Fyrir tveim vikum fékk ég eina yndislega kisudúllu og ákvað að taka aðra inn þegar hún væri orðin örugg á umhverfinu hér. Það gerði ég á þriðjudaginn (í fyrradag), og sú nýja er líka alveg frábær.
Vandamálið er samkomulagið þeirra á milli, þær eru hreint út sagt alveg snarvitlausar hvor við aðra. Sú eldri (10 vikna) heldur að sú nýja(7 vikna) sé skemmtilegt dót og hleypur á eftir henni út um allt og ræðst á hana eins og hún gerði með bangsana sína. Nokkuð sem sú yngri er ekki ánægð með. Það logar allt í hvæsi og slagsmálum milli þeirra og ég er að velta fyrir mér hvort þetta eigi ekki eftir að batna?
Sú yngri tók heimilinu og fólkinu mjög vel strax, er mjög blíð og góð og virðist allra helst bara vilja fá að kúra í rólegheitum eða leika sér (á ofbeldislausan hátt). Eina rólega stundin er þegar þær eru að borða eða þegar þær steinsofna, úrvinda eftir átökin!
Þetta er ofsalega erfitt, sú eldri bara GETUR EKKI látið þá yngri í friði, sama þótt hún fái hvæs og sé slegin af henni. Og að aðskilja þær gengur alls ekkert, því að þá væla þær hvor í sínu horni og vilja komast á sama svæðið!
Ég er alveg ráðalaus, veit ekki hvernig ég á að taka á þessu, veit ekki einu sinni hvort þetta sé nokkuð sem er vert þess að hafa áhyggjur af?
Hafið þið einhverja reynslu af svona ósætti, og er eitthvað sem ég get gert í þessu, eða er málið bara að bíða og leyfa þeim að vinna úr þessu sjálfum? Mér sýnist þær nú ekki meiða hvor aðra, þó svo mér finnist aðfarirnar nokkuð harkalegar á stundum!
Verið svo væn að hjálpa mér, ég er alveg á nippinu hérna með þær!