Ég sendi inn könnun fyrir nokkrum dögum síðan þar sem ég spurði hverja af eftirfarandi myndum þið hlakkið mest til þess að sjá. Flestir völdu Matrix 2 en næstflestir völdu Lord Of The Rings sem kom mér á óvart því ég hélt að fleiri biðu spenntir eftir næstu Star Wars mynd. Þar sem Lord Of The Rings trílógían er mér mjög kær ákvað ég að skrifa grein um þessar 3 myndir(byggðar á sögunni) sem væntanlegar eru jólin 2001,2002 og 2003. Lord Of The Rings Eða Hringadróttinssaga er sennilega frægasta fantasy saga sem skrifuð hefur verið.Hún kom út á árunum 1954-55 í þremur stórum bindum og er eftir J.R.R. Tolkien en hann lést árið 1973. Sagan hefur nú selst í 60 milljónum eintaka og verið þýdd á um 30 tungumál. Í stuttu máli fjallar sagan um hobbita(lítil vera sem er á stærð við dverg) Fróða að nafni sem þarf að takast á hendur hættulega för inn í land myrkradróttins til að eyða töfrahring einum í eldfjallinu Dómsdyngju. Á leið sinni lendir hann oft í miklum háska en fær aðstoð frá ýmsum vinum svo sem vitringnum Gandalfi,álfinum Legolas,dvergnum Gimla,manninum Aragorn og síðast en ekki síst hinum þrem hobbitavinum sínum Sóma,Káti og Pípni. Tolkien skapaði í raun heilan heim sem á sér mörg þúsund ára sögu og kallast Miðgarður. Nokkur önnur rit eftir Tolkien fjalla um þennan heim og má helst nefna Silmerlasögu. Margt fólk hefur fengið innblástur úr sögunni og má nefna að bæði Stanley Kubrick og bítlarnir veltu fyrir sér að gera bíómynd eftir Hringadróttinssögu en hættu við vegna umfangs sögunnar og frumstæðrar kvikmyndatækni.
Nú á tímum nútíma tölvutækni er verið að gera 3 bíómyndir byggðar á sögunni. Leikstjóri er Peter Jackson en hann er frægastur fyrir myndirnar Braindead,Bad Taste og svo Heavenly Creatures sem tilnefnd var til óskarsverðlauna 1994. Upphaflegur kostnaður myndanna var áætlaður 130 milljónir dollara en samkvæmt nýjustu fréttum er hann kominn upp í 270 milljónir. Tökur hófust 9 október 1999 og er áætlað að þeim ljúki 22 desember árið 2000. Að tökum loknum hefst mikil tölvutæknivinna og er áætlað að fyrsta myndin verði frumsýnd um allan heim á tímabilinu 14-25 desember árið 2001. Með helstu hlutverk fara : Elijah Wood(Fróði),Ian McKellen(Gandalfur),Cristopher Lee(Saruman),Cate Blanchett(Galadríel) og Viggo Mortensen(Aragorn). Það er fyrirtækið New Line Cinema sem fjármagnar myndirnar og vona menn þar á bæ að þær bjargi fjárhagnum eftir nokkrar myndir sem hafa komið illa út fjárhagslega(Little Nicky,The Cell). Myndirnar eru teknar upp á Nýja Sjálandi og sér brellufyrirtækið Weta Digital um brellurnar en það fyrirtæki gerði meðal annars tölvubrellurnar í myndinni Contact. Margar verur og skrýmsli verða CG og verður notað motion capture til að gera hreyfingar eðlilegar. Einnig hefur Weta þróað forrit er ræður við bardaga með allt að 200 þúsund þáttakendum. Peter Jackson hefur lofað stærstu bardögum kvikmyndasögunnar í þessum myndum þar sem taka þátt orkar,álfar,menn,ýmis skrýmsli og hobbitar. Mikill áhugi er fyrir myndunum því meira en milljón manns sóttu sér fan trailer á netinu á einum sólarhring en hann kom út 7 apríl 2000(heimsmet). Von er á nýjum trailer einhverntíman núna í desember.Jæja , þetta er orðið allt of langt hjá mér svo ég segi þetta bara gott. Ég gæti þó haldið endalaust áfram vegna áhuga míns á þessum myndum.