Mig langar að taka það fram að ég stend ekki á bak við þetta verkfall en ég er ekki alveg sammála því sem rekstaraðilar kvikmyndahúsa segja á mbl.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html ?nid=1016653

Þorvaldur Árnason, forstöðumaður kvikmyndadeildar hjá Sambíóunum segir:

Hann segir rétt að Bandaríkjadalur hafi lækkað mjög mikið upp á síðkastið og Sambíóin hafi fylgst með þeirri þróun, en ekki sé hægt að lækka verð fyrr en gengi Bandaríkjadals sé orðið stöðugt. Bendir Þorvaldur einnig á að myndir sem komi til sýninga í dag hafi verið keyptar fyrir um ári og þá hafi verið borgað inn á þær, einmitt þegar gengi Bandaríkjadals var enn mjög hátt.

Björn Sigurðsson, framkvæmdastjóri kvikmyndadeildar Norðurljósa segir:

Þegar miðaverð var síðast hækkað hafði það ekki hækkað í eitt og hálft ár, þrátt fyrir að dollarinn hafi farið upp um 30% á því tímabili. Síðan hafi orðið miklar kostnaðar- og launahækkanir þannig að miðaverð sé ekki óeðlilegt í dag.

Mér finnst áhugavert það sem Þorvaldur segir, að myndir sem eru að koma til sýninga í dag hafi verið keyptar fyrir ári. Ég man ekki betur en að miðaverðið hafi hækkað í 800 kr. í byrjun árs 2001 og var gengi bandaríkjadollara þá u.þ.b. 85 krónur og fór hækkandi þegar að leið á árið. En í byrjun árs 2000 var gengið um 70 kr. og var búið að vera það allt frá árinu 1997.

Ef gengið er út frá þessu hefði hækkunin ekki átt að verða fyrr en ári eftir að gengi dollarans var svona hátt en þeir voru ekki lengi að hækka verðið og notuðu gengi dollarans sem skýringu.

Gengi dollarans var um 70 kr. á tímabilinu janúar 1997 til apríl 2000 en samt hækkaði verð á miðanumn um tæp 10% á milli ára á þessu tímabili en verðbólga var 2% - 5% og að meðaltali 3%

Það lítur út fyrir að rök forstöðumanna kvikmyndahúsa séu ekki alveg í lagi, eiginlega eru þeir að skjóta sig í fótinn. Ég er viss um að hagnaður kvikmyndahúsa hefur aldrei verið meiri og í dag en ég get ekki fullyrt það, þar sem að ég hef engar upplýsingar um það.

Ég er allavegana ekki sannfærðu og ætla að taka þátt í þessu verkfalli, enda verður það ekki erfitt þar sem að ég fer sjaldnar og sjaldnar í bíó sökum miðaverðs.