<img align=“left”height=“150”width=“200”src="http://w ww.sltrib.com/photo/staff/al/alart/np4.jpg“>Nú er ég löngu yfirlýst kattakona, reikna með að áhuginn hafi byrjað á fósturstiginu þegar læðan hennar mömmu malaði á kúlunni. Ég fékk þetta semsagt beint í æð.

Ég hef átt 5 ketti á minni 24 ára ævi (þar með taldar tvær uppeldissystur mínar), hvern öðrum yndislegri, þótt þeir hafi allir verið ”venjulegir“ húskettir. Undanfarna mánuði, eftir að Músus minn dó hef ég hins vegar verið að velta fyrir mér að gerast grand á því og verða mér úti um ”hefðarkött". Ég fór að lesa mér til um þetta á netinu og las einhvers staðar að þrír af hverjum fjórum þeirra sem velja sér hreinræktaðan kött velja Persa eða skyldar tegundir, eins og til dæmis Colorpoint, Exotic og Himalayan. Ég vissi jú að þessar týpur væru vinsælar en gerði mér engan veginn grein fyrir að það væri í þessum mæli.

Nú er ég kannski að komast í þversögn við sjálfa mig þegar ég sagðist vera kattaaðdáandi, en það vill svo til að persar eru einu kettirnir sem mér þykja hreinlega bæði ljótir og leiðinlegir. Vil helst ekki alhæfa svona, en því miður hafa allir þeir persar sem ég hef komist í kynni við (7 stk) verið alleiðinlegustu dýr sem ég hef hitt.

Nú er ég ekki að reyna að skíta yfir þau ykkar sem eigið þessa ketti, heldur langar mig að vita hvað það er sem er svona heillandi við þessi dýr?

Kannski hef ég bara verið svona afspyrnu óheppin með þau grey sem ég hef kynnst, en mér finnst einkennilegt að öll eintökin sjö hafi bara verið einhver misfóstur, öll áttu þau góða eigendur sem höfðu að því er ég veit ekki gert neinar stórkostlegar gloríur hvað uppeldið snertir.

Nú væri gaman að fá álit á þessari skoðun minni (sem ég ítreka að er jú einmitt bara það, mín skoðun), þið megið jafnvel reyna að koma mér á aðra skoðun, því að ég skammast mín eiginlega að geta ekki þolað þessa tegund, þar sem ég er svo yfir mig hrifin af öðrum köttum almennt. Fæ barasta samviskubit.