær upp gól sem hefði örugglega vakið upp dauða í kirkjugarði.

Ég hefði kannski ekkert pirrað mig svona rosalega á þessum öskuröpun fyrir aftan mig ef myndin hefði verið gríðalega spennandi eða skelfileg, sem hún því miður var ekki. Það komu tvö eða þrjú atriði sem venjulega fólkið í kringum mig kipptist við og ér sjálfri brá einu sinni eða tvisvar, en að eyða 800 kr við að sjá myndina í bíó er bara peningaeyðsla. Söguþráðurinn í myndinni er gríðalega augljós og alveg í þessum “hryllings” pakka og mér fannst þeim engan veginn takast að útskýra söguþráðinn þannig að hann gengi upp. Hver var t.d þessi vonda stelpa, hvaðan kom hún? Mér finnst eins og það hafi verið hoppað alfarið yfir þá staðreynt að sumu fólki nægir ekki að sjá leikara farðaða á sem versta máta, það gerir t.d ekkert fyrir mig að sjá viðbjóðslega ljótt fólk eða fólk sem er vel farðað og lítur út fyrir að hafa verið dáið í nokkra daga ef söguþráðurinn gengur ekki upp. (Enda er ég ekki 13.ára og ég geri mér það fullkomlega ljóst að þetta er bara leikið)

Versta við auglýsingaherferðina á þessari mynd er að mínu mati þegar er talað um að þetta sé arftaki The Sixth Sense, enda kom söguþráðurinn á þeirri mynd manni á óvart, ólíkt þessari gelgju vitleysis þvælu sem ég fór á. Í stuttu máli, ég var fyrir miklum vonbrigðum með Sambíó á föstudagskvöldið, mig langaði að myrða nokkrar gelgjur og að mínu mati er meira en nóg að sjá myndina The Ring á vídeó!

Kv. EstHer pirraða ;)

p.s strákurinn var samt ágætur og hann var það eina sem minnti mann á The Sixth Sense….
Kv. EstHer