Fróði og félagar eru komnir aftur! Miðmyndin í þríleik Tolkiens er loksins komin. Engum dylst sú velgengni og hylli sem fyrri myndin naut, enda ein lofaðasta mynd seinni ára. Aðsókn að myndinni var með ólíkindum og má segja að hvert mannsbarn á Íslandi þekki - og elski Hringadrottinssögu, a.m.k. fyrstu myndina. Því er eðlilegt að velta því fyrir sér hvort framhaldið standi undir þeim væntingum sem fyrsta myndin byggði upp. Svarið er einfalt: Já, og vel það!

Söguna þekkja margir, en hún er á þá leið að hetjurnar hafa tvístrast (lok fyrstu myndar). Frodo og Sam halda sína leið til Mordor til að eyðileggja hringinn, en fá nýjan ferðafélaga - Gollum. Aragorn, Gimli og Legolas snúast til hjálpar Rohan, þjóðflokki manna sem stendur frammi fyrir mikilli ógn. Á sama tíma sleppa Pippin og Merry undan Uruk-haiunum og lenda í eigin ævintýrum eins og Hobbitum er einum lagið og Gandalf snýr aftur öllum að óvörum. Her Saruman verður fullbúinn og ætlar sér að leggja hinn þekkta heim undir sig. Myndin er mun dekkri en fyrsta myndin.

Myndin er einar 179 mínútur, og sem slík er hún of löng - en um leið of stutt, því sagan er svo epísk og vel gerð að hún þolir fleiri mínútur, jafnvel krefst þeirra. Líkt og með fyrstu myndina er það eitthvað við þessa sögu sem beinlínis öskrar á meira, en þó er hún mun betur rammaðri en sú fyrri, þ.e. endirinn er mun þolanlegri en endir fyrri myndarinnar þar sem margir urðu reiðir yfir að hafa verið skildi eftir í lausu lofti.

Leikurinn er vægast sagt frábær. Elijah Wood er frábær Frodo Baggins, leikur hans sýnir vel þá innri baráttu sem hann á í, og hægt er að fylgjast með því hvernig hringurinn nær meiri og meiri tökum á honum. Mótleikari hans, Sean Astin, er ekki síðri sem Sam. Sagan kallar á mjög sterkan mótleik hvors annars og standa þeir fullkomnlega undir því. Sam er ekki síður mikilvæg persóna en Frodo, því án Sams myndi áhorfandinn ekki skynja hvað væri að gerast með Frodo eins vel og raunin er. Peter Jackson heldur þarna mjög vel um taumana. Ian McKellan sýndi það og sannaði í fyrstu myndinni að hann er Gandalf holdi klæddur og dylst það engum í þetta skiptið að svo sé. Sem Gandalf er hann um leið yfirþyrmandi persóna og vingjarnleg föðurímynd. Ekki væri hægt að ímynda sér betri Gandalf. Í The Two Towers fær persóna Aragorns, leikin af Viggo Mortensen, mjög mikið vægi og einbeitir Jackson sér töluvert að honum og persónu hans. Viggo Mortensen er mjög sannfærandi hetja og efast maður aldrei um Aragorn í gengum alla myndina, hérna er á ferðinni harðjaxl sem á eftir að bjarga málunum. Sérstaklega vil ég minnast á leik þeirra Orlando Bloom sem álfurinn Legolas og John Rhys-Davies sem dvergurinn Gimli. Hlutverk þeirra eru minni en hlutverk Mortensens, en þeir standa sig með prýði og gera eiginleika dverga og álfa að sínum. Aldrei efaðist ég um að hér væru dvergar og álfar á ferð. Að lokum er ekki hægt að komast hjá því að minnast örfáum orðum á Billy Boyd og Dominic Monaghan sem hobbitarnir Pippin og Merry. Þeir sýna skemmtilegan leik og ná að sýna anda og eðli hobbitanna, sem Wood og Astin hafa ekki tækifæri á að sýna sökum dimmleikans í kringum sögu þeirra.

Tæknileg hlið myndarinnar nálgast fullkomnun. Einhvers staðar situr George Lucas (Star Wars, o.fl.) í rökkvuðu sýningarherbergi og spyr sig “Hvað fór úrskeiðis” - því þar sem Lucas bjó til tilfinningalausar og kaldar brellur í þeim tilgangi að skemmta fólki sem hafði gaman að horfa á flöktandi myndir, bjó Jackson til raunverulegan heim fullan af áhugaverðu fólki þar sem sagan knýr brellurnar áfram en ekki öfugt. Middle Earth heimurinn er svo sannarlega til staðar og áhorfandinn efast aldrei um það sem er að gerast á tjaldinu. Eitt eftirminnilegasta atriði myndarinnar og jafnframt mest spennandi er áhlaup hers Sarumons á Helm's Deep. Hérna er komið bardagaatriði sem jafnast á við, ef fer ekki frammúr, bestu bardagaatriðum kvikmyndasögunnar! Herinn af Uruk-haiunum er ótrúlega vel gerður sem og öll tæknileg vinnsla við myndina.

Hér er á ferðinni stórkostleg kvikmyndaupplifun sem skilur áhorfandann eftir agndofa. Hreint út sagt frábær mynd. Þetta er mynd sem enginn má missa af.