Það er eilítið kjánalegt að á Jazz og blúsvef skuli aldrei minnst á einu almennilegu Jazz/blús söngkonu Íslands, Andreu Gylfadóttur. Það ætti samt sem áður ekki að koma neinum á óvart og er í raun henni að kenna að vissu leyti. Jú, hún kemur aldrei í viðtöl hvorki í blöðum né sjónvarpi og ef hún gerir það þá er það aðeins til þess að skjóta inn í fáeinum orðum um hvar hún verður næst. Aldrei flaðrar hún uppi eða er með ósmekklegar sýningar sem því miður einkenna ansi margar íslenskar söngkonur.
Ekki er heldur hægt að finna stakt orð um hana á netinu. Ég hef nú leitað þar heil lengi og það eina sem ég veit er að hún er ofan af Akranesi því amma sagði mér það.
Framkoma Andreu er líka mjög látlaus en samt einlæg. En það er einmitt það sem heillaði mig fyrst við hana. Maður getur séð á andliti Andreu hvort hún sé sátt við það sem hún er að gera hverju sinni. Á tónleikum Stórhljómsveitar Reykjavíkur var hún ekki sátt. Í Fólki með Sirrýju síðast var hún mjög sátt enda búin að finna meðsöngvara sem hentaði henni vel; látlaus rödd en hressileg framkoma einkenndu þennan smarta gæja. Sú staðreynd að framkoma hennar lýsir alltaf hennar upplifun á hverjum tíma er mjög heillandi við Andreu og bætir upp kuldann sem skín í gegn í snöggum viðtölum.

Andrea Gylfadóttir er eina íslenska söngkonan sem hefur búið sér til alvöru stíl sem Blús/jazz söngkona. Röddin fáguð og klikkar aldrei jafn vel þegar hún syngur erfiðustu kaflana. Stíllinn felst fyrst og fremst í því að enginn getur leikið þetta eftir henni ólíkt til dæmis Kristjönu (eða hvað hún heitir), konunni sem gaf út plötu nú ekki fyrir löngu. Þá rödd hefur maður heyrt svo oft áður. Rödd Andreu nýtur sín best, að mínu mati, í Lady sings the Blues og Ball ‘n’ chain á disknum hennar Andrea og Blúsmenn sem hún gaf út 1998. Sveiflast hún frá djúpum tónum sínum upp í háa falsettu sína án þess að fipast nokkurn tímann. Dramatíkin í Ball ‘n’ Chain er ótrúlega vel heppnuð.

Ég efa það að hún verði nokkurn tímann metin að verðleikum fyrr en komandi kynslóðir gera það eftir hennar daga. Hennar verður minnst sem kalda íslenska blússöngkonan sem flestir misstu af.

Mikið af þessu er örugglega algjör rugl fyrir ykkur. Margt hljómar örugglega heimskulega og jafn vel rangt. Kannski er Andrea ekkert svona og líklega er eitthvað til um hana. Ég geri þessa annars slöppu grein til þess eins að búa til umræður um hana. Hún á það svo sannarlega skilið þessi drottning íslenskrar blússöngkvenna.

Ef þú lest þetta Gísli Marteinn þá væri gaman að sjá hana í þætti þínum. Þetta persónulega plugh fyrir vini þíni er leiðinlegt.