AFTUR fá Rauðu djöflarnir heimaleik á móti liði sem þurfti að spila
framlengdan bikarleik á meðan þeir sjálfir fengu hvíld. Um síðustu helgi var það Liverpool og næst verður það Ipswich. Ég vona að þeir rauðu tapi. Ekki vegna þess að það skipti svo miklu máli, heldur til að sjá viðbrögð “rauðu hundanna”.
Ég veit ekki af hverju, en einhvern veginn ósjálfrátt kalla ég íslenska stuðningsmenn ManUre “rauðu hundana” í huganum. Ekki upphátt, bara í huganum.
Þetta á alls ekki að vera fyndið og þaðan af síður kvikindislegt, enda líkar mér vel við þá marga. Þetta er bara svona. Eftir viðbrögð rauðu hundanna um síðustu
helgi er ekki annað hægt en að hugsa pínulítið upphátt.

Old Turfford: ManUre - Liverpool 0:1
Sáu ekki allir þennan leik? ManUre voru með Úle Stormsker einan frammi, Púllarar pökkuðu á miðjuna og vörðust skipulega. Leikurinn varð aldrei mjög rismikill.
ManUre átti einn skalla í fyrri hálfleik og tvö skot í seinni, en EKKERT afgerandi færi. Púllarar áttu betri færi, eitt skot í slá og einu sinni bjargað á línu plús tvö þrjú hálffæri. Það þurfti beina aukaspyrnu til að skora.
Úrslitin voru sanngjörn.

Eftir leikinn urðu nokkrir rauðir hundar á vegi mínum. Þeir voru fúlir yfir getuleysi sinna manna og viðurkenndu að ManUre hefði ekki átt skiliði að skora.
Sanngjörn úrslit. Þeir höfðu í raun ekkert um leikinn að segja annað en hvað þeim fannst fúlt að tapa fyrir Liverpool. En daginn eftir breyttist allt.
Hvers vegna?

Jú, skoska fyllibyttan hann Sör Alex fór að væla eins og venjulega. Eins og svo oft áður var tapið einhverju öðru að kenna en eigin vanmætti. Nú var það dómarinn sem var á móti þeim, af því að hann er frá Leeds. Hann eyðilagði allt.
Viðtalið á Sky var kostulegt “hann flautaði oft í byrjun leiks og stoppaði leikinn, það hentar okkur illa, þá gengur okkur ekki vel að ná takti í leikinn”
sagði sá rauðnefjaði. Kræsst!! Á dómarinn sem sagt ekki að dæma á brot fyrstu 15 mínúturnar svo ManUre nái takti? Svo bætti Sör Alex við um rauða spjaldið:
“Hann gat ekki beðið eftir að reka strákinn útaf. Hann var aðeins inná í smá stund og dómarinn var ánægður þegar hann dró upp rauða spjaldið. Skýringin eru Leeds-rætur dómarans” sagði sá skoski. Djísöss kræsssst. Að láta svona út úr sér.

Sör Alex dettur ekki í hug að hrósa Liverpool fyrir vel skipulagðan leik, góða
baráttu og sanngjarnan sigur. Ó, nei. Því síður að gefa Houllier plús fyrir fína
heimavinnu. Þetta er allt helvítis dómaranum að kenna, af því að hann er frá Leeds. Þetta með rauða spjaldið hefur greinilega ekkert með það að gera að Chadwick (eða hvað hann heitir) hékk í Púllaranum 40 metra eða svo, var síðasti varnamaður, rændi hann færi og átti að fá rautt - samkvæmt reglunum. Kannski of
bókstafstrúarlegt að einhverra mati, en samt samkvæmt reglunum. Þó Smicer hafi togað á móti síðustu metrana breytir það ekki brotinu. Nei, þetta hefur ekkert með reglurnar að gera heldur vegna þess að dómarinn er frá Leeds. Eða svo segir skoska fyllibyttan Sör Alex. Paþþettikk.

En svona er Ferguson. Innst inni hefur maður gaman af því þegar hann fer að væla. Þess vegna vona ég að Ipswich vinni um helgina.

En aftur að rauðu hundunum: Eftir að Sör Alex hafði ausið úr brunni visku sinnar uppgötvuðu rauðu hudnarnir skyndilega skýringarnar á tapinu. Daginn eftir höfðu þeir allir breyst í upptrekktar skoskar fyllibyttur með sömu frasana. Hver á
eftir öðrum. “Þessi helvítis dómari” sagði einn, “hann er algjör United hatari” sagði annar “þetta er sá sami og rak Keane útaf” sagði enn einn og “þetta var sko ekki rautt” sögðu svo allir í kór. Eins og rauða spjaldið hafi breytt gangi leiksins. Makalaus umskipti á innan við sólarhring. Á maður að vorkenna rauðu
hundunum eða bara hafa gaman af þessu?

Kannski verða menn svona af því að tapa nánast aldrei. Fara nett úr
sambandi þegar ekki tapast heimaleikur nema á tveggja ára fresti.