Gleymt lykilorð
Nýskráning
Kettir

Kettir

5.917 eru með Kettir sem áhugamál
24.926 stig
809 greinar
1.538 þræðir
33 tilkynningar
12 pistlar
1.505 myndir
709 kannanir
19.445 álit
Meira

Ofurhugar

hulda hulda 1.398 stig
lakkris lakkris 1.122 stig
icecat icecat 784 stig
kisakis kisakis 488 stig
girlygirl girlygirl 338 stig
eessess eessess 230 stig
heidur2 heidur2 230 stig

Stjórnendur

Samþykkt um kattahald í Reykjavík

1. gr. Kattahald í Reykjavík sætir eftirfarandi takmörkunum. Samkvæmt lögum um dýravernd nr. 15/1994 fer Umhverfisstofnun með mál er varða dýravernd.

2. gr. Stjórnsýsla.
Umhverfissvið Reykjavíkurborgar ber að sjá um að framfylgt sé ákvæðum samþykktar þessarar í umboði heilbrigðisnefndar Reykjavíkurborgar.
Öllum ákvörðunum sem umhverfissvið tekur á grundvelli samþykktar þessarar má skjóta til heilbrigðisnefndar til úrskurðar. Málskotsrétt eiga þeir sem hafa lögvarinna hagsmuna að gæta vegna þeirrar ákvörðunar og aðgerða sem um ræðir.

3. gr.
Merking katta.
Allir kettir eldri en fjögurra mánaða skulu örmerktir af dýralækni skv. stöðlum Alþjóða staðlaráðsins (ISO 11784 eða 11785). Eigendur katta skulu strax að lokinni örmerkingu katta koma upplýsingum um númer örmerkis og nafn og kennitölu eigenda til umhverfissviðs Reykjavíkurborgar sem heldur skrá um örmerkta ketti í Reykjavík. Kettir skulu einnig bera hálsól með upplýsingum um heimilisfang eiganda og símanúmer.

4. gr.
Gelding fresskatta.
Gelda skal alla fressketti sex mánaða og eldri sem ganga lausir utandyra.

5. gr.
Ormahreinsun.
Eiganda eða umráðamanni kattar er skylt að láta ormahreinsa kött sinn árlega frá fjögurra mánaða aldri. Til ormahreinsunar katta gegn spóluormum skal nota ormalyf sem Lyfjastofnun hefur viðurkennt til þeirra nota.
Eigandi eða umráðamaður skal geyma hreinsunarvottorð í þrjú ár og framvísa því við eftirlitsaðila ef óskað er.

6. gr.
Kattahald í fjöleignarhúsum.
Um kattahald í fjöleignarhúsum fer að 13. tl. A-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.
Óheimilt er að halda ketti í fjöleignarhúsum ef kattahaldið sannanlega veldur eða viðheldur sjúkdómum hjá íbúum.

7. gr.
Óheimilir staðir.
Ekki má hleypa köttum inn í húsrými eða á lóðir sem fjallað er um í fylgiskjali 3 með reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002.

8. gr.
Ónæði og óþrif af völdum katta.
Ketti skal halda þannig að ekki valdi hávaða, ónæði, óhollustu eða óþrifnaði.
Ef köttur veldur nágrönnum eða öðrum ítrekuðu ónæði, óþrifum eða tjóni, þá ber eiganda eða forráðamanni að leita leiða til að koma í veg fyrir slíkt.

9. gr.
Handsömun katta.
Heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar fer með eftirlit með framkvæmd samþykktar þessarar. Starfsmenn umhverfissviðs Reykjavíkurborgar starfa í umboði nefndarinnar og er sem slíkum heimilt að fanga í búr ketti í eftirfarandi tilfellum: a. Sé köttur ómerktur, hvort sem er með hálsól eða örmerki. b. Sé ítrekað kvartað undan ágangi katta á tilteknu svæði. c. Sé köttur innandyra hjá nágranna í leyfisleysi, á óheimilum stað sbr. 7. gr. eða án samþykkis í fjöleignarhúsi, sbr. 6. gr.

Ketti sem fangaðir eru skv. tölulið a. í 1. mgr. og ketti sem haldnir eru í fjöleignarhúsum án samþykkis meðeigenda, sbr. 6. gr., skal færa í sérstaka kattageymslu. Öðrum köttum skal sleppa lausum en eigendum eða umráðamönnum katta tilkynnt um handsömunina og ástæður hennar. Ítrekuð handsömun á köttum vegna ónæðis telst brot á 8. gr. samþykktarinnar og getur umhverfissvið bannað viðkomandi eiganda eða umráðamanni að halda kött í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Köttur sem ítrekað hefur verið handsamaður skal færður í kattageymslu. Eigandi eða umráðamaður kattar sem fluttur eru í kattageymslu skal greiða handsömunar-, fóður- og vistunargjald samkvæmt gjaldskrá um kattahald í Reykjavík áður en hann er afhentur á ný. Sé köttur óörmerktur skal eigandi hans greiða fyrir örmerkingu kattarins áður en hann er afhentur og fær gegn því beiðni sem nýta má hjá dýralækni til greiðslu fyrir örmerkingu. Ef kattar er ekki vitjað innan einnar viku frá handsömun, er heimilt að ráðstafa honum til nýs eiganda eða selja hann fyrir áföllnum kostnaði. Að öðrum kosti skal hann aflífaður. Sé einsýnt að kattahald samræmist ekki ákvæðum samþykktar þessarar getur umhverfissvið Reykjavíkurborgar bannað viðkomandi kattahald. Skal handsömuðum ketti þá ráðstafað til nýs eiganda, hann seldur fyrir áföllnum kostnaði eða hann aflífaður.

10. gr.
Tillit til fuglalífs á varptíma.
Eigendum og umráðamönnum katta ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma, t.d. með því að hengja bjöllu á ketti og eftir atvikum takmarka útiveru katta.

11. gr.
Lögregluaðstoð.
Umhverfissvið getur ef þörf krefur leitað atbeina lögreglu við að framfylgja samþykkt þessari og ákvörðunum teknum á grundvelli hennar.

12. gr.
Refsiviðurlög.
Um brot á samþykkt þessari skal fara samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

13. gr.
Lagagrundvöllur.
Samþykkt þessi staðfestist hér með skv. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum og öðlast gildi þegar við birtingu og fellur þá úr gildi samþykkt um kattahald í Reykjavík nr. 622/1999.

14. gr.
Ákvæði til bráðabirgða.
Ákvæði 9. gr. er varða ómerkta ketti taka gildi þrem mánuðum eftir gildistöku samþykktarinnar.



Umhverfisráðuneytinu, 23. ágúst 2005.

Hugi notar vefkökur til að bæta notendaupplifun á vefsíðunni og greina umferð um hana. Einnig hefur Hugi uppfært persónuverndarstefnu sína. Skoðaðu stefnuna hér..
Ok