The Lord of the Rings: The Two Towers Núna þegar margir landsmenn hafa séð þessa stórmynd finnst mér ágætt að hefja aðra umræðu en umræðurnar sem snerust aðeins í kringum þessar forsýningar fyrir jól.

Þá er ég loksins búinn að sjá annan hlutann í mestu kvikmyndatrilogíu allra tíma en ég ætla ólíkt öðrum ekki að kvarta undan óþægindum eða slíku, því það var ekki við neinu að kvarta. Ekki get ég sagt að þessi hluti, The Two Towers, sé síðri eða betri en fyrsti hlutinn, Fellowship of the Ring, því þær eru hálfólíkar á sinn hátt. Fyrsta myndin var meira um tilfinningar, persónusköpun og mikil drama í gangi. Two Towers er hins vegar meira sem stríðsmynd þótt það vanti ekkert alveg upp á hitt. Ef ég ætti samt að neyðast til að velja hvor myndin mér fannst betri þá held ég að ég verði að velja fyrstu, hún situr einhvern veginn betur í mér. En ekki misskilja mig, Two Towers er meistaraverk á alla kanta en þó sérstaklega varðandi tölvutækni.

The Two Towers skiptist í þrjá hluta eins og flestir vita. Einn hlutinn er um Aragorn, Legolas og Gimli, annar hlutinn um Hobbitana Merrin og Pippin og síðasti hlutinn um Frodo, Sam og Gollum. Frodo og Sam halda áfram ferð sinni að Dómsdyngju til að eyða Hringnum en á leiðinni slæst í för með þeim Gollum. Merrin og Pippin eru fangar Orkanna sem við kynntumst í endann á fyrstu myndinni en seinna meir hitta þeir furðulegri verur, Enturnar, lifandi tré. Síðast en ekki síst eru það Aragorn, Legolas og Gimli sem eiga mestan þátt í myndinni og eru þeir m.a. í stærsta atriði myndarinnar, orrustuna um Helm’s Deep. Svo að lokum, eins og allir vita, þá Gandalfur snýr aftur öflugri sem áður.

Þessi mynd hefur hvorki byrjun né enda og þess vegna verður maður nauðsynlega að vera búinn að sjá hina áður, enda er Peter Jackson ekkert að gefa þeim sem ekki hefur gert það neinn séns. Það sem gerir þessa mynd kannski skemmtilegri er að það eru færri langir og rólegir hlutar í henni, eins og var nokkuð mikið af í fyrstu myndinni, en nauðsynlegir kaflar þó. Í Two Towers fáum við tvö góð orrustuatriði, hitt er reyndar mikið mikið stærra en hitt. Þannig að ég tel að þeir sem höfðu lítið gaman af fyrstu muni hafa meira gaman af Two Towers.

Það er ótrúlegt hvað WETA, tölvubrellustúdíó Peter Jacksons, hefur tekist að gera í þessari mynd, þeim hefur tekist að búa til eina fullkomnustu tölvugerðu persónu sem sést hefur, þó með mikilli hjálp frá Andy Serkis, túlkanda Gollums. Hvert einasta smáatriði í þessari veru er raunverulegt, á köflum átti ég erfitt með að sjá hvort Gollum væri tölvugerður eða raunverulegur. Þannig eiga tæknibrellur að vera. Samt tel ég að Gollum hefði verið talsvert minna áhugaverðri ef Andy Serkis hefði ekki ljáð honum rödd sína. Ótrúlegt hvernig þessi maður talar fyrir hann og ekki aðeins talaði hann fyrir hann heldur eru allar hreyfingar Gollums byggðar á Andy. Það er talað um að veita Gollum/Andy Serkis Óskarsverðlaunatilnefningu, það yrði þá í fyrsta sinn í sögunni sem það gerðist. Ég hef ekki hugmynd hvort það muni gerast en það yrði fyndið ef það myndi gerast.

Þá kemur að stærsta atriði myndarinnar. Þið sem hafið séð myndina vitið hvað ég er að meina, þið hin líka. Ég er að tala um Helm’s Deep. Allra stærsta orrustuatriði sem nokkurn tímann hefur verið fest á filmu. Ótrúlega vel gert í alla staði, kvikmyndatakan, atburðarásin og tæknibrellurnar, þetta er allt stórkostlega vel gert. Maður getur ekki annað en hrósað Jackson fyrir svona meistaraverk. Viggo Mortensen, Orlando Bloom og John Rhys-Davis ásamt öllum áhættuleikurunum þurftu að hanga á þessum blauta, kalda, ógeðslega stað í fjóra mánuði samfellt að taka upp þetta atriði. Stanslausar tökur. Kannski ekki nema von af hverju þetta atriði varð svona ótrúlegt.

Reyndar ef ég hugsa um það þá held ég að það sé ekkert hægt að vera bera þessar myndir saman. Þessar þrjár eru allar ein kvikmynd. Þetta væri kannski svipað og að vera bera saman byrjun, miðju og endi á einni mynd, sem er fáránlegt. Myndin er ekki búin! Maður getur allavega sagt að Lord of the Rings ‘myndin’ hafi byrjað mjög vel og þegar líður á myndina verður hún enþá meira spennandi og ætli hún muni ekki á ógleymanlegan hátt.