10. maí sl. vaknaði ég með það hugarfar, að þetta yrði bara ósköp venjulegur dagur. Það var reyndar smá deyfð yfir mér eitthverra hluta vegna.
Ég gáði að henni Skvísu minni, því daginn áður fékk ég þá flugu í höfuðið að mögulega gæti verið styttra í gotið hjá henni heldur en við upprunalega héldum. Hún var byrjuð að leita sér að bæli, spenarnir tútnuðu og hárið datt af í kringum þá, og daginn áður hafði hún fengið slímútferð. Hún var svoleiðis eins og hún hefði algerlega sleppt sér í einhverju nammi áti, því hún belgdist út á nokkrum dögum. Breyttist úr spýtu í uppblásinn gúbbífisk. :) Þess má geta að þetta var mjög sætur uppblásinn gúbbífiskur. ;)

Ég fór aðeins út, og var ekki komin heim fyrr en um 17:00. Ég var ennþá frekar dauf, og var með mikinn höfuðverk og var óvenju þreytt. Ég settist reyndar fyrst fyrir framan tölvuna mína, í stað þess að fara beint í rúmið, eins og tölvusjúklingi sæmir. Kærastinn minn gengur inní svefnherbergið, og ég heyri hann taka þessa rosalegu andköf, og svo kallar hann á mig. “Inga! Inga! Komdu! HÚN ER BYRJUÐ!!”
Öll deyfð, höfuðverkur og þreyta hurfu eins og hent væri útum gluggann. Ég stekk inní svefnherbergið og sé hana Skvísu mína liggja í barnavagninum sem hún og hinir kettirnir hafa tekið svo mikið ástfóstur á, með einn pínulítinn kettling á bumbunni.
Á aðeins einni mínutu, vorum við búin að hringja í dýralækni til að fá áfallahjálp og leiðbeiningar, þvo okkur um hendurnar, og útbúa handa henni rúmgott bæli í stóru þvottakörfunni okkar. Kærastinn minn sá um að flytja hana yfir í körfuna þar sem ég treysti mér ekki til þess, en uppfrá því byrjaði allt gamanið.

Ég má til að minnast á, að síðan að læðan kom til okkar hefur hún sýnt fram á alveg gífurlegt traust sem hún ber til okkar. Hefur ekki orðið hvekkt, né hrædd við okkur, alltaf verið tilbúin til að vera hjá okkur og gefa okkur þessa yndislegu nebbakossa sem hún er svo fræg fyrir, og alltaf reiðubúin til að hressa mann við og mala fyrir okkur líkt og hún fengi borgað fyrir það.

Hún samþykkti mig strax og ég held að ég hafi verið svona 10 x stressaðari en hún.
Kærastinn minn þurfti reyndar því miður að fara og gat því ekki orðið vitni af þessu öllu saman, en til að þurfa ekki að vera ein, hringdi ég í vinkonu mína og bauð henni yfir. (Sem er v.á.m. stelpan sem fann hana og kom henni uppí Kattholt þar sem ég náði í hana. :) Þegar hún kom, var annar kominn í heiminn, og hún var tekin að þrífa hann og naga á naflastrenginn.
Saman sátum við þarna og fengum að upplifa fegurð fæðingarinnar, og sjá hversu mikið kraftaverk þessi athöfn er. Á innan við klukkutíma eftir að vinkona mín kom, komu tveir aðrir kettlingar í heiminn, og á eftir þeim kom allt fylgigumsið. :)

Ég hef verið viðstödd þrjú önnur got, en var það ung að ég man voðalega lítið eftir því. En ég man að mér fannst þetta vera alveg jafn yndislegt og mér fannst þetta núna.
Þarna sátum við vinkona mín, og horfðum á hvernig náttúran virkar.
Okkur fannst svo skrítið hvernig þessi læða, sem hefur alltaf verið voðalega ráðavillt og kettlingaleg, vissi nákvæmnlega hvað hún átti að gera. Hún vissi alveg upp á hár hvernig hún átti að bera sig, og hreyfa sig til, til að hjálpa við að koma kettlingunum út, hvað hún átti að gera þegar þeir komu og, og hvað átti að gera við allt gumsið sem fylgdi hverjum og einum kettling.

Þeir komu fjórir, og lifðu allir. Þeir eru allir jafn fallegir og mamma sín, og heilbrigðir. Þeir borða allir vel og tóku allir strax spenann.
Læðunni heilsast mjög vel, og hefur tekið vel til matar síns, og gerir ekkert nema að mala, og ég SVER að hún brosi. ;)

Mér fannst þetta ágætur dagamunur, miðað við hvernig mér leið þegar ég vaknaði. :)
Ég vona að ykkur þótti lesningin góð, því mig langaði svo rosalega að deila þessu með ykkur. :)

Axelma.