The Lord of the Rings: The Two Towers SPOILERAR.

Nú er maður loksins búinn að sjá myndina sem allir eru að bíða eftir og það er ekki nema furða að maður spyrji sig hver sé betri, FOTR eða TTT. Ef ég segi það satt þá hreinlega veit ég það ekki. Báðar myndir eru mjög frábrugðnar og í rauninni er ekki hægt að bera þær tvær saman. FOTR hafði meiri fantasíu fíling í henni en TTT hefur aðeins raunverulegri blæ ( ef ég get orðað það þannig ) og er í senn myrkrari og ofbeldisfullri. Það sem FOTR hefur þó framfyrir TTT er það að hún er tilfinningarríkari og mannlegri. TTT er ein stór stríðsmynd sem byggist mjög lítið á karakterum og virkar frekar “köld” á köflum. Ég er þó ekki að segja að TTT sé lélegri heldur er hún bara allt öðruvísi heldur en FOTR.

Hún hefur enga byrjun né enda heldur er okkur strax dempt inn í hasarinn. Þar liggur helsti galli TTT. Þegar það er engin byrjun er mjög erfitt að komast almennilega inn í hana ( ég komst t.d. ekki almennilega inn í hana fyrr en eftir u.þ.b. 40 - 50 min ). Við fáum aldrei almennilega að kynnast karakterunum, en kannski er það ekki beint réttlátt að biðja um það enda hafa nú vonandi flestir sem sjá TTT séð FOTR áður. En þrátt fyrir það að við höfðum kynnst öllum karakterunum áður í FOTR virkar það hreinlega ekki að byrja mynd án neinnar kynningar. Ef Peter Jackson hefði t.d. sleppt atriðinu með Balroggnum í byrjun myndarinnar og í staðinn gefið okkur smá tíma með Sam og Frodo áður en þeir hitta Gollum í byrjun hefði þetta sloppið en því miður gerði hann það ekki svo að við ( eða kannski ég ) verðum bara að sætta okkur við það.

Þrátt fyrir lélega byrjun tekur myndin fljótt miklum hamskiptum og breytist í einhverja rosalegustu hasar/ævintýramynd sem ég hef nokkurn tíman séð. Atriði á borð við Helms Deep, “Hitler atriði” Sarumans, myrkrarhliðið og svo loks árás entanna á Isengard ( besta atriði sem sést hefur í kvikmynd síðan ég veit ekki hvenær ) eiga sér enga líka og gera myndina að einhverri ánægulegustu stund ársins!

Frammistöður leikaranna eru flestar frábærar. Viggo Mortensen fær stærsta hlutverk myndarinnar og er mun betri heldur en hann var í FOTR. Ian McKellen er mjög lítið í myndinni en stendur sig þó mjög vel, en ég verð þó að viðurkenna að mér fannst hann meira “sjarmerandi” í fyrstu myndinni. John Rhys Davies fær mun meira að gera hér heldur en í FOTR ( er í hálfgerðu “grínhluverki” ) og er að mínu mati einn af skemmtilegustu karakterum myndarinnar. Bernard Hill er ekki síðri en hinir, Christopher Lee fær mjög takmarkað og lítið hlutverk ( eins og Ian McKellen ) þannig að ég get ekki sagt mikið um frammistöðu hans. Hobbitarnir tveir, Merry og Pippin eru hér í mun alvarlegri hlutverkum heldur en þeir voru í FOTR en mér fannst Billy Boyd og Dominic Monaghan ekki vera beint mjög sannfærandi ( þeir virkuðu betur í FOTR ). Miranda Otto er svo sem fín en Liv Tyler var ekki beint að virka ( enda voru öll atriðin hennar mjög yfirborðskennd og bara hreint útsagt hálf vandræðaleg ). Orlando Bloom hefði heldur betur mátt halda sig við hasaratriðin ( atriðin þar sem hann segir eitthvað eru hlægileg ) og Hugo Weaving nær engu sambandi við áhorfendur( hann nær aldrei þessum “Agent Smith keim” af sér ).

Elijah Wood og Sean Astin voru mjög góðir en það var alveg absúrd hversu lítið þeir voru í myndinni. Ég varð fyrir mjög miklum vonbrigðum yfir því hversu mikið Peter Jackson fókuseraði á Aragorn söguna í myndinni þegar Sam/Frodo/Gollum sagan var að mínu mati mun áhugaverðari. Hann hefði t.d. getað sýnt okkur meira frá þeim áhrifum sem hringurinn hefur á Frodo, meira af Gollum ( hefði hann tekið sér meiri tíma í að gera Gollum að alvarlegri karakter hefði hér verið á ferðinni óskarsverðlaunahafi ) og einnig hefði hann bara yfir höfuð getað fókuserað meira á Sam/Frodo/Gollum söguna ( það mun líklega koma mörgum á óvart hversu lítið þeir eru í myndinni ).

Tæknibrellurnar er furðugóðar og hafa tekið miklum framförum frá því í síðustu mynd. Þar ber fyrst að nefna Gollum sem ég hreinlega gapti yfir í hvert sinn sem ég sá hann. Raddsetning Andy Serkis var frábær en ég tel þó ómögulegt að hann verði tilnefndur til óskarsverðlauna. Margir urðu fyrir vonbrigðum með Vargana ( er þetta rétta orðið? ) og sögðu að þeir væru gervilegir. En ég get hreinlega ekki skilið þetta fólk því að atriðið með þeim var að mínu mati með bestu atriðum myndarinnar ( atriðið með þeim fór að minna á Jurassic Park ). Steintröllin við myrkrarhliðið voru ótrúlega flott, sem og myrkrarhliðið sjálft. Balroggurinn í byrjun myndarinnar var nokkuð flottur ( reyndar höfum við öll séð hann úr fyrri myndinni ) en mér fannst byrjunaratriðið með honum og Gandalf vera frekar “lélegt” ( ok, kannski ekki lélegt en þetta var ekki góð byrjun - ég hefði frekar viljað sjá allt atriðið þegar Aragorn og co. hittu Gandalf ).

Margir hafa velt því fyrir sér hvort TTT muni komast í feitt á næstu óskarsverðlaunum og verð ég að vera sammála því að myndin eigi skilið óskarsverðlaunin fyrir bestu mynd og besta leikstjóra en ég er þó ansi hræddur um að hún vinni það ekki enda þarf hún að berjast við “óskarsvænni” myndir á borð við The Pianist, Chicago, Antwone Fisher, Gangs of New York, Far From Heaven, The Quiet American o.fl. Ég tel það þó öruggt að myndin muni vinna óskarsverðlaun fyrir tæknibrellur, hljóð og önnur álíka verðlaun.


Þrátt fyrir að The Lord of the Rings: The Two Towers sé ekki gallalaus veldur hún alls engum vonbrigðum. Myndin er epískari og flottari en fjandinn og gerir FOTR hlægilega litla í samanburði. Hún er í senn frábær skemmtun og án efa lang besta mynd ársins!

****/****