Ég er nú eiginlega orðin svolítið reið yfir allri þessari umræðu um hreinRÆKTUN katta. Ég skil ekki hvernig er hægt að upphefja einn kött yfir annan, hvað þá eitt dýr yfir annað. Þar sem ég er ekki mjög fróð um þetta mál væri gott að þið ræktendur gætuð útskýrt fyrir mér hvernig einn köttur getur verið betri en annar.

Ég er ekki tilbúin til að kaupa það að þeir séu betri karakterar, það er bara rugl. Karakter fer ekki eftir tegundum heldur einstaklingum OG EIGENDUM. Auðvitað eru til klikkaðir kettir en það er líka til klikkað fólk. Eigum við þá ekki bara að hefja ræktun á fólki ef okkur er svona mikið í mun að velja okkur lífsförunauta. Það væri nú fínt ef maður gæti bara keypt sér hreinræktaðan maka hjá næsta ræktanda, nú eða bara barn, og losnað við öll þau vandamál sem fylgja því að fá ekki karakter sem manni líkar við.
Ég man ekki betur en að fyrir nokkrum árum voru til sölu hér hreinræktaðir St. Berharðshundar sem voru allir meira eða minna gallaðir, klikkaðir eða vanskapaðir. Getur það ekki líka komið fyrir ketti?

Annað mál, eins og ég svaraði grein Skotts hér um daginn, brenglast ekki verðmætamat fólks á dýrum? Blandaðir kettlingar eru gefnir eða þeim er lógað því þeir eru ekki nógu góðir fyrir þá sem bíða í biðröðum eftir hreinræktuðum kettlingum. Finnst ykkur það ekki ömurlegur fylgikvilli hreinræktunar? Hvernig réttlætið þið ræktendur það að aðrir þurfi að deyja útaf því að þeir eru ekki af þessu kyni eða með sérstakan ættföður eða móður? Er ekki nóg af heimilislausum kettlingum til fyrir þá sem vilja ketti? Eru þetta kannski duldar “þjóðarhreinsanir”?

Skott minntist á það að fólk sem keypti dýrin sín hugsaði betur um þau. Skott mín, það held ég að sé tálsýn sem þú blekkir sjálfa þig með, ef fólk vill fara vel með dýr gerir það það frá hjartanu, en ekki frá buddunni. Það skiptir ekki máli hvort kisan þín eða hundurinn kostaði eitthvað eða ekki svo framarlega að þér þyki vænt um hann/hana.

Eina sem ég sé í þessu eru peningarnir, en í grein hér á undan er bent á að þeir séu nú ekki miklir eftir bólusetningu og ormhreinsun o.s.frv.

Eins og áður sagði skil ég ekki þessa upphafningu og vonast til að fá góðar skýringar frá ykkur sem meira vita um málið.

p.s. Er þetta bara ekki snobb?
Catwoman