One Hour Photo (2002) One Hour Photo - 2002

Leikstjóri: Mark Romanek
Handrit: Mark Romanek
Helstu hlutverk: Robin Williams, Connie Nielsen, Michael Vartan

Leikarar eiga það til að festast í ákveðnum hlutverkum. Yfirleitt vegna þess að þeir skila því vel frá sér, eða etv. vegna þess að þeir geta ekki betur. Robin Williams er einn þessara leikara, sem í fleiri fleiri ár hefur leikið hlutverk fyndna mannsins. En einhverra hluta vegna hefur Williams nú ákveðið að prufa leggja grínið á hilluna, og leika illmenni, og á einu ári birtist hann á skjánum í hlutverki tveggja illmenna. Sem Walter Finch í Insomnia, og Seymore “Sy” Parrish í One Hour Photo. Í bæði skiptin fannst mér takast ágætlega til.

Sy (Robin Williams) vinnur við að framkalla myndir í SavMart. Sem er ekki bara eins og hver önnur búðar vinna, heldur listgrein sem tekur fjölda ára að ná tökum á. Sy unir starfi sínu og nær sambandi við fólkið í bæjarfélaginu í gegnum það, í gegnum myndirnar þeirra. Því Sy er jú einfari. En það er ein fjölskylda í bænum sem Sy er hrifinn af, of hrifinn af. Það eru hjónin Nina (Connie Nielsen) og Will Yorkin (Michael Vartan), auk einkasonar þeirra Jakob (Dylan Smith). Við fylgjumst mjög náið með þeirri ofsaþráhyggju sem Sy er haldinn gagnvart Yorkin fjölskyldunni. Og eins og við öll vitum úr kvikmyndunum, þá leiðir þráhyggja einfarans aldrei neitt gott af sér, er það?

Romanek kemur hér með afar stílhreinan þriller. Flest allt gengur upp og leysast málin ekki uppí óþarfa vitleysu. Williams er að mínu mati sniðinn í þetta hlutverk og skilar því mjög vel af sér. Hann er trúverðugur einfari og geðsjúklingur, en er líka vina og sorglegur. Connie Nielsen er ágæt í sínu hlutverki, sem og Dylan Smith sem litli strákurinn, en Micheal Vartan þótti mér slappur. Sérstaklega í atriði þar sem Will er að skamma Nina eiginkonu sína fyrir að eyða of miklum peningum. Það var arfaslappt. Vandamálið er kannski það að þegar hefðinni er sagt stríð á hendur þá veit maður ekki alveg hvernig maður á að taka því. Romanek tekst það ágætlega og er þessi mynd alveg þess virði að sjá. Ekkert meistaraverk, en maður á þó eftir að fylgjast með því sem Romanek sendir frá sér í framtíðinni.

Vantar smá neista og aðeins meiri spennu.

7/10