Alan Smithee, leikstjórinn sem Hollywood elskar! Fáir leikstjórar hafa fengið jafn miklar skammir og svívirðingar fyrir “meistaraverk” sín eins og Allen Smithee, enda er ástæða til. Myndirnar sem hann gerir eru lélegar og ekki á góðan hátt. Hann er einskonar Ed Wood síns tíma en mun án efa aldrei fá eins fjölmennan hóp aðdáenda, enda höfðu myndirnar hans Ed Woods sérstakan sjarma sem var að finna í öllum hans myndum. Myndirnar hans Allens eru út og suður og mætti halda að það væri aldrei sami leikstjórinn sem leikstýrði þeim!

Hann fæddist í Hollywood árið 1967, sama ár gerði hann myndina “Death of a Gunfighter” en hún var ekki gefin út fyrr en 1969 vegna hinna ýmsu vandamála sem komu upp. Talið er reyndar að hann hafi gert Burt Reynolds sjónvarpsmyndina “Fade-In (1968)” áður og enn aðrir telja að hann hafi gert Angela Lansbury sjónvarpsmyndina “Indiscreet Mrs. Jarvis, The (1955)” fyrst, sem merkir að hann er fyrsti, eða einn af mjög fáum, leikstjórum sem hefur leikstýrt mynd löngu áður en hann fæddist!

Allen hefur aldrei fengið mikið rými út á hvað hann gerir í Hollywood, samtökin “The Directors Guild of America” hafa aðeins leift honum að koma nálægt kvikmyndum sem aðrir leikstjórar hafa gefist upp á og vilja ekki láta bendla við sig. Ef að framleiðendur mynda hafa tekið yfir og eru farnir að klippa allt til og skemma það sem leikstjórinn hafði í huga þá fara leikstjórarnir bara til “DGA” og Allen er sendur á svæðið. Þá má líkja honum við persónuna sem Harvey Keitel lék í “Pulp Fiction”, á fleiri en einn máta.

Augljóst er að Allen Smithee fæddist ekki sem Allen Smithee, enda er svo Guðslegt nafn ekki venjubundið. Margir hafa sagt að nafnið sé í raun “anagram” (orð myndað úr stöfum annars orðs) úr “The Alias Men” eða ”dulnefna mennirnir” en vitrir menn segja að Allen hafi fengið sérfræðinga til þess að búa til nafn sem enginn annar hafði. Fyrst var það Alan Smith, svo Alan Smithe, en loks var bætt við e-um, svona til þess að vera alveg viss og útkoman varð “Allen Smithee”. Enginn veit raunverulegt nafn hans.

Augljóst er að Allen sé “one of a kind” í Hollywood en hann á samt nokkra ættinga og vini sem stunda svipuð störf. Þar af frægustu George Spelvin, Georgina Spelvin og Anonymous.

Meðal þeirra mynda sem Allen hefur gert eru: “Zombi de Cap-Rouge, Le (1997)”,
“Alan Smithee Film: Burn Hollywood Burn, An (1997)”, “Hellraiser: Bloodline (1996)”, “Senior Trip (1995)”, O.J. Simpson Story, The (1995)”, “Birds II: Land's End, The (1994)”, “Bloodsucking Pharaohs in Pittsburgh (1991)”, “Shrimp on the Barbie, The (1990)”.

Einnig gerði hann “MacGyver” myndina og leikstýrði nokkrum þáttum úr þeirri frábæru seríu sem fylgdi henni!