Síðustu daga hef ég verið að líta í kringum mig eftir kettlingi sem hentaði mér. Í DV í dag er dálkur sem kallast gefins. Þegar ég renndi yfir auglýsingarnar tók ég eftir því að þar voru mjög margir kettir, og ekki síður kettlingar, gefins. Ég ákvað að slá tölu á þá og reyndust þeir vera í kringum 50 talsins.
Mér líður bara illa af að vita þetta.
Er þetta ekki ábyrgðarleysi af hálfu kattaeigenda? Þó litlir kettlingar séu voða sætir og skemmtilegir stækka þeir fljótt og þurfa þá ný heimili.
Auðveldasta leiðin til þess að koma í veg fyrir fjölgun heimilislausra katta er að láta gelda kettina sína. Það er hvorki flókið né dýrt að fara með þá til dýralækins í geldingu.
Ég vil hvetja kattaeigendur til að hugsa um þennan fjölda heimilislausra katta áður en þeir ákveða að láta dýrið sitt eignast kettlinga.