Þessi magnaða mynd er fyrsta mynd leikstjórans og handritshöfundarins Tonys Kaye og fékk frábæra dóma gagnrýnenda. Með aðalhlutverkið fer Edward Norton sem sýnir svo sannarlega hvað í honum býr og var útnefndur til Óskarsverðlauna árið 1999 sem besti leikari í aðalhlutverki. Víst er að hann hefði verið vel að þeirri viðurkenningu kominn.Myndin gerist í Venice í Kaliforníu. Derek (Norton) og Danny (Furlong) Vinyard eru bræður sem búa ásamt móður sinni og systur við fremur kröpp kjör eftir að faðir þeirra sem var slökkviliðsmaður er myrtur. Sá sem myrti hann var blökkumaður og sú staðreynd ásamt kynþáttafordómum sem faðir þeirra hafði látið í ljósi á heimilinu hefur gert það að verkum að þeim bræðrum er í nöp við blökkufólk. Þegar Derek kynnist síðan nýnasistaleiðtoganum Cameron Alexander (Keach) verður hann hugfanginn af kenningum hans um hinn hreina kynstofn og hvernig aðrir kynþættir hafi með illum brögðum tekið undir sig umráðasvæði sem í raun hafi tilheyrt hvítu fólki. Fleiri falla fyrir kenningum Alexanders og innan skamms er Alexander búinn að kom sér upp hópi uppreisnargjarnra unglinga sem eru tilbúnir að taka þátt í voðaverkum til að fylgja málstaðnum eftir. Að því kemur að Derek fremur hrottalegt hefndarmorð á ungum svörtum manni sem reynt hafði að stela bíl hans og er dæmdur til fangelsisvistar fyrir vikið. Í fangelsinu opnast augu hans fyrir því sem hann hefur gert og á þremur árum er hann orðinn gjörbreyttur maður með algjöra skömm á sínum fyrri gjörðum. Þegar hann er síðan látinn laus kemst það eitt að í huga hans að sameina sundraða fjölskyldu sína á ný og bjarga yngri bróður sínum frá því að lenda í því sama og hann er nýkominn upp úr sjálfur.
Afar kraft- og áhrifamikil mynd sem allir ættu að sjá.
“Thierry Henry er eins og vel slípaður sportbíll” - Hemmi Gunn, Arsenal vs. Juventus ‘05 -’06