Fjölskyldan stækkaði hjá okkur Lego (6 mánaða evrópskur húsköttur) um daginn þegar við ættleiddum 7 mánaða gamlan norskan skógarkött að nafni Óðinn. Ég hef ætlað að skrifa um hann í dágóðan tíma en hef ekki komist í það sökum kattauppeldis :)

Fyrstu 3 dagarnir voru annaðhvort eins og að heimsstyrjöld hefði brotist út í Grjótaþorpinu eða tóm helvítis hamingja. Þeir slógust eins og óðir og óhljóðin í þeim voru svo mikil að nágrannarnir héldu að ég væri að toga í rófuna á þeim, klippa klærnar og baða þá báða í einu ;) En svo þegar friður braust á þá var þetta krúttlegast í heimi. Ég man að ég skrapp útí sjoppu í smá stund fyrsta kvöldið og þegar ég kom heim sátu þeir saman, hlið við hlið í sófanum geðveikt kjurrir og stóðu svo báðir upp fyrir mér og möluðu í kór. Ég vissi þá að þetta yrði allt í lagi.

Lego elti Óðinn hvert sem hann fór og stundaði það og gerir enn að stökkva á bakið á Óðni þegar hann gekk framhjá og reyndi að fella hann. Fyndnast var þegar Lego var uppí sófa og Óðinn spásseraði framhjá honum á gólfinu og Lego lét vaða og stökk með þvílíkum tilþrifum að ég gaf honum medalíu fyrir “besta stökk innanhúss án atrennu með frjálsri aðferð í kattaböggi”. Ég held að Óðinn sé búinn að redda sér einhverju róandi til að slaka á því hann tók varla eftir Lego á bakinu og hélt bara áfram að trítla um gólfið og Lego hékk ennþá á á “hestbaki”. Ég grenjaði úr hlátri í marga tíma eftir þetta. Synd og skömm að ég hafi ekki náð þessu á video.

“Óðinn er svo mikill snillingur” eins og vinur minn sagði þegar hann sá hann fyrst gera stykkin sín. Kötturinn þurrkaði af loppunum þegar hann var búinn. Mér fannst þetta stórsniðugt og bað Óðinn um að gera mér greiða og kenna Lego þetta og viti menn, Lego er farinn að þurrka af loppunum þegar hann er búinn. Hann gleymir stundum 2 loppum en það er allt í lagi, þetta kemur.

Við erum alveg í skýjunum yfir nýja vini okkar og hann hefur verið formlega tekinn í fjölskylduna með tilheyrandi athöfn þegar Fjölnir helgarpabbi þeirra kom með harðfisk og mútaði kisunum til að líka vel við sig. Hann les þetta vonandi og mun framvegis hafa meira að gera með kattauppeldið og sandskiptin á heimilinu ;)

Við Óðinn ætlum að mæta “hress” (þetta er skrifað 6 tímum áður en sýningin hefst) og kát í Húsdýragarðinn á morgunn og ég hlakka sérstaklega til að sjá Eldibrand pabba hans þar sem ég hef heyrt sögur um að hann sé á stærð við tígrisdýr.

Sjáumst :)