Leikstjóri: Tommy Chong.
Handrit: Tommy Chong & Cheech Marin.
Leikarar: Tommy Chong, Cheech Marin, Roy Dotrice, Shelby Chong, Ricky Marin, Robbi Chong & Rae Dawn Chong.


Cheech & Chong eru nú orðnir vel þekktir fyrir vitleysu og asnarskap í myndum sínum og hafa unnið sér til frægðar í þeim geira með myndum eins og Up In Smoke(1978), Nice Dreams (1981) og Still Smokin’(1983).
Flestir muna eftir Cheech Marin sem hefur komið mun meira fram uppá síðkastið heldur en Tommy Chong. Cheech hefur m.a. leikið í From Dusk Till Dawn (1996) og the Great White Hype (1996).
Það sem einkennir þessa tvo er aulahúmor og söguþráður sem er meira og minna algjör vitleysa, þeir eru aulagrínpar sins tíma og ef eitthvað er miklu betri heldur nú tíma aula-húmors-grínmyndirnar.
Ég ákvað að kíkja á þessa mynd aftur því ég man að mér þótti hún ótrúlega skemmtileg þegar ég var lítill, oftar en ekki er það nú þannig að þegar maður sér myndir sem manni fannst æðislegar í æsku kemur það í ljós að þær eru alls ekki góðar.

The Corsican borthers fjallar um tvo ógæfubræður sem bera þá leiðinlegu bölvun að alltaf þegar annar þeirra meiðir sig, finnur hinn fyrir því. Fyrir þá sem náðu þessu ekki alveg það þýðir það að ef að bróðir 1 er laminn þá finnur bróðir 2 til.
Þetta hamlar þeim þó ekki mikið í lífinu og halda þeir saman á vit ævintýranna. Málið er það að annar bróðirinn sem er búinn að halda til í Mexico í u.þ.b. tuttugu ár kemur aftur heim til Frakklands þar sem hinn bróðirinn er búinn að vera að berjast í byltingunni.
Af einstakri ógæfu enda þeir tveir í höggstokknum en ná að vinna sér inn ást lýðsnins og þannig bjarga sér frá dauðanum.
Kóngurinn, erkióvinur þeirra og klæðskiptingur heldur þeim föngnum og reynir allt sem í hans valid stendur til að koma þeim fyrir kattarnef en allt kemur fyrir ekki.
Bræðurnir verða ástfangnir af dætrum kóngsins og ætla sér ekkert annað en að vinna hjörtu þeirra og frelsa Frakkland frá harðstjórn klæðskiptingsins.

Myndin ber það einkenni að verða frekar langdregin á milli þess sem eitthvað sniðugt gerist og oftar en ekki er það algjört rugl sem varla er hægt að brosa yfir. Inná milli leynast samt drepfyndin atriði sem gera myndina gjörsamlega þess virði að sjá.
Tónlistin er þó kannski það versta og liggur við að maður vilji heldur deyja en að heyra meira af þessu væli.
Leikararnir eru langt í frá sannfærandi en það skiptir litlu máli þegar um svona mynd er að ræða. Chong og Cheech eru samt bestir sem Corsican bræðurnir ásamt Roy Dotrice sem klæðskiptingakóngurinn.
Það hefði mátt reyna að lífga við þessum dauðu atriðum og þá hefði myndin verið nánast fullkomin þrátt fyrir lélega brandara inn á milli, en eru ekki allar grínmyndir þannig…? Það geta ekki allir hlegið af hverju sem er, sem betur fer.

**1/2